Ég fór út að hlaupa um daginn sem er svosum ekki merkilegt fyrir neinar sakir svona yfirleitt..þangað til núna. Þegar ég hleyp sveitahringinn beygi ég niður hjá bæ sem heitir Kálfsá og hoppa þar yfir þrjár girðingar (klofa væri réttara) og hleyp þar smá spotta meðal spakra rolla. Þá kemur brú sem mér leist í fyrstu ekkert á, enda að hruni komin. Ég hef þó lært að treysta brúnni enda er hún traustari en hún virtist í fyrstu þegar ég nánast skreið yfir hana á fjórum. Í annarri ferð fór ég á fetinu en núna trampa ég eins og mér einni er lagið og finn timbrið dúa undir loftpúðunum. En það er annað mál...!
Þegar ég hljóp hringinn um daginn í blíðskaparveðri, klofaði yfir girðingarnar og rak rollur á undan mér, tók ég eftir því að ein þeirra var sein af stað (yfirleitt taka þær sprettinn þegar þær sjá mig horfa á þær!). Hún var það lengi að koma sér af stað að ég hægði á mér og skokkaði rólega að henni og sá þá hjá henni tvö lítil lömb. Annað var aðeins rautt en mér fannst einhvern veginn fráleitt að það gæti verið blóð svo ég pældi lítið í því en þegar rollan stóð upp og hopaði undan mér sá ég hvar hildirnar hengu aftan úr henni. Rollan var því nýbúin að bera þegar ég kom og truflaði hana. Ég datt alveg úr sambandi við þessa sjón og fylltist lotningu gagnvart þessu kraftaverki. Eftir nokkrar sekúndur komst ég þó í samband þegar lagið Fuel my fire með The Prodigy blastaði af fullum krafti úr heyrnartólunum og passaði svona innilega ekki við sveitarómantíkina sem ég var að upplifa. Tónlistin kippti mér fljótt niður á jörðina og við tóku praktískar pælingar eins og hvað maður eigi eiginlega að gera þegar ær bera. Ég pírði augun á sveitabæinn en dró þá ályktun að enginn væri heima. Mér datt í hug að hringja í pabba og spyrja hann en legg ekki í vana minn að hlaupa með símann (ólíkt sumum sem svara í símann á hlaupabrettinu í Laugum..) svo ekkert varð úr því. Ég horfði á rolluna með lömbin sín og ákvað, svona til að róa mig, að rollur væru nú búnar að gera þetta í svo mörg ár að þær hlytu að vita hvernig ætti að bera sig að. Ekki vissi ég það, það var alveg klárt mál! Ég kláraði hringinn léttfætt en gleymdi alveg að minnast á rolluna við pabba þegar hann hringdi um kvöldið. Þegar ég lagði á mundi ég eftir því og þegar ég var að fara hringja aftur til að spyrja hringdi afi. Ég var náttúrulega svo yfir mig hrifinn að heyra í karlinum að ég steingleymdi að spyrja hann um rolluna og endaði á að senda Dísu litlu sms: Hvernig ber maður sig að þegar rollur bera?
Þessa fávisku mína verður bara rakin til þess sem ég fór á mis við, við það að alast upp í Reykjavík. Ég hef ekki einu sinni farið í réttir sem er náttúrulega bara Skandall með stóru S-i! Það var því ekki að ástæðulausu sem mín fékk hland fyrir hjartað þegar einn rollubóndinn í vinnunni sagði það slæmt mál að rollan hefði verið svona alein ef krummi léti sjá sig. Ég varð samt ekki vör við neina krumma, bara kríur..en ég náttúrulega heyri ekkert þegar ég er að hlusta á ipod. Ég held við getum öll verið sammála um það.
Fylgjan hjá rollunum heitir semsagt hildir..ef ég man þetta orð rétt! Ef ég er að fara með rangt mál..tja! Þá held ég að ég verði bara að krefjast þess að vera tekin í fóstur í sveit að ári og læra þessi hugtök, beint frá bóndanum.Flokkur: Vinir og fjölskylda | 3.6.2008 | 11:49 | Facebook
Athugasemdir
oo Lilja þú ert svo skemmtilegur penni I insist að þú leggir skriftir fyrir þig.. alveg brill mep budduna já helduru að þú bara finnir ekki einhvern bónda þarna ..Ég frétti að mamma gæti bara ekki þverfótað sig fyrir öllu fólkinu í saint olafs sem væru svo ánægð með hana Lilju svo dugleg og ég veit ekki hvað og hvad en það er auðvitað ekkert nýtt fyrir okkur:)
Nýtt blogg og nýjar dúllumyndir af litlu frænku á babylandi sem segir ilja og didda mía hægri vinstri :)
Finnst þetta Eurovision þema ekki svo vitlaust sem þú varst að tala um daginn veit ekki hvernig tilvonandi myndi taka því gætum jafnað það út með smá kiss með hahah hvern helduru að myndi einhvern tímann toppa þig elskan.. farðu nú að henda þessari hógværð útum gluggann og taka sjálfa þig soldið hátíðlega :)
Luv aus Suomi
p.s 30 dagar í brúðkaup
Arnie finns (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 20:15
Fussum svei, tvær vikur í "sveitinni" og þú ert ekkert búin að læra!
disa (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 00:48
Vá takk sys! Það er náttúrulega svo gott fólk hérna í Saint Olafs að ég get ekki eignað mér neitt í því sambandi..! En ég fékk dáldið sjokk að fatta að það séu 30 dagar í brúðkaupið! Það er eins gott að fara spýta í lófana og græja Euroþemað! Annars var ég nú bara að grínast, ) Hélt samt að þið hefðuð tekið mig alvarlega þar sem undirtektirnar voru vægast sagt dræmar. Ojæja...!
En það er rétt sem Dísa segir: 2 vikur í SVEITINNI og ekkert búin að læra í sambandi við sauðburð. Oseisei...
Liljan (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 13:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.