Titill þessa bloggs er kominn af tvennu.
Byrjum á smá rapporti um prinsinn. Eins og áður hefur komið fram er prinsinn orðinn nokkuð slæmur til heilsunnar. Við erum að tala um 11 ára gamlan dreng sem hefur (erfitt að segja það) e.t.v. ekki búið við nógu gott atlæti síðustu..hvað 7 árin? Það hefur þó lagast í seinni tíð og er hann nú umvafinn ást og hlýju á degi hverjum...! Eftir síðustu ferð okkar norður var mér bent á að eitthvað hefði komið drengstaulanum úr jafnvægi og bæri hann þess skýr merki. Ég hafði greinilega gleymt mér í eigin þönkum og ekki veitt honum næga athygli meðan brúðkaupsundirbúningur stóð sem hæst. Tiltölulega nýr fótabúnaður prinsins hafði spænst upp að hálfu og stóð myndarlegt víravirki út úr báðum framdekkjunum (nákvæmlega, hver vissi að það væru vírar inni í dekkjunum?! Ekki ég!) Nú hef ég oft gert grín að sjálfri mér fyrir það hversu hriiiikalega ósjálfbjarga ég er þegar kemur að heilsu prinsins sem skýrist bara af góðum föður: Já pabbi?! Lilja hérna! Ég var að bakka út úr stæði og gírstöngin bara datt úr sambandi! ...já nei, ég var búin að bakka úr stæðinu þegar stöngin..ööö...hætti að virka. Ýta honum aftur inn í stæðið? Nei, ég held ég geti það ekki, ég er í kjól og á hælum! (Sönn saga frá afmælinu mínu '07) Núna er ég á Ólafsfirði og ætlaði því að reyna að hlífa föður mínum sem er í Reykjavík. Svo ég skrapp til móðurbróður míns sem er bifvélavirki en hann var ekki í bænum. Þá fór ég til annars móðurbróa sem var að rúnta einhvers staðar á íbúðinni sinni (húsbíl). Þegar þarna var komið við sögu var nokkuð farið að síga úr dekkinu svo ég bætti í það og hlustaði svo á róandi hvisss hljóð sem sannaði gat á dekkjaræflinum. Tók ég þá upp símtækið og hringdi í pabba. Það var ekki að spyrja að honum, örfáum mínútum síðar var hann búinn að athuga status á báðum móðurbróunum og hringja á bæjarverkstæðið til að athuga með dekk en fór þó svo að þau voru keypt í bænum og send norður með Flytjanda! Ég fór svo röltandi til að sækja dekkin eftir vinnu en komst þá að því að skrifstofan var bara opin til 15 svo Dísa greyið mátti gera aðra tilraun daginn eftir en þá höfðu þau þegar verið sótt af móðurbró. Svona eru allir hjálplegir fyrir norðan! Móðurbróarnir unnu svo saman að því að skipta um dekk og "balancera" bílinn. Líða svo ÖRfáir dagar og ég ætla að renna inn á Akureyri að hitta Helgu. Ég var að skutla Sossu frænku inn á Dalvík (á hennar bíl) og hjólaði svo á fullu heim að ná í prinsinn til að skutlast þetta. Fór þá ekki betur en svo að prinsinn startaði ekki. Nú á hann það "stundum" til að drepa á sér en alltaf rennur hann aftur í gang. Það er skemmst frá því að segja að ég gerði ca 10 tilraunir til að starta honum áður en ég hringdi í Sossu og fékk að fara á Teriosinum hennar! Viffi tók prinsinn og hlóð geyminn enda þurfti ég að komast á honum í Ásbyrgi í gær. Í gærmorgun kom Dísa til mín af næturvaktinni með blöð til mín sem ég hafði prentað út daginn áður og spurði áður en hún ók á brott hvort ég kæmi honum örugglega í gang. Ég hélt það nú! Við kvöddumst og hún hélt sína leið rétt eins og ég ætlaði að gera en aftur vildi kauði ekki í gang! Ég hringdi því í Dísu og bað hana að ýta mér út úr stæðinu svo ég gæti látið hann renna í gang. Dísu skorti kraftana svo ég ýtti henni úr stæðinu í brekkuna en þá stökk hún úr bílnum og ég inn. Dísa hljóp svo hlæjandi með mér niðureftir á meðan ég reyndi eftir öllum ráðum að koma bílnum í gang. Gekk ekki! Eftir stóð Dísa í brekkunni í mesta hláturskasti sem ég hef, hingað til, orðið vitni af hjá henni!
