Leyndarmál Gunnu gömlu

Í Skipholti bjó gömul kona áður en foreldrarnir keyptu húsið. Þessi kona hét Guðrún og var kölluð Gunna. Henni er lýst sem góðri konu enda er góður andi í húsinu. Það er víst nokkuð síðan þessi kona dó en mér verður stundum hugsað til hennar þegar ég er hérna. Það verður ekki sagt um hana Gunnu að hún geri vart við sig en ég heyrði um daginn að hún hefði verið sparsöm og nýtin kona sem útskýrir kannski púkann sem kom upp í henni í síðustu viku..þegar frúin gerði vart við sig!

            Ég var búin að vinna 15:30 einn daginn og kom heim 10 mínútum síðar. Ég fékk skyndilegan innblástur um að skreppa inn á Akureyri og redda mér netlykli svo ég kæmist í samband við umheiminn hérna heima fyrir. Ég tók mig aðeins til henti dóti í töskuna mína en fann ekki budduna mína í fljótu bragði. Ég fór því út í bíl, sannfærð um að hún væri þar síðan mín borgaði í göngin. Ég skokkaði léttfætt út í bíl enda dásamlegt veður og margar ástæður til að vera hýr og glaður. Buddan var ekki þar. Ég fór yfir þessa helstu staði þar sem hún ætti að vera í bílnum en fann hana ekki og ákvað því að hún væri inni og skokkaði því aftur inn. Þar fann ég hana ekki eftir aðeins ítarlegri leit en áður. Ég fór því aftur út í bíl sannfærð um að mér hefði yfirsést eitthvað. Ég tók mér poka í hönd og henti smádrasli og fór nú nákvæmlega yfir bílinn enda gat hún varla annars staðar verið. Buddan fannst hvergi. Þá fór ég aftur inn og hóf afar nákvæma yfirferð yfir allt húsið (sem er nú ekki stórt) en ég tók mér góða 2 tíma í að skríða öll gólf, flokka ruslið, fara ofan í alla vasa á öllum flíkum sem ég fann (meira að segja þeim sem ég hef aldrei farið í), kíkti inn í ofn og alla þá mögulega og ómögulega staði sem ég hefði hugsanlega getað látið budduna frá mér..en allt kom fyrir ekki. Buddan var horfin! Ég hringdi og lét loka kortunum mínum, labbaði hringinn í kringum húsið með nefið í grasinu, lagðist flöt í mölina til að kíkja undir bílinn og rölti út í búð ef hún skyldi vera þar en enginn kannaðist við bleiku budduna mína.

 

Ég dró í kjölfarið þá ályktun að Gunna gamla hefði fengið budduna lánaða og hætti leitinni.

 

Ég var svosum ekki að stressa mig á þessu því ég vissi vel að Gunna gamla væri með hana, það var engin önnur rökrétt skýring á hvarfinu. Móðir mín tók hvarfinu öllu verr og tók upp á þeim óskunda að hringja í mig í vinnuna til að koma með þá frábæru uppástungu að setja upp auglýsingu í kaupfélaginu. Mér var ekki skemmt enda hélt ég að einhver væri dáinn: Bannað að hringja í mig í vinnuna! Ég vann frameftir þennan dag svo búðin var lokuð þegar ég sneri heim og fór svo á næturvakt svo ekki náði ég að setja upp auglýsinguna góðu daginn eftir. Ástandið í ísskápnum var hverfandi og sat þar ein einmana ab mjólk innan um smörlíki, sultur, þykkni, útrunnin feta ost og bjórdós (það væri þá tilefni til að hefja drykkju!). Ég var þó búin að finna pakkasúpur sem mér fannst ekki spennandi en allt er hey í harðindum eins og þeir segja. Mér hafði líka tekist að nurla saman rúmum 300 krónum í 5 og 10 köllum úr bílnum en langaði vægast sagt lítið til að fara út í búð og hella úr lófunum klinkinu yfir kassadömuna! Þetta voru pælingarnar eftir seinni næturvaktina þegar ég var búin hella í mig ab mjólkinni og var að velta því fyrir mér hvað ég ætti að éta um kvöldið. Ég sagði því stundarhátt: „Gunna mín! Nú verðuru að fara skila buddunni, mig er farið að vanta hana sárlega” Veðrið var gott úti svo ég ákvað að skreppa á göngu og taka myndir. Ég rölti inn í stofu að sækja vélina og verður þá litið á tölvutöskuna mína í einu horninu. Það er vert að taka það fram að ég var búin að tæma töskuna þrisvar sinnum í leitinni en taldi það ekki vitlaust að kíkja í hana í 4. skiptið og.. Obb, bobb bobb hvað haldið þið? Gunna gamla sá að sér og skilaði buddunni.

 

...Nú þarf ég bara að fara inn á Akureyri í Landsbankann til að opna kortin mín...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hún er greinilega ansi kræf hún Gunna gamla. Ætlar þér greinilega að spara vel í sveitinni en það má nú samt ekki svelta stelpuna.

Annars er gott að heyra frá þér. Reyndi að bjalla í gær og allt slökkt.

Heyri í þér very soon og miss u very much. Hvernig væri að koma í bæinn á reunionið um næstu helgi????????????????????? GÓÐ HUGMYND hjá mér ekki satt?

Þóra Björt (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 09:48

2 identicon

Jú en ég er að vinna..þú verður bara að njóta mín þegar ég kem heim í afmælin,) Annars var ég að reyna ná í þig í dag því ég var að leita að afmælisgjöf handa syni þínum. Alltaf jafn vitlaus í þessum stærðarmálum!

Liljan (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 20:56

3 identicon

Já ég sá það...........var á málþingi um heilsu óháð holdafari en alla vega þá notar hann 128 að ofan en 122 að neðan

Þóra Björt (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 21:57

4 identicon

Heyrðu! Ég held ég hafi lesið um þetta málþing!! Hét annar fyrirlesarinn Bacon?

 ...kaldhæðið, segi ekki annað!

Liljan (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 13:28

5 identicon

Hæ hæ.

Vona að þú hafir það gott í sveitinni. Pínu öfundsjúk, væri alveg til að vera fyrir norðan í sumar. Gott að þú fannst budduna og sveltir ekki. Annars geturu alltaf fengið þér hundasúrusallat eða súpu.

Jóna Björk (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 12:47

6 identicon

heheh já Linda Bacon:):)

Þóra Björt (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 09:04

7 identicon

Halló ekki gengur mér að senda hér smá línu!!! test 4

Þóra sys (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 18:11

8 identicon

Sko, ég sagði þér þetta Lilja mín.. að þú ættir bara að hætta að leita og þá myndi bleika buddan birtast líkt og fífill úr iðrum jarðar .. eða meira svona úr höndum Gunnu.. En þú verður að muna að þakka Gunnu upphátt fyrir að skila buddunni því hún hefði nátturulega ekki þurft að gera það blessunin - eða haldið þessum feluleik eitthvað áfram. Hún hefur greinilega kennt í brjósti um sveltandi hjúkrunarfræðinemann og séð að sér ...

Hlakka til að sjá þig kella,
Har det bra og don't work over yourself!!

helgan (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 23:37

9 identicon

Jú takk fyrir það! Ég skal muna að þakka Gunnu gömlu upphátt þegar ég kem heim í kvöld

Liljan (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband