4th of July

Ég skulda víst brullaupsblogg.

 

Ég reif mig upp fyrir allar aldir 3. júlí sl og lagði af stað suður. Ætlunin var að hitta liðið að Hlöðum í Hvalfirði kl 10 til að græja staðinn. Með í för var Dísa litla. Við vorum ekki komnar langt inn á Lágheiðina þegar ferðafélaginn hafði orð á því að við hefðum nú getað farið á hennar bíl (töluvert nýrri og flottari bíll..með bakk myndavél nb!) Ég sagðist nú ekki telja þörf á því, þetta yrði ævintýraför á prinsinum. Þá skellti pían upp úr og svo ískraði í henni: Svo ferðu Lágheiðina! Eins og ég væri á leiðinni yfir Kjöl...!

Annars stytti ferðafélaginn ekki stundirnar á leiðinni þar sem hroturnar heyrðust langar leiðir og þegar ég hækkaði í viðtækinu rumskaði hún og gerði athugasemd við það að sama lagið væri farið að óma oftar en einu sinni: Sorry! Þeir sem sofa hafa ekki atkvæðisrétt! Nei, hún er indæl þessi elskaTounge

Ojæja.. eitthvað var liðið fyrir sunnan svifaseinna en við svo ég og ferðafélaginn fengum að dúsa á Borgarnesi til að drepa tímann (eins gott að við lögðum í hann kl 6!) og komumst að því að þar er ekki margt að sjá. Allavega fór það framhjá okkur.

Loksins hittumst við svo að Hlöðum og var mér þá orðið ljóst að ég þyrfti að redda nýjum í uppvartið þar sem Helgan var komin með S-kokka. Ég hringdi út um allt en eins og áður hefur komið fram voru allir á leið í útilegu eða á sýklalyfjum með óspennandi sjúkdóma. Mér datt ekki í hug að segja verðandi brúður frá vandræðum mínum og því enduðu þær þrjár í vartinu. Pabbi renndi svo í hlað að Hlöðum og brosti til mín óþekktu brosi: Var kominn með frekjuskarð. Tönnin brotnaði upp í honum og var límd í skyndiviðgerð enda allt upppantað hjá tannsa. Fljótlega fékk ég svo veður af því að Gurrý kæmi ekki uppeftir þar sem henni hefði verið tilkynnt í mæðraskoðun að leghálsinn væri orðinn heldur stuttur. Með hennar sögu kom svosum ekki á óvart að kollegi móður minnar hafi hringt í hana og sagt henni að kippa með sér fæðingarbakka til öryggis. Dagurinn leið svo í almennri símsvörun þar sem hringt var í 'veislustjórann' vegna alls frá spileríi til skemmtiatriða. Sem betur fer stóð ferðafélaginn sig sérlega vel og braut saman borðskraut eins og henni væri borgað fyrir það. Salurinn tók fljótlega á sig mynd (þegar degi var tekið að halla) og við brunuðum í bæinn. Ég hentist í önnur föt og skaust í Kringluna til að skanna inn mynd sem átti að vera í gestabókinni sem ég var að útbúa. Kom þá í ljós að Hans Petersen í Kringlunni býr ekki yfir neinum skannara! Hver hefði trúað því?! Sem betur fer hitti ég Ernu og Halldór sem redduðu málunum. Hálsbólgan sem byrjaði deginum áður var farin að segja til sín og eftir að hafa skutlað alþjóðlegum hópi brúðkaupsgesta um bæinn skreið ég í ból heima hjá Elínu Birnu. Planið var svo að fara út að hlaupa um morguninn en þar sem mér fannst hálsbólgan ætla út úr eyrunum á mér lét ég mér nægja að fara í sund með múttu.