Ég ók því í Ásbyrgi á töluvert flottari bíl (Nissan Almera með bakkmyndavél nb!). Mér leið eins og algerri skutlu en á sama tíma dauðhrædd um að klessa bílinn eða velta honum á leiðinni. ((Þessi fóbía mín verður rakin til þess þegar móðir Dísu ætlaði að lána mér jeppann sinn til að skreppa upp í Skipholt þegar ég var nýkomin með bílpróf. Pabba leist nú ekki á blikuna og skutlaði mér. Þá hafði hann orð á því að ég gæti velt bílnum á leiðinni (frá Dísu upp í Skipholt eru á að giska 700 metrar) og að maður ætti aldrei að fá neitt lánað sem maður er ekki borgunarmaður fyrir. Þetta mottó hefur fylgt mér og er gott..þó fóbían mætti vera minni!)) Ég fór semsagt niður í Ásbyrgi til að taka þátt í Jökulsárhlaupinu. Ég hljóp frá Hólmatungum niður í Ásbyrgi sem eru 21,2 km. Ég fór þetta nú mest til að athuga hvort ég gæti þetta og af forvitni enda var þetta í fyrsta skipti sem ég hef komið þangað. Það voru rútur sem óku okkur frá gestastofunni á upphafsreit og er gaman að segja frá því að það var svona líka FJALLmyndarlegur kauði sem ylaði sætið við hliðina á mér. Það var heitt í rútunni og það sveif svona líka á mig..vissi ekki fyrr en ég rankaði við mér hálf liggjandi yfir hans sæti. Hann hafði lagt hönd undir kinn en olnbogarnir hvíldu á hnjánum á honum...þannig að ég lægi ekki ofan á honum. Bara heppni að ég var ekki farin að slefa í svefndrunganum!
Það voru myndir inni á hlaup.is frá hlaupinu síðan í fyrra en þær eru farnar út, kannski koma nýjar inn -þið verðið að sjá myndir af leiðinni! Landslagið er svo stórbrotið og flott að ég hef sjaldan séð annað eins. Það voru líka 24 gráður og hægur andvari í hlaupinu sem spillti nú ekki fyrir. Leiðin var fjölbreytt og gat ég ekki annað en hlegið þegar mér voru réttir tveir laxapokar sem ég klæddi mig í áður en ég óð yfir á! Það eina sem hefði mátt vera betra var að vatnið á vatnsstöðvunum hefði mátt vera kalt. Ég get einhverra hluta vegna ekki drukkið volgt vatn, sama hversu mikið liggur við en í gær var ekki vanþörf á að vökva sig í hitanum. Þegar ég kom á síðustu vatnsstöðina (rúmur km eftir af hlaupinu) spurði stelpa mig hvort ég vildi vatn eða kók! Ég hefði getað kysst hana! Kók get ég frekar drukkið hlandvolgt og það gerði alveg helling fyrir mig, )
Eftir hlaupið skrapp ég í sund en svo var grillað ofan í mannskapinn á eftir. Í sundinu var vatnsskorturinn farinn að segja til sín og ætlaði heldur betur að líða yfir mína í frímerkjasturtuklefanum þar sem alltof margar konur stóðu og biðu eftir vatninu..ég húkti því bara með hausinn niður í gólfi og rassinn út í loft við að reyna koma blóðinu upp! Frekar fyndið en ég var leeengi að losna við þessa tilfinningu. Það bjargaði mér svo að Kata og Óskar voru í hlaupinu líka svo ég gat borðað grillmatinn með þeim. Reyndar var ég svo heppin að fá óvart tvo grillmiða svo ég gaf einhverjum túrista annan miðann sem blessaði mig í bak og fyrir: ) Þegar ég loksins hafði mig af stað (heim aftur) renndi ég við hjá ömmusystur minni, Fríðu á Fjalli, sem ég græddi með Íslendingabók. Já maður getur verið þakklátur fyrir þá skruddu,)
Vá hvað ég er búin að tala frá mér allt vit! Ég á 5 daga frí yfir Verslunarmannahelgina sem ég ætla að eyða töltandi á Hornsströndum og svo vinn ég 15 vaktir streit og þá er ég komin í 4 daga frí en þá hefst skólinn. Get ekki beðið! Nú svo er aldrei að vita nema maður reyni að skjótast aðeins heim, þó ekki væri nema í nokkra klukkutíma þegar nýjasti fjölskyldumeðlimurinn lætur sjá sig: )
Gleði gleði!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | 27.7.2008 | 19:11 (breytt kl. 19:17) | Facebook
Athugasemdir
Ef þú varst á Nissan Almeru veit ég ekki hvaða bíl þú fórst á því minn er Primer;) hihi
Vona að þú verðir búin að jafna þig fyrir helgina!!!
Var að spá í hvort að ég ætti að tjá mig e-ð um Prinsinn en ég held ég sleppi því þar sem það eru ekki fögur orð, fyrir utan það að þú myndir ekkert hlusta á mig!
Liljan, 28.7.2008 kl. 00:35
Hmm..gott komment Lilja!
Liljan, 31.7.2008 kl. 09:52
Heldur betur...
disa (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 01:13
Heyrðu rakst bara á þetta blogg fyrir tilviljun!! Skemmtilegar sögur Lilja, hafa sytt mér stundirnar á næturvöktunum á gg. Hlakka til að sjá þig í skólanum fljótt! ;)
Kveðja, Porley Roy!
Þórey (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 19:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.