Héðan og þaðan...

Er farin að heyra ,,þetta er svo týpískt þú!” dáldið oft þessa dagana svo maður ætti kannski að reyna að halda sér á jörðinni í þessari færslu..

 

Pabbi hringdi í mig sumar og sagði mér að það ætti að halda upp á afmæli afa og tveggja systkina hans (80, 85 og 90 ára) í september. Um leið og hann sagði mér að mamma ætti að leika veiðimanninn í Rauðhettu(!) sagði hann að búið væri að negla mig í veislustjórann. Ég hélt, augljóslega, að hann væri að djóka með þetta..en nei. Um daginn tilkynnti Sossa frænka viðstöddum að ég væri stundum búin að ljúka heilli setningu þegar hún fattaði að ég væri að tala. Hún er ekki sú fyrsta sem minnist á þetta þó margir hafi nú farið penna í þetta..Wink Ég er því farin að hafa þó nokkrar áhyggjur af þessu afmæli enda verður meðalaldurinn sennilega aðeins í hærri kantinum í veislunni. Ég held, án gríns, að ég verði að hafa með mér taktmæli til að minna mig á að tala hægar. Dúddamía..!

 

Um síðustu helgi var ég frekar drusluleg með barkabólgu. Ég svaf 12 og 14 tíma og fór lítið sem ekkert út úr húsi. Einmitt, stemning! Á sunnudeginum komst þó einhver hreyfing á kvefið og það fór aðeins að losna. Ég ákvað því, bjartsýn sem ég er, að skella mér á hlaupaæfingu með ÍR á mánudaginn. Þetta var fyrsta æfingin og ég var nokkuð spennt. Það var ákveðið að upphitunin væri létt skokk niður í Fossvogsdal. Létt skokk my ass! Við hlupum kílómeterinn á 5 upp í 5:17 sem er nú í rösklegri kantinum. Ég blés eins og fýsilbelgur milli þess sem ég reyndi að halda uppi samræðum við bekkjarsystur mína, Lipurtá, sem er í hlaupinu. Þegar í Fossvogsdal var komið átti að hlaupa 3x2K en það var eins og að anda í gegnum rör með þetta kvef. Þegar við svo skokkuðum aftur heim langaði mig mest til að stoppa og labba enda gjörsamlega búin á því. Ég er náttúrulega ekki komin með hlaupatæknina á hreint sem einkennir svo marga góða hlaupara þ.e.a.s. að snýta sér út í loftið svo ég saug reglulega rækilega upp í nefið milli þess sem ég ætlaði að hósta úr mér lungunum. Ógó smekklegt, getið rétt ímyndað ykkur! Ég svitnaði allt kvöldið eftir þessa æfingu og fór með Önnu Guðnýju og Þóru Björt á Vegamót frekar léttklædd. Ég hef fengið nokkur skotin fyrir það. Ojæja.. Týpískt ég..segðu það bara!

 

Svo byrjaði ég í sálgæslunni í guðfræðideild HÍ á mánudaginn. Þann daginn vaknaði ég og var kalt. Ég klæddi mig því í ullarpeysu undir jakkann og ákvað að fara á hjóli enda strætókortið ekki komið í hús. Ég fékk pabba hjól lánað (mitt á leiðinni að norðan) sem var frekar loftlaust. Ég mátti náttúrulega ekkert vera að því að bæta í dekkið (lærði greinilega ekkert af Hvalfirðinum sællar minningar) og þurfti því að hjóla niður allar brekkur. Ég svitnaði svona líka rækilega á leiðinni að ég mætti illa lyktandi í fyrsta tímann með far á enninnu eftir hjálminn. Smart. Varð hugsað til atviks úr Aðalvík þar sem Hilda (í gönguhópnum) reyndi að útskýra muninn á “sveitta stelpan” og “sweaty girl” fyrir grunlausum þýskum læknanema í sauna. Úff....!

