Hornstrandir og Markús Óli

Ég var með öllu róleg í síðustu viku þrátt fyrir að vera á leið á Hornstrandir á fimmtudeginum og skorti verulega tíma til að undirbúa þá ferð. Ég hefði kannski lagt mig meira fram við undirbúninginn ef Elín hefði ekki virkað svona svaðalega skipulögð með allt. Það voru sko ófáar hringingar sem ég fékk frá vinkonu minni sunnan heiða um allt frá þurrfóðri til prímusa og kolla. Yfirleitt hringdi hún þegar ég var að hlaupa í vinnuna eða að sofna eftir strembna vakt. Ég hafði náttúrulega engan útbúnað hérna fyrir norðan og voru foreldrar mínir svona líka liðlegir að það var bara pakkað í bakpoka fyrir mig og sent norður með móðursys..með skilaboðum um að í pokanum væri tjald. Ég gat því fullvissað skipulagið fyrir sunnan að ég væri búin að redda "göngutjaldi" ..það var létt sbr. göngutjald. Á einhverjum hlaupunum með Elínu í símtækinu spyrjandi í þaula um tjaldið fullvissaði ég hana um að vanir sem foreldrarnir væru treysti ég þeim fullkomlega fyrir pottþéttum útbúnaði. Elín lét þar við sitja. Á fimmtudeginum upp úr 14 fór ég í það að reyna að redda mér fari inn á Akureyri en þaðan átti ég far vestur með öðrum göngugarpi. Dísa litla var með mér í vinnunni og saup heldur betur hveljurnar þegar hún fattaði að ég væri ekki búin að redda mér fari. Ég sagði henni, mjög yfirveguð, að ef ég gæti ekki reddað fari myndi ég bara hjóla inn eftir (65 km en farið ætlaði að leggja í hann vestur upp úr 17..ég var ekki að fullu búin að pakka og átti eftir að versla -og var að vinna til 15:30) Dísin sannfærði mig um hve ágæt móðir hún ætti eftir að verða þegar hún efaðist um vitsmuni mína og furðaði sig á því hvar skipulagshæfni mín lægi. Ég brosti út í annað og vissi þarna að hún myndi redda mér fari -sem hún og gerði. Hún reddaði mér líka betri bakpoka og svefnpoka. Það fór því svo að ég fékk far með foreldrum vinkonu litlu frænku minnarWink Ég var svona líka félagslynd í bílnum að ég hraut hálfa leið þar til þau hentu mér út í Bónus þar sem ég verslaði fyrir ferðina. Ég hafði tekið að mér að redda morgunverðinum þ.e.a.s. kaupa hafra fyrir mig og Línuna. Ég keypti 1,5 kg af svoleiðis sem fór vel í "forþungan" pokann. Ferðafélaginn tók mig svo upp í og við keyrðum sem leið lá vestur. Ferðin gekk að mestu áfallalaust fyrir sig. Við tókum upp puttaling og sprengdum eitt dekk úti í r-gati. Reddaðist þó. Þegar við renndum í hlað við Dalbæ var klukkan að ganga eitt að nóttu. Það var heldur farið að kólna og flestir búnir að tjalda. Það er að segja allir nema Elín sem beið mín og kannski mest tjaldsins sem ég hafði meðferðis. Hún stakk fljótlega upp á því að tjalda og ég dró upp tjaldið frá mö og pa en sá þá fyrst hversu fagurblátt tjaldið var og merkt stórum stöfum símafyrirtæki. Elín fékk hláturskast og get ég ekki neitað því að hafa hlegið þegar ég fattaði hvers kyns var. Reyndar skrapp: Týpískt þú Lilja! út úr Línunni sem ég er enn að velta fyrir mér hvaða merkingu ég eigi að leggja í. Ojæja, þegar Elín var búin að hlæja, ögn móðursýkislega, kvað við annan tón: Lilja, þetta er mjög alvarlegt mál!

L: Jaaá (þessu svari fylgdi ekki mjög niðurbældur hlátur og meira svona obbosí hvaða skandal er ég að gera núna?!)

Siggi skálavörður kom út þegar við höfðum fest niður tjaldið á þessum 4 tjaldhælum sem fylgdu því og veltum því fyrir okkur hvernig við ættum að koma okkur fyrir í þessu en þarna hafði Elín strax komið auga á skort á fortjaldi. Siggi tók í sama streng og Elín en ég hékk í einhverjum allt öðrum streng þar sem mér fannst aðstæður alveg sjúklega fyndnar en var á sama tíma meðvituð um það að þetta var ekki staðurinn til að hlæja. Elín tautaði í sífellu að það mætti bara ekki rigna (já hún má eiga það stelpan að hún reyndi að vera jákvæð!) Siggi sagðist sosum ekki hafa miklar áhyggjur af rigningu ef við strekktum vel á tjaldinu. Það væri öllu verra ef það kæmi einhver vindur á okkur því þá myndum við klárlega fjúka. Ég kyngdi stórt og sagði svo að við myndum náttúrulega þyngja tjaldið þegar við lægjum inni í því en sú athugasemd féll í grýttan jarðveg. Þarna fóru fram miklar pælingar um tjaldið og var Siggi helst kominn á það að hringja í Bjössa bónda og vita hvort hann gæti reddað tjaldi. Í því kom fararstýran á svæðið (björgunarsveitarmaður með meiru og vön útilegum) sem leit á tjaldið með vanþóknun áður en hún sneri sér að mér og spurði hvort ég væri í dún- eða fíberpoka. Ég varð eitt spurningamerki í framan og sagðist vera með svefnpoka. Hún bað um að sjá hann svo ég rolaðist í pokann og týndi hverja spjörina á eftir annarri upp úr bakpokanum áður en ég dró upp svefnpokann. "Fíber!" lýsti hún yfir og ég var ekki frá því að það væri gott mál. Þegar hún spurði hvort ég væri með góða dýnu laug ég því blákalt að hún væri úrvals. Sannleikurinn var hins vegar sá að ég á enga dýnu og mátti ekki vera að því að kaupa hana (bíllinn án rafgeymis svo það var ekki hlaupið að því að skreppa í búðir). Svo sá ég ekki nokkra þörf á því að vera með dýnu þegar maður er að tjalda í einhverjum grasbalanum í rómantískri náttúru! Já svona er maður einfaldur.. Þá hófust pælingar um að hola okkur Línunni í önnur tjöld. Ég gerði mér vel grein fyrir því að ég hafði beðið álitshnekki innan hópsins sem ég þekkti ekkert til (utan Elínu og Sigga Palla). Alveg frábært svona..first impression! Mér leist því ekkert brjálæðislega vel á að fara að ryðjast inn í tjald hjá einhverjum öðrum og var farin að sjá alvarleika málsins (ekki seinna vænna). Áhyggjuhrukkurnar dýpkuðu bara á enninu hjá Sigga og Elín var ekki hress að sjá. Þá var eins og kviknaði á einhverri peru hjá Sigga Palla sem hafði staðið yfir okkur þarna og upp úr honum dettur að hann sé að öllum líkindum með auka tjald í skottinu. Ég var bara hress að heyra það en það var sem Elín hefði himinn höndum tekið, svo fegin var hún greyið. Ég lagði mig náttúrulega alla fram til að hækka aftur í áliti hjá Línu minni og bauðst til að bera tjaldið í ferðinniCool Daginn eftir þegar Elín var komin á fullt að búa til hafragraut fattaði ég að engan hafði ég diskinn með. Ég spurði Elínu hvort hún væri með disk en vissi svarið um leið og ég hafði spurt. Hún hváði við spurningunni en ég sagðist bara myndu éta upp úr pottinum þegar hún væri búin að fá nóg. Þá spurði hún mig hvort ég væri ekki örugglega með hnífapör. Trú hennar á mér var sko núll komma núll eftir ævintýri næturinnar svo ég jáaði því en hljóp svo til Sigga til að athuga með plasthnífapör. Ég fékk lánaða þessa fínu skeið og át grautinn sigri hrósandi með "silfur" skeið í munni. Það fór svo þannig að ég tók með mér skyrdós í gönguna sem ég notaði sem disk. Bráðsniðugt alveg, vó ekki neitt! -sem er nokkuð sem göngufólk þarf að huga að þegar það raðar í bakpoka sína(!)

 

Gangan gekk svo bara rosaleg vel. Ferðin var alveg dúndur og komu upp mörg skondin augnablik sem verða ekki endurtekin nema á bókaformi (matseld, veiði, dýralíf..). Við gengum út á Horn og gistum í Hornvík fyrstu nóttina, fórum svo í Kjaransvík, þaðan á Hesteyri og enduðum svo í bústað í Aðalvík. Þetta var í einu orði sagt fullkomin ferð. Krakkarnir sem stóðu að þessu, Hrönn og Eysteinn, eiga mikið hrós skilið fyrir vinnuna sem þau lögðu í þetta. Það er eins gott að hafa pottþétt fólk í skipulaginuPolice Það var ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði að ganga um Verslunarmannahelgina sem ég vona heitt og innilega að muni standast. Þetta var bara einum of geggjuð ferð og skemmtilegur hópur.

Reyndar held ég...svo ég haldi áfram að tala um ágæti vinkonu minnar..að Elín væri frábær í að skipuleggja svona ferð.. Mín var búin að mæla pasta í poka fyrir kvöldmat (x2) og horfði svo að segja hljóðalaust fram hjá 1,5 kg hafrapokanum mínum. Hún tók það meira að segja gott og gilt þegar ég þóttist vera með plan B. Ef ég yrði uppiskroppa með mat ætti ég allavega hafra og rúsínur=hafragrautur! Þá voru allavega tvö skipti sem ég hefði gefið mikið fyrir að eiga myndir af svipbrigðum Elínar. Fyrra skiptið var þegar við komum inn í tjald að kvöldi dags og ég setti mig í stellingar og sagði: "Jæja Elín, nú tökum við kvið" og tók nokkrar .. ég held að Elín hefði alveg íhugað að láta loka mig inni ef það hefði staðið til boðaW00t Hitt skiptið var á síðasta göngudegi þegar ég dró upp Carobella sem er einskonar lífrænn, sykurlaus súkkulaðilíkir. Ég bauð Elínu að smakka og sagði svipur hennar meira en þúsund orð. Það er skemmst frá því að segja að henni fannst ekki mikið til "súkkulaðisins" míns komaSick Þessi ferð hefði ekki verið svona ótrúlega skemmtileg ef hún Elín hefði ekki verið með mér þarna. Takk fyrir frábæra ferð Elín,) Þú ert algjört gullHeart

 

Þegar við lögðum svo í hann heim hafði ég ekki reddað mér fari frá Akureyri til St Olafs og uppástóð að ég myndi bara húkka mér far. Ég kvaddi stelpurnar við afleggjarann klædd bláum regnjakka með risastóran bakpoka,  gönguskórnir hengu á annarri öxlinni og myndavélin um hálsinn: TÚRISTI! Það er skemmst frá því að segja að fólk leit flóttalega undan þegar það keyrði fram hjá mér á misstórum hálf tómum bílum. Ég var orðin frekar örvæntingarfull þegar ég heyrði í Dísu sem ætlaði að krampa úr hlátri þegar hún heyrði hvissið í bílum aka fram hjá mér. Það fór þó svo að hjá mér stoppaði svakalegur sportbíll (Galant held ég..). Þetta var blár bíll á gylltum koppum. Aftan á honum var alltof stór spoiler og framan á bílnum var svona unit til að kæla vélina. Þetta voru þá guttar frá Dalvík sem ætluðu að tala ensku við migLoL Kauðinn fór ekki mikið undir 130km hraðann og við reyndum að halda uppi samræðum á leiðinni. Gekk ekki vel. Vélarhljóðið var svo svakalegt að ég sagði lítið annað en: Ha? Hvað sagðirðu? Hmmm..? -Amma! Við gáfumst fljótlega upp á tali en þegar Sarah McLachlan fór að hljóma á fullum styrk í bílnum; sem kollvarpaði bara öllum hugmyndum mínum um gutta á svona bílum þurfti ég að bíta fast í tunguna á mér til að garga ekki úr hlátri. Eins gelgjulegt og það hljómar: Ó MÆ GOD! ...en skemmtilegur endir á frábæru fríi.

 

Á heimleiðinni hringdi Jóna Björk frænka í mig á háa C-inu til að óska mér til hamingju. Ég var ekki lengi að kveikja enda búin að hringja heim á öllum símasvæðablettum til að athuga með nýjasta fjölskyldumeðliminn. Það kom í hlut Jónu að tilkynna mér um drenginn og mikið skelfing var það gaman. Fékk alveg sjúklegt náttúrulegt high! Markús Óli fæddist 5.ágúst og gekk fæðingin vel. Helsta spurning sem brann á flestum var hvort þau náðu niður á spítala fyrir þessa fæðingu og svarið við þeirri spurningu er: Já! Mútta var ekki nálæg til að taka á móti í þetta sinn, hún var í sundi með bróana. Sem sjálfskipaðri uppáhaldsfrænku skaust ég í hoppi suður 6. og aftur norður daginn eftir. Þetta var semsagt ÖR-stopp en alveg STÓR-skemmtilegt. Hann er alveg yndislegur hann Markús Óli. Hlakka bara til að fá að passa guttana.

 

gleði gleði gleði gleði gleði gleði gleði gleði gleði gleði ást gleði gleði gleði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegt ferðalag, legg til að hin nýstofnaði "hjúkruníkenýagönguklúbbur" fari einhvern tímann á Hornstrandir! ;). Ennnn það stendur til að fara jafnvel aftur norður næstu helgi í Húsavíkur þríþraut, verð í bandi ef af því verður ;)

Þórey (IP-tala skráð) 10.8.2008 kl. 20:31

2 identicon

Til í aðra göngu!! Þú verður endilega að renna við hjá mér ef þú ferð í þríþrautina. Það eru berjadagar hér á St Olafs um næstu helgi. Fullt að gerast

Liljan (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 11:06

3 identicon

Hahahaha, þú segir svo fyndið frá... Hornstrandaferðin var snilld, tvímælalaust hápunktur sumarsins!  Takk sömuleiðis Lilja mín, þetta var æði! Alltaf gaman að bralla með þér, algjör gleðispreðari (sbr. sjö manna svefngalsahláturskastið í Aðalvík með tjaldsögunni þinni)

Held ég sjái samt um tjaldið á næsta ári, hehehe... ;)

Elín Birna (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 08:37

4 identicon

Gleðispreðari?! Frábært orð! Já, þú færð jafnvel að sjá um tjaldið að ári Elín mín 

..ég skal bera það

Liljan (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 16:59

5 identicon

Ég vil fá að koma með í næstu ferð :) aldrei komið á hornstrandir :)

Arna sys (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 07:05

6 identicon

Við plönum bara aðra ferð á Hornstrandir, greinilega mikill áhugi fyrir því

Hvernig er gúgúklukkan sys?

Liljan (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 14:31

7 identicon

alveg trufluð :) systir góð.. hvað er að frétta af skólanum er alveg með í maganum hvort þú kemst eða ekki.. der senst vika 42

Arna Lísbet Þorgeirsdótti (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 11:34

8 identicon

Frúin sem sér um niðurröðunina er sennilega búin að fá upp í kok af emailum og símtölum..en ég fyllti út óskir sem miðuðu að því að ég næði að skjótast til þín þessa daga. Við bara reddum þessu! Ég kem!

Liljan (IP-tala skráð) 16.8.2008 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband