Ég varð himinlifandi um daginn þegar Valdi kom heim með símaskránna. Ég settist við eldhúsborðið með skrudduna fann fljótt myndasögu Hulla og hóf lesturinn. Á meðan voru þau feðgin að vesenast í tölvunni. Eftir um 10 mínútur (þegar Dísa var búin að rölta nokkrum sinnum fram hjá mér) sagði hún full samúðar: Af hverju flettirðu ekki númerinu bara upp í tölvunni?! Hélt semsagt að stafrófið vafðist svona svakalega fyrir frænku sinni sem henni virðist á tímum helst eiga heima á Árbæjarsafninu..svo forn! Ég hló bara að þessu og sagðist vera að lesa söguna og hélt svo áfram. Stuttu síðar kom Valdi og snaraði fram Apple lappanum, setti hann á borðið hjá mér og sagði mér blessaðri að fletta númerinu upp.
-Pabbi vakti mig um daginn (kl 22:30) og bað mig vinsamlegast að taka ekki upp á neinni vitleysu eins og að labba ein upp í Fossdal. Þeir töldu víst að það væru jafnvel fleiri ísbirnir á ferli (agaleg tilhugsun að hugsa til þess að litla dýrið væri étið af ísbirni). Um nóttina dreymdi mig flótta undan ísbjörnum og rifjaði þar upp ótta minn gagnvart dýrinu sem var helsti efniviður martraða minna þegar ég var 5 ára..áður en stríðshörmungar tóku við sem terror númer 1,2 og 3. Eftir það tók við hákarlafóbía sem ég hef ekki enn losað mig við að fullu..
-Mútta og far komu svo í heimsókn hingað um daginn og átu á sig gat í 4 partíum (þar af einu brúðkaupi) á tæpum tveimur sólarhringum (svona er lífið hér á St Olafs!) Þau voru að leggja í hann og mútta komin út í bíl þegar ég rek augun í gemsann hennar inni í eldhúsi. Ég rölti því út að kveðja pabba og beið átekta hvort frúin myndi taka eftir gemsaleysinu. ..átti svosum ekki von á því! En það gerði hún nú samt, hún stökk út úr bílnum og kallaði: Eru símarnir mínir inni? Þetta er náttúrulega gullin setning frá konu sem fyrir stuttu síðan fór að leggja það á sig að bera símann sinn á sér (þrátt fyrir að vera búin að eiga slíkt apparat í nokkurn tíma) og ekki nóg með það: Með tvo í takinu!
-Helena var svo fyrsti gesturinn minn hingað í Skipholt það sem af er sumri. Hún kíkti yfir helgina með Rebekku og Ísak Darra og áttum við frábæra daga saman. Skruppum m.a. inn á Siglufjörð á safnið hans Grétars, sötruðum kaffi og nörtuðum í biscotti í Eymundsson á Akureyri.. Svo var eldað þríréttað nánast hvern dag undir ötulli stjórn litlu frænku minnar sem töfraði m.a. fram hörpudiska í forrétt. ..Og við eigum að heita skyldar! Snillingur hún Rebekka og á ekki langt að sækja þessa hæfileika,) Við fórum líka í Kvennahlaupið og hljóp ég kílómeter (af 2) með Ísaki Darra sem hljóp eins og vindurinn. Hann kom mér svo aftur á óvart þegar hann söng lagið Lollipop með Mika í bílnum, textinn á hreinu! Yndisleg helgi, segi ekki annað.
Að lokum er gaman að segja frá því að ég skrapp inn á Akureyri með Dísu og vinkonu hennar um daginn. Ég veit ekki upp úr hverju þessi umræða spratt en ég sat á móti Dísu og var að slafra í mig núðlum þegar hún sagði mér að hún verslaði sér brækur í Seglagerðinni Ægi. Ég var alveg steinhissa á því að sú verslun verslaði með brækur og fannst það frekar fyndið. Ég ráðlagði Dísu samt að nefna það ekki á netinu ef hún væri fyrir spjallrásirnar. Það kæmi einhvern veginn ekki vel út að segjast versla brækur í Ægi.. Leið svo á kvöldið og við skruppum í bíó. Við vorum að bíða eftir að myndin hæfist þegar ég leiddi hugann að Dísunni að velja sér nærbuxur í Seglagerðinni og fór að hlæja.
Dísa: Hvað?!
L í kasti: Ógeðslega fyndið að þú skulir kaupa þér nærbuxur í Seglagerðinni!
Dísa: Ég var að djóka!
L pínu skömmustuleg: Ó...!
Já það er hægt að ljúga ÖLLU að mér. Sbr Jóna og slátrið sem ég þreytist aldrei á að minnast á.
...og í kvöld vil ég dúllast með þér. Dúllubossast með þér..
Flokkur: Vinir og fjölskylda | 11.6.2008 | 13:49 | Facebook
Athugasemdir
nei eeen gaaaman! ég er andvaka og leiðist geðveikt. datt í hug að skrifa skilaboð á feisbúkið þitt og sá þá að þú ert komin með blogg. frábært framtak! þú ert ofurpenni!
takk þúsund sinnum fyrir að kveðja mig og áður en þú fórst. svo ég tali nú ekki um ferðin okkar á gljúfrastein, alveg glimrandi góð. þú ert best!
nei djók, ekkert sár. vona að þú hafir það gott! missjú!
ps. góð sagan með brækur úr seglagerðinni. lilja ljóska, ljósin kveikt en enginn heima?
Ragga (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 00:53
Æi elsku vinkona! Það verður farið á Gljúfrastein í sumar, var það ekki planið? Jafnvel fyrr en seinna. Ég held nú samt að ég verði bara að bjóða þér..ég sé að þú ert alveg ofurspennt!
Hvenær ætlaðir þú annars að koma í heimsókn til mín á St Olafs?! Ég fór í mjög skemmtilega fjallgöngu í fyrradag upp á Garðshyrnu og svo rölti ég út í Fossdal í gær. -Góð tilbreyting frá Esjunni. Þú verður bara að mæta, þú ert að missa af öllu fjörinu! Þú kemur með mér á Múlakollu í sumar. Það verður áskorun, nema þú röltir Héðinsfjörðinn með mér til Siglufjarðar, það er líka á planinu.
Og já, ljósin eru alltaf kveikt hjá mér (soh góð þjófavörn)..en það er ekki þar með sagt að einhver sé heima!
missjútú!
Liljan (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 04:40
viktoríu og þjóðhátíðarknús frá dynskógum
arna og viktoría (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.