 

Ég fékk svo að passa Markús Óla í fyrsta skiptið í fyrradag. Hann er óttalegur gullmoli drengurinnHalo Það var frekar fyndið þegar við vorum orðin tvö ein og ég var að dást að honum þar sem ég hélt á honum í fanginu. Hann horfði á mig friðsæll á svip en setti svo svakalega í brýrnar eins og til að segja: Og þú ert?! Hvar er mamma mína? Paaabbiii! Svo grét hann smá og þar sem mér var Samba-syndrómið mjög minnisstætt passaði ég mig á að byrja ekki að dansa en karlinn sofnaði fljótlega í fanginu á mér og þannig sat ég með hann án þess að bæra á mér! En það tognar úr honum blessuðum, ég var ekkert búin að sjá hann í eina og hálfa viku út af kvefinu og hann er búinn að stækka þvílíkt.

 

Þá fórum við nokkrar að kíkja á Elvu og drenginn til Selfossar um daginn (Elva var með mér í Kenía). Hann var alveg yndislegt krútt og Elva leit ekkert smá vel út. Hlín og Þórey voru með mér í för og var ekki laust við að maður þyrfti heyrnarhlífar fyrir klinginu í þeim. Ég spái frekari barneignum áður en langt um líður... Elva er hér: 123.is/hrauntun

 

Hitti svo Hildi frænku á Garðinum í gær. Hún er þrítug í dag og er sett í dag. Hún leit ekkert smá vel út með kúluna sína. Hún er líka svo jákvæð gagnvart fæðingunni að þetta á örugglega eftir að ganga eins og í sögu hjá henni. Blessað barnalánið, segi ekki annað!! Nú leggjumst við bara á bæn og vonum að samið verði við ljósmæður fyrr en seinna.

Í gær varð Elín Birna vinkona mín 25 ára, já þetta eldist allt saman. Ég myndi henda í vísnabálk ef hún læsi þetta blogg en hún gerir það sjaldan svo hún fékk bara sms,)

Jæja..komið gott. Er að hugsa um að hætta segja kjánalegar sögur af sjálfri mér hérna. Það er eitt að hafa húmor fyrir sjálfum sér en vá..fyrir fólk sem þekkir mig ekki. Tja! Það væri gaman að vita hvað það hugsar þegar það les færslurnar mínar.

 

Sjáumst,)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held ég verði að henda þessu inn..aðeins of spaugilegt til að sleppa því!

Ég var að vesenast með Helgu í morgun og þegar ég kom heim var pabba hvergi að sjá. Ég vissi út frá klukkunni að það væru yfirgnæfandi líkur á að karlinn hefði skellt sér í messu. Ég brunaði því upp í Seljakirkju og hitti föður minn þar. Hann sat úti á enda í sinni röð og ég pikkaði í hann og bað hann að færa sig um einn rass. Í stað þess að gera það dró hann fæturnar að sér og eins langt undir stólinn og hann gat svo ég kæmist fram hjá. Mér fannst þetta frekar furðulegt athæfi og faðirinn eitthvað lúpulegur að sjá. Ég smokraði mér því framhjá og settist. Þá hallar pabbi sér að mér og segir: Það er gat á buxunum..ég var búinn að gleyma því!

Ég: HA?!

Pa: Já þær rifnuðu um daginn þegar ég var að vesenast með strákunum...ég var bara búinn að steingleyma því! Svo fann ég þær bara samanbrotnar inn í skáp og skellti mér í þær.. Skildi ekkert í því hvað þær voru eitthvað lausar!

Þarna var ég komin í nett hláturskast en pabbi hélt áfram að bæta blómum við þessa frásögn.

Pa: Svo var ég bara að dóla mér frammi að fá mér kaffi og svona áður en messan hæfist. Búinn að steingleyma gatinu!

Við pabbi getum tekið rosaleg hlátursköst saman og þetta var alveg efniviður í eitt. Við náðum að halda hlátrinum í skefjum en stíflurnar brustu þegar við vorum að fara úr kirkjunni enda þurfti ég að labba á eftir föður mínum til að blokka útsýnið. Þetta var ekkert lítið gat!

Ég fór beint til afa til að deila þessari skemmtilegu sögu sem segir mér þá frá Hannesi Hafstein. Þannig var að Hannes fór í búð og uppskar mikinn hlátur verslunarkonu sem þar var.

Mælir þá Hannes:

Sorglegt er að sjá á mér

svívirðingu ljóta,

nú er ég orðinn eins og þér

opinn milli fóta.

Þar hafiði það. Þegar pabbi mætti á svæðið fékk hann að heyra þessa vísu en afi hló þá enn meir þegar hann fattaði að pabbi væri að koma úr messu. Hahahahahahahahaha...!!

Liljan (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 16:10

2 identicon

óh..mæ þessi er best!! Sé pabba alveg í anda með risastóra saumsprettu á rassinum í MESSU ....Þetta er bara ógeðslega fyndið! Afi klikkar svo ekki á viðeigandi skáldskap! Ji...ber þetta undir pabba næst þegar ég heyri í honum...

Verð að deila einu með ykkur sem ég upplifði í dag. Sat ein í bíl og var að hlusta á Útvarp sögu( sem ég geri MJÖG sjaldan en þegar allt annað þraut og latibær líka þá ...) Jæja þar er ráðsett frú vel yfir miðjan aldur að segja ljóskubrandara! og reyna að hlægja af þeim líka því ekki voru aðrir í stúdíóinu sem hjálpuðu til með það..Alla vega hér kemur einn brandarinn og þar sem ég sat ein enn og aftur í bíl þá fór ég hjá mér að hlusta á hana...en brandarinn hljómaði svona: Hvað segir ljóska á meðan á kynlífi stendur?...SVAR Ekki neitt af því að mamma hennar sagði henni að tala ekki við ókunnuga!!!!Hahaha...nú er einhver að hlæja út í bæ!!( Já það var alla vega ekki ég! Og svo hélt fullorðna frúin áfram ..). Hvað segir ljóska á meðan á kynlífi stendur? SVAR ..ekki neitt því hún er með fullan munnin! ( Jedúdda mía og þetta í útvarpið hugsaði ég með kjánahroll ein með sjálfri mér)..."af því að mér finnast ljósku brandarar svo svakalega skemmtilegir"..kom alltaf inn á milli og kjánalegur hlátur..Annar hljómaði svona: Hvað er ljóska akandi á bíl? SVAR Loftpúði!!! Já how low can you go??? segi ég bara . Næst hlusta ég bara á Sollu stirðu og Sigga sæta diskútera íþrótta nammi!

Þóra sys (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 00:15

3 identicon

Sé þig alveg fyrir mér sitja þarna eina í bílnum! Ég held að Nenni  níski fái mitt atkvæði fram yfir þessa ágætu frú. Reyndu þeir ekkert að stoppa hana?

Vandræðalegt...  Vekur líka upp spurningar hvort hún hefði fengið að ganga svona langt ef hún hefði tekið einhvern annan hóp fyrir en ljóshærðar konur?

Liljan (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 10:56

4 identicon

þið eruð alveg óborganleg
Eplið fellur greinilega ekki langt frá eikinni! Hvað verður það eiginlega næst...

Vildi að ég hefði frá einhverju skemmtilegu að segja!!!

dísa (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 22:43

5 identicon

Já við systurnar erum ágætar..pabbi er náttúrulega alveg sér á báti!!

...kannski er þetta bara í genunum eftir allt saman

Er EKKERT að frétta frá St Olafs? Hvað meinaru?!

Liljan (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 09:45

6 identicon

Hahaha, pabbi þinn er algjör snillingur... :D

Takk annars fyrir afmæliskveðjuna Lilja mín! Mátt alltaf semja til mín vísnabálk ef andinn kemur yfir þig... ;)

Elín Birna (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 16:36

7 identicon

Elín lítil létt á fæti

eldist nú sem aldrei fyrr!

Oftar stansar, fær sér sæti

situr fyrir, alveg kyrr!

Nei ég hendi kannski í eitthvað merkilegra við betra tækifæri, er að hlaupa í tíma 

Knús!!

Liljan (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 10:28

8 identicon

Hey ég er nú ekki orðin svona gömul!! ;)

Listavel samin staka engu að síður, takk fyrir mig :) Bíddu samt bara þar til þú verður jafn gömul og ég...

Elín Birna (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband