Að halda kúlinu, þrátt fyrir allt..

Ég var að hjóla heim úr vinnunni um daginn þegar ég mætti móðurbróður mínum á göngu. Það var fínasta veður en ég undraðist það samt að hann skyldi ferðast um á tveimur jafnfljótum. Lenskan hér er að nota bílinn til að skreppa en ég geng eða hjóla (pabba til ama: “Ertu ekkert búin að hreyfa bílinn?! ..Þú verður að hreyfa hann!”) Frændi var heldur þungbúinn en ég komst fljótt að því hvað hrjáði karlangann. Bíllinn, Dodge-inn, er dáinn. Það er að segja sjálfskiptingin er farin. Karlinn sá því ekkert fyrir sér annað en að henda bílnum og finna sér nýjan en þar var einmitt hundurinn grafinn. Bílasölurnar eru inni á Akureyri og þangað eru ca 50 km. Ég sagði honum að það væri nú ekkert til að hafa áhyggjur því hann gæti bara fengið prinsinn til að skreppa þetta. Það birti heldur yfir frænda sem var alveg dolfallinn yfir því að ég skyldi bjóða honum ökutækið mitt (ekki eins og prinsinn sé Bugatti!). Ég sagði honum að prinsinn yrði fyrir utan hjá mér og lykillinn í honum svo hann gæti bara sótt hann í fyrramálið áður en hann færi inn eftir.

En þá kom babb í bátinn minn.

Prinsinn var ekkert ægilega þrifalegur. Pabbi sagði mér áður en ég lagði af stað að ég yrði að ryksuga hann, það væri bara ekki sjón að sjá inn í hann og ég á leiðinni norður! Ég var hins vegar fullviss um að Ólafsfirðingar myndu ekki liggja á rúðunni hjá mér til þess að skoða inn í hann og fór því á honum “óryksuguðum” norður. En nú ætlaði frændi að fá bílinn svo ekki gat ég boðið honum upp á þetta. Ég fór því með bílinn niður á Hótel og ryksugaði hann hátt og lágt. Eftir að hafa ryksugað hann fannst mér þetta svo hriiikalega gaman að ég ákvað að vaða í einn kústinn og þrífa hann bara almennilega í leiðinni. Ég var að klára að ryksuga þegar maður á jeppa keyrði að einum kústinum og út stökk reyndur bílakústaþrífari svo ég ryksugaði nokkur ímynduð korn úr bílnum og dólaði í von um að hann færi svo ég gæti byrjað. Það voru tvær ástæður fyrir þessu: Í fyrsta lagi: Prinsinn má ekki fá minnimáttarkennd við hliðina á nýjum Land Cruiser (jú jú, vanur en þessi var ókunnugur) og í öðru lagi: Ég er ekkert sérstaklega lagin við svona kústa..svo ekki verði meira sagt. Ég gafst samt fljótt upp á því að ryksuga eitthvað sem ekki var svo ég renndi upp við hliðina á jeppanum og byrjaði á að kústa motturnar. Það fór heldur brösuglega af stað enda mikill kraftur í kústinum, heldur meiri en ég bjóst við. Vatnið frussaðist því um allt og ég mátti hafa mig alla við að hafa einhverja stjórn á honum. Ég ætlaði bara að taka mér góðan tíma í motturnar þangað til kauði léti sig hverfa en það var ekkert hægt að dóla –þetta var bara hörku puð! Það varð því fljótt ljóst að ef ég ætlaði að ná að fara yfir allan bílinn í stað þess að gefast upp á miðri leið yrði ég bara að gjöra svo vel að kyngja stoltinu og kústa hann með áhorfanda. Ég náði að flengja kústinum niður á húddið og hamaðist þar sem vitlaus væri (það leit allavega þannig út en í raun var það bara örvæntingarfull tilraun af minni hálfu að hafa stjórn á þessu kraftmikla tryllitæki sem bílaþvottakústar geta verið). Grasið ætlaði bara ekki af en ég hélt áfram og elti kústinn á aðra hlið bílsins. Ég reyndi að nudda kústinum vel á neðri hlutann enda var mest rykið þar. Það reyndist mér þó erfitt þar sem varla er hægt að segja að kústurinn hafi snert stálið (slíkur var vatsnstraumurinn). Þegar jeppadúddinn við hliðina á mér hvarf á bak við sinn bíl skolaði ég þakið enda náði sprænan úr mínum kústi ískyggilega nálægt bílnum hans (þó var kúststæði á milli okkar). Ég fór yfir rassinn á bílnum en þá kom slinkur á slönguna svo ég togaði en það dugar víst ekki til að leysa úr slíkri flækju. Á meðan byggðist upp meiri kraftur svo ég missti næstum takið á kústinum þegar vatnsflaumurinn braust af enn meira afli fram í kústinn. Ég hélt að sjálfsögðu kúlinu allan tímann með hárið klístrað blautt framan í andlitinu á mér og sólgleraugun á nefbroddinum. Þegar kom að hinni hlið bílsins féllust mér hendur enda töluvert meiri skítur þar en hinu meginn. Ég var að niðurlotum komin en dröslaðist þó í gegnum þetta og kláraði. Ég var ansi fegin þegar ég slökkti á krananum en þá flaug að mér sú hugmynd að kannski hefði bara verið betra að skrúfa ekki alveg frá svo bunan yrði aðeins slappari. Ég nennti samt engan veginn að standa í því þarna enda búin að þrífa bílinn. Ég skellti blautum mottum í bílinn og ók heim á leið. Þá gerði ég mér ferð inn í Skipholt að sækja tusku og þurrka skyrið innan úr bílnum síðan börnin “mín” átu þar heila skyrdós með puttunum... Ég var harla ánægð með afraksturinn en sú gleði hrundi eins og spilaborg þegar bíllinn fór að þorna.

Það eru helgidagar út um allt.

Ég ætla að kaupa mér klippikort á bílaþvottastöð. Ég er bara engin manneskja í bílaþvott og játa mig sigraða. Ég gefst upp!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert svo mikið yndi. Ég skil þig mæta vel með bílaþvottinn hef einmitt upplifað þónokkra helgidaga þó ég hafi lagt mig alla fram... þetta er bara ekki hægt. Haltu áfram að skrifa til að skemmta mér í vinnunni.

Hlakka til að sjá þig þar þar næstu helgi............er þaggi rétt hjá mér?

Heyri í þér fljótlega sæta.

Þóra Björt (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 14:06

2 identicon

Elsku Lilja mín!  Hér kemur umbeðið komment!

Takk fyrir skemmtileg skrif (þrif!), þú ert yndislegur penni, alveg ljómandi fín skemmtun svona inn á milli verka!!! ;-)

Love, Lísa.

Lísa (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 16:31

3 identicon

eftir marga mánaða árangurslausa áreynslu að fá sixpack fyrir brullöpið og magaæfingar hér og þar innan um um allt dótið hennar Ví og svona þegar maður finnur sér dauðastund alltaf lætur neðri maginn á sér standa hef ég komist af leyndarmálinu..

 Og það er að lesa bloggið þitt elsku sys maður lifir sig svo inni þetta ég get séð hverja hreyfingu ó mæ þú er svo fyndinn.. hvernig gekk svo ferð frændans til Akureyrar?

 Ertu búinn að fara í Sjallann og gá hvort einhverjir bændur leynast inn á milli:)

The bride to be (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 09:41

4 identicon

Þóra: Ég kem í afmælið til Jónu Bjarkar..það er 21.?! Þá kem ég og knúsa alla á kaf. Arnasys og Ví og allir á landinu. Mmmm hvað það verður gott!

Lísa: Takk fyrir það! Yfirkommentari?

Arna: Frændi kom til baka á glæsilegum Toyota Prius!

Gott að geta hjálpað þér í baráttunni við neðri mallann Ég keypti kort í ræktina í gær og hló mig máttlausa þegar ég sá Pepsivængina mína..Obbobobb! Já haltu áfram að brosa sólargeisli, þú ert sérstakur. Sjallinn er ekki fyrir mig, gerði heiðarlega tilraun til að vera menningarleg á Akureyri um daginn og ætlaði að kíkja í Nonnahús og svona en þá var bara allt lokað, opnaði ekki fyrr en 1. júní. Annars ætla ég að fá Ví lánaða þegar ég kem heim og fara með hana og Diddumíu í óvissuferð. Það verður afmælisgjöfin í ár Þú getur þá græjað eitthvað fyrir brullaupið ef eitthvað er eftir..t.d. liggja í sólbaði í sundi í hálfan dag eða svo,)

Knúsar á línuna.

Liljan (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 13:51

5 identicon

.. Hæ kella mín.. Vá hvað ég sé þetta fyrir mér - þú er rembast eins og rjúpa við staur við að ráða við kústgemlinginn. Ég er löngu búin að játa mig sigraða í þessum efnum - síðast þegar ég gerði þetta sjálf skvetti ég meira vatni á bilhróið sem parkeraði við hliðina á mér á þvottaplani bensínstöðvarinnar en á eigin drossíu og aumingjans karlgarmurinn sem hamaðist við að dúbba upp á bilinn fékk líka sinn skerf að skvettum! Þegar maður er farinn að baða ókunnuga karlmenn endurgjaldslaust á almannafæri þá er tími til kominn að leggja þetta í hendurnar á fagmönnum :)

Sé þig í anda sem verðandi ljósmóður velta fyrir þér á iðgrænu sveitatúni hvernig eigi að bera sig að við kindaburð ... vona móður og lömbum heilsist vel, þú verður nú að tékka á þeim við tækifæri :) .. en þarna hefði nu verið gott að vera með símann!! (fyrirgef þér kommentið á símann og Laugar - no hard feelings.. hahahha)

Hlakka til að sjá þig, haltu áfram að skrifa - alltaf gaman að lesa færslurnar þínar

Luv
Helgan

Helga (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 14:24

6 identicon

... já og ég gleymdi að segja tvennt í gær þegar ég ritaði kommentið hér að ofan..

Í fyrsta lagi veistu meira en ég hvað varðar sveitabraskið og gang lífsins hjá gibbagibb því þegar ég las fyrirsögnina hélt ég í sakleysi mínu að þú hefðir hitt margar Hildar þarna á st. ólafs og var ég þá með kvenkyns mannverur í huga en ekki fæðingarslóða móðurkindarinnar!!

Hins vegar, með skotið hvað varðar laugar og símann í huga, get ég hringt strax á sjúkrabíl ef konan á brettinu við hliðina á mér fær hríðir  (sem er alveg líklegt að gerist einhvern tíman í sumar því þær eru alveg þónokkrar sem bera barn undir belti þarna í Laugum).. en kindagreyið í sveitinni þurftir að bagsa í þessari fæðingu alveg upp á eigin spýtur því enginn sími var til taks til að hringja á hjálp .... :) Þannig það kemur að góðum notum að hafa símann með á brettinu - skylda hvers hjúkrunarfræðings .. hahahahaha

Nú er ég að fara fyrir hönd okkar beggja að fá mér spínatsúpu á garðinum og ef til vill gulrótaköku á eftir ef maginn leyfir - svona áður en maður mætir á kvöldvaktina.. :)

kiss og kram,
Helgan

Helga (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 12:26

7 identicon

Bannað að fara á Garðinn án mín..án þess að fá sér köku í desert

Liljan (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband