Markmiðin mín í sumar voru 2 talsins: Fara út í Grímsey og læra að elda fisk. Ferjan fer út í Grímsey á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum sem hefur einhvern veginn ekki passað við mína frídaga svo þannig fór með sjóferð þá! Hvað fiskinn varðar er svo hriiiikalega góður matur í vinnunni að ég ét mig pakksadda þar á hverjum degi (siginn fiskur, brauð með hákarlastöppu, saggógrautur, makkarónugrautur o.s.fr. o.s.frv.,) Ég hef hins vegar hjólað sveitahringinn 5x (3x sama kvöldið reyndar), farið þrjár ferðir upp í Fossdal, klifið Múlakollu, Garðshyrnu og Tindaöxl, rölt botnaleið til Siglufjarðar, skoðað mig um á Hornströndum, hlaupið Jökulsárhlaup og margt margt fleira. Ég geymi eyna og eldamennskuna til betri tíma.
Ég hafði miklar væntingar og var spennt að prófa að búa annars staðar á landinu en Reykjavík í smá tíma þegar ég fór norður. Reyndar spurði Álfheiður Kristín hvort ég þyrfti nokkuð að vera lengur en eina nótt þegar ég fór og velti ég því mikið fyrir mér á leiðinni hvort ég myndi einhvern tímann festast á einum stað. Reyndar fóru þessar pælingar svo út í aðrar um það hvort ég ætti að prófa suðurlandsundirlendið að ári..en það er önnur ella. Þetta var á leiðinni norður fyrir rúmum 3 mánuðum síðan. 3 mánuðir liðnir eins og hendi væri veifað. Ég var líka að hugsa um það í gær að á þessu ári hef ég eytt um 2,5 mánuði í Reykjavík. Það er kannski kominn tími til að hægja á sér og vera kyrr í smá stund. Þá er skemmst frá því að segja að ég fílaði enn betur, miklu betur en ég hélt, að búa í svona litlu plássi sem Ólafsfjörður er. Jú, víst hafði ég tenginguna hingað þar sem mamma er fædd og uppalin hér og maður hefur komið ófáar ferðirnar hingað (keyrandi, fljúgandi, hjólandi) en alltaf til styttri tíma. Það er svo allt öðruvísi að búa á minni stað, nálægðin við náttúruna og einstaklinginn er svo miklu meiri en borgarlífið hefur upp á að bjóða. Hér eru allir svo ótrúlega bóngóðir og vesen er orð sem hefur ekki náð að teygja sig yfir heiðarnar. Hér hef ég kynnst yndislegu fólki, bæði samstarfsfélögum og heimilisfólki á Hornbrekku. Þegar maður vinnur til lengri tíma með sama fólkinu, ólíkt spítalalífinu þar sem maður hittir nýtt fólk nánast daglega, er maður fljótur að leyfa sér að þykja vænt um fólkið og einstaklingarnir sem maður annast verða góðir vinir manns. Allar óskirnar sem ég fékk þegar ég kvaddi vini mína á Hornbrekku verða vel geymdar í hjarta mínu..og ef ég skyldi einhvern tímann endurnýja kynni mín við sjaldséða vinkonu, hana Pirripú, mun ég hugsa norður og kveðja hana í snarheitum því jákvæðar tilfinningar eru svo miklu sterkari en neikvæðar.
Já maður á það til að vera væminn! Þetta sumar er búið að vera í einu orði sagt tja ...hvað? Geggjað? Mergjað? Æðislegt!! Ég er svo ótrúlega glöð að hafa drifið mig norður og prófað þetta. Ég hef lært mikið í sumar og m.a. kynnst ömmu og afa í gegnum sögur af fólki sem þekkti þau persónulega. Það er ómetanlegt.
Tækifærin eru alls staðar, maður þarf bara að grípa þau og framkvæma. Ég hef nægan tíma til að verða ráðsett síðar (ef einhvern tímann!). Næsta sumar fer ég vonandi til Malaví að vinna, allavega hluta sumars. Annars væri ég til í að skoða það að fara aftur norður...eða kanna nýjar slóðir.
Áður en ég klára þessa færslu... ég er hrædd um að ég verði að henda inn allavega einni seinna (alveg ómögulegt að enda svona væmið!) langar mig að minnast á kærleiksbirni. Ég hitti einn í Bónus um daginn sem heitir Jón Óskar. Við spjölluðum í dágóða stund (ég fékk meira að segja knús í nammideildinni) og hann sagði mér frá heimasíðunni sinni 123.is/jonoskar. Ég kíkti á hana og það var engu logið um flottar myndir, strákurinn kann greinilega að munda myndavélina. Ef það væru fleiri einstaklingar svona ánægðir með lífið þá værum við ríkari. Við getum allavega reynt að læra af þeim.
Vinsamleg tilmæli svona í lokin, þetta hangir uppi í vinnunni:
Ég veit -er ég dey- svo verði ég grátin
þar verður þú eflaust til taks.
En ætlir þú blómsveig að leggja á mig látinn
þá láttu mig fá hann strax.
Og mig eins og aðra sem afbragðsmenn deyja
í annála skrásetur þú
að hrós um mig ætlar þú sjálfsagt að segja
en- segðu það heldur nú.
Og vilji menn þökk mínum verðleikum sýna,
þá verður það vafalaust þú,
sem sjóð lætur stofna í minningu mína
en mér kæmi hann betur nú.
Og mannúðarduluna þekki ég þína
Sem þenur þú dánum í hag
En ætlirðu að breiða yfir brestina mína
Þá breidd yfir þá í dag.
Höf óþ
(Búin að láta afa í té textann!)
Takk í bili..
Flokkur: Vinir og fjölskylda | 19.8.2008 | 18:26 | Facebook
Athugasemdir
Hæ gaman að heyra að þú ræktar flökkueðlið þitt svona vel ;)
Ég var nú ansi nálægt ólafsfyrði um daginn því ég var fiskideginum mikla á Dalvík vona að þú hafir það sem best og við sjáumst í jökulsárhlaupinu að ári liðnu ;)
Kv þín fyrrverandi besta ræktarvínkona Oddný :*
Oddný Jóns! (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 21:17
Flottur pistill hjá þér skvísa og takk takk takk fyrir frábært samstarf í sumar... við erum MIKIÐ búnar að hlæja að gjöfunum og lesa kortið sem þú skildir eftir í ræmur (með stækkunarglerinu auðvitað hehe), en gangi þér vel í hlaupinu á laugardaginn og við sjáumst fljótlega:) saknaðarkveðja frá Ólafsfirði, Valgerður.
Valgerður hjúkka, ólafsfirði:) (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 19:47
Hæ skvísa... mikið verður gott að fá þig heim í stórborgina aftur.. :) Heyri í þér á morgun
Næturkveðja frá Barnaspítalanum
Helgan
Helga (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 03:18
Knús á alla línuna bara, )
Liljan (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.