Ég fór svo til Davíðs og ætlaði aldeilis að láta líða úr mér í klippingunni. Það fór nú ekki svo. Síminn hélt áfram að hringja og ég vakti Jónu Björk frænku til að biðja hana að kippa með sér ungbarnagalla ef Gurrý færi að fæða á kirkjugólfinu. Eftir klippinguna fór ég svo upp á fæðingardeild og fékk steril fæðingaáhöld. Frekar spaugilegt fannst mér... Þegar heim var komið mátaði ég svo kjólinn til að sjá hvort allt væri ekki alveg örugglega með felldu -OG boy Ó BOJ! Hvað mín var flott í honum. Ég spásseraði aðeins um heima í kjólnum á silfurskóm svona til að fá "fílið" fyrir honum. Ég var samt ekki á því að keyra í honum upp í fjörð og fór því úr honum og skellti honum út í bíl. Þegar upp á Hlaðir var komið og klukkan rétt að detta í 17 tróð ég mér inn í geymslu og smellti mér í kjólinn. Mútta kom til að renna upp og rennilásinn svona pikkfestist í fóðrinu. Ekkert lítið sko! Lásinn komst hvorki upp né niður. Það fór því svo að ég bað föður minn vinsamlegast að rífa lásinn úr, kjóllinn yrði ekki brúkaður svona renndur til hálfs. Ég galaði því á Dísu að rétta mér annan kjól sem hún, ca 2 mínútum áður, hafði hlegið að mér að hafa meðferðis. Já sá hlær best sem síðast hlær..! Hinn kjóllinn var þessi íðilfagri PELLÍETTU kjóll sá allra stysti sem finnst í mínum fataskáp. Ég hafði aldrei farið í hann og mundi því ekki eftir síddinni. Hún rifjaðist fljótt upp fyrir mér þar sem ég horfði niður á leggina og bölvaði í hljóði að hafa "bara" rakað fótleggi upp að hnjám..upp í nára hefði verið nær í lagi. En þegar svona gerist og maður á að heita veislustjóri=reddari og er í þann mund að fara klæða brúður í brúðarkjól er ekki rúm fyrir annars réttlætanlegt móðursýkiskast. Ég reyndi því að hlæja þegar Odda sagði mér að taka Donnu Summer. Ég var semsagt eins og diskóqueen! Ég hringdi í uppvartarana og bað þá vinsamlegast að kaupa fyrir mig hosur á leiðinni uppeftir. Ég aðstoðaði Örnu í kjólinn og keyrði brúðarbílinn niður að kirkju. Þegar þangað var komið læsti ég bílnum samviskusamlega og rétti múttu töskuna mína. Ég leiddi svo Álfheiði og hélt á Viktoríu inn kirkjugólfið á eftir brúðhjónunum..óþægilega vör við smæð kjólsins míns. Þegar ég settist þakkaði ég Guði fyrir það að Viktoría var í miklum blúndukjól því ekki síkkaði kjóllinn minn við það að setjast.. OG svo ég tali meira um kjólinn: Hafi ég verið vör um kjólinn þegar þarna er komið við sögu var ég eitthvað allt annað þegar ég trillaði upp altarið og las um kærleikann fyrir viðstadda: Ó AÐ ÉG VÆRI Í EINHVERJU ALLT ALLT ÖÐRU! En ég held samt að enginn hafi pælt eins mikið í kjólnum og égWoundering

Að athöfn lokinni mynduðu gestir heiðursvörð um brúðhjónin og náði halarófan frá kirkju niður að bíl. Þar sem ég henti áhyggjulaus grasfræjunum yfir þau mundi ég allt í einu eftir því að bíllinn var læstur og ég var með lykilinn í töskunni minni ...og taskan mín var einhvers staðar inni í kirkju. Ég tók því sprettinn (hælum og öllu) aftur inn í kirkju (það er til myndasería af þessu) og reif allt í offorsi upp úr skjóðunni en fann ekki lykilinn. Hann hafði ég sett í sér hólf svo ég yrði fljót að finna hann eftir athöfnina. Þegar ég var farin að slefa svita fann ég lykilinn og hentist niður slóðann aftur (sikk sakkaði milli gesta í hælum og kjól) með lykilinn á lofti ýtandi í móðursýki á 'open' -SHIT MAR!

Þá voru nú allar krísur liðnar undir lok held ég..svona frá mínum bæjardyrum séð. Maturinn var að sögn alveg frábær og skemmtiatriðin flott. Fæðingasettið kom sér vel þegar tæknin var að stríða okkur þar sem ég gat fullvissað gesti um að allt væri dekkað frá saumsprettum (var með saumasett með mér) til fæðingaCool  Ég hafði svo keypt mér gítargleraugu til að setja upp þegar ég kynnti gæsavideoið enda vildi ég ekki að gestir sæju mig grenja en það fór sem fór. Ég stundi því upp þegar tilfinningarnar báru mig ofurliði: Ég ætla bara að sýna vídjóið!

 

Uppvartarar og kokkur stóðu sig með stakri prýði og dagurinn var frábær í alla staði.

 

...er samt ekki spennt að gera þetta sjálf á næstunni. Meira stressið maður!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

blessuð, ferðafélagi...
Eftir þennan hálftíma/klukkutíma sem ég dormaði ákvað ég bara að halda mér vakandi svo ég fengi einhvern atkvæðarétt á tónlistina í Prinsinum.

Prinsinn kemst allt, bíddu hvað er það aftur sem stendur út úr dekkjunum? Þú verður aðeins að fara að róa þig í að hrósa þessum bíl í tíma og ótmíma! Hann er að hruni kominn, ekki satt?   

dísa (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 00:48

2 identicon

Þó hann sé aðeins haltur þessa stundina þá skulum við ekki hallmæla piltinum. Það getur komið fyrir alla að fara haltrandi í gegnum lífið um stund...ég fór nú á vinstri upp á Múlakollu því hægri var eitthvað slappur. Hann verður sem nýsleginn túskildingur fyrr en seinna og þá býð ég þér með okkur í rómantískan kvöldrúnt. Sveitahringinn! 

Liljan (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband