Mér er sem ég sjá'ann Einar kalda..

Það er of löng saga að segja frá því hvað varð til þess að við Þórey enduðum á að skreppa til Eyja. Reyndar trúði ég því eiginlega ekki að við værum í alvörunni að leggja í hann fyrr en Þórey pikkaði mig upp hjá afa þennan fimmtudagsmorgun og ég settist upp í bílinn hlæjandi. Þorlákshöfn: Here we come! Þar sem við vorum á ágætum tíma rúntuðum við aðeins í Þorláki og náðum nánast að villast. Ótrúlegt...en satt. Við hentum okkur því í dallinn sem ég skil ekki til þessa dags hvers vegna heitir ekki bara Eyjólfur –burtséð frá augljósri tengingu Herjólfs við Herjólfsdal. Jæja.. Þegar við stigum út úr bílnum, inni í Herjólfi kom þessi líka skemmtilega lykt sem minnti mig bara á hugsanlega yfirvofandi sjóveiki. Húsvörðurinn í Skógarbæ hafði stuttu áður rekið upp stór „eyru” þegar hann heyrði að ég væri að fara til Eyja og spurði mig í forundran hvort ég hefði ekki heyrt spána: 20-og-ég-veit-ekki-hvað-margir-metrar-á-sekúndu!! -áður en hann ráðlagði mér að taka sjóveikitöflu og leggjast einhvers staðar fyrir. Við þessi ummæli hlakkaði aðeins í mér -innra með mér- ég barði mér á brjóst (í huganum) meðan ég hugsaði til sjómanna í móðurætt sem höfðu/hafa margmigið í saltan sjóinn. Minningin um það þegar ég ældi nammimöndlum á gólfið í Akraborginni var hins vegar fljót að hellast yfir mig þegar í Herjólf var komið. Dallurinn vaggaði af stað og Þórey, sem sat við hliðina á mér í bíósalnum, leit á mig dreymandi og sagði: „Ooooo það er svo notalegt að láta rugga sér svona!” Ég brosti bara út í annað og hugsaði með mér: Já já, við skulum sjá hvernig þetta þróastJ Við vorum ekki langt á sjó komnar þegar Þórey uppgötvaði tyggjó í fallega rauða hárinu sínu. Einhver hafði verið svo vænn að skilja eftir jórturleðrið sitt á hauspúðanum. Þórey kallaði eftir neyðaraðstoð og ég drattaðist upp úr stólnum sem ég hafði heitið sjálfri mér að sitja grafkyrr í þar til dallurinn næmi staðar (vá ég fæ alveg sjóriðu að rifja þetta upp!) Nema hvað að ég arka á eftir Þórey inn í kaffiteríuna eins og draugfullur sjóræningi (jiii- ekki að djóka með sjóriðuna, það bara hringsnýst allt!) og reyndi að kroppa mesta tyggjóið úr peysunni hennar og hári meðan ég barðist við að halda jafnvægi. Restin var svo klippt úr og ég gekk jafn full að sjá til baka. Veltingurinn var ekki lengur notalegur þar sem skipið virtist nú þeyta kerlingar á biluðum bárum! Stefnið fannst mér stefna til himins áður en við skullum aftur niður og þeystumst sitt á hvað til hægri og vinstri. Til að kóróna þessa ágætu stund var farið að sýna myndina Super-Size Me. Einstakt val á bíómynd, segi ekki annaðJ Ég lokaði augunum og var á þessum tímapunkti farin að veifa æluboxi yfir andlitinu á mér í veikri von um smá gust meðan svitinn spratt fram á enninu á mér og öll tengsl við sjómennina í móðurætt voru orðin a-f-a-r   f-j-a-r-l-æ-g. Þórey greyið zikk-zakkaði inn á klósett og skilaði pulsunni í postulínið á meðan ég talaði sjálfa mig í gegnum þessar hörmulegu mínútur sem eftir voru. Um leið og báturinn stansaði hvarf hins vegar þessi ónotatilfinning með öllu og við brunuðum á Gistiheimilið Árný. Þar tókst okkur, óvart, að vekja barnabarn annars vinalegs gistihúsaeiganda áður en okkur voru veitt lyklavöld að ágætu herbergi í kjallaranum. Við komumst fljótlega að því að öll söfn, þ.m.t. safnið í Skansinum sem ég er alltaf að tala um, voru lokuð svo við tókum ráðleggingum Árnýjar og keyrðum af stað. Við skoðuðum Flakkarann, keyrðum hálfgerða vegleysu upp í fjall og fundum þar kross, Gaujalund, Guðlaugskerið (dásamlegt að sitja við hlið Þóreyjar þegar hún var að lýsa staðháttum út frá því sem hún hafði séð í Kastljósi –en henni tókst að finna kerið, stelpunni!), keyrðum út á Stórhöfða, skoðuðum Ræningjatanga, Herjólfsdal og já..bara ALLT. Ég varð reyndar fyrir smá vonbrigðum að vera ekki búin að læra Göllavísur áður en við lögðum í hann og var hálfpartinn að vonast til að mæta Árna Joð. Hann hefði örugglega verið til í að taka í gítarinn með okkur...mmm! EN allavega. Þórey stóð sig eins og hetja í hlutverki bílstjórans og náði bara næstum því að drepa okkur sjö sinnum. Við hlógum mikið að því hvað maður getur verið dómharður í umferðinni í Reykjavík og telur sig spotta nákvæmlega út hverjir séu aðkomumenn „því þeir kunna ekki umferðareglurnar” Ég held að allir í Eyjum hafi séð það langar leiðir að við vorum ekki heimamenn –við bara sáum ekki allar biðskyldurnar. Reyndar er Þórey ekki með einkanúmer sem skar Yarisinn soldið úr flórunni. Það er gaman að segja frá því að á rúntinum mættum við Elfu, Ingó, Gústa, Frikka og fleirum..allir með einkanúmer. Reyndar var einhver Eyja-peyjinn á mj töff breyttum Volvo sem keyrði ítrekað fram úr okkur á vafasömum hraða, án einkanúmers, en mjög áberandi þó..!             

Við hentum okkur svo í sund um kvöldið og það var unaðsleg nostalgía að stinga sér aftur í laugina enda á maður margar góðar minningar þaðan frá IMÍ. Það er reyndar orðin svakalega fín aðstaða og allt orðið stærra og nýrra síðan ég synti þarna síðast og því höfðum við harla gaman að því þegar litlar skvísur í klefanum sögðu okkar að „elta bara motturnar” til að komast í laugina. Þessar ágætu mottur lágu í gegnum kaffistofu starfsmanna og líkamsræktarstöð svo eitthvað sé nefnt sem gerði leiðina út í sundlaug ævintýralega þó ekki verði meira sagt,) Í pottinum lagði ég svo við hlustir þar sem tveir krakkar (á að giska 11) ræddu listina að spranga. Strákurinn virtist eitthvað hneykslaður á litlu skottunni að vera lofthrædd í 5 metrum. Mér finnst 5 metrar bara ansi hátt þegar maður hangir í einhverjum kaðli utan í fjalli..en það er bara ég. Skemmtilegt að upplifa svona frábrugðnar pottaumræður þar sem krepputal er að drepa alla stemmningu í heitu pottunum uppi á landi, segi ekki annað! Þar sem Þórey hefur með afburðum stórt tengslanet var það svo úr að við skruppum á Cafe Volcano eftir ábendingu einhvers gutta í Eyjum sem Þórey kannast við og fengum þar svona líka afburða góða þjónustu..:D           

Daginn eftir hittum við svo Björgu Pálsdóttur ljósmóðir og merkilega konu með meiru. Við Þórey vorum alveg dolfallnar að heyra hana segja frá ævintýrum sínum í Eþíópíu og störfum sínum á veraldarvaktinni (langar báðum dáldið í slíkan bisness einhvern tímann á lífsleiðinni). Þar sem Björg tók á móti okkur á milli kúnna sýndi hún okkur fæðingarstofuna og fræddi okkur um starfsemina áður en hún kom okkur í hendur hjúkrunarfræðings á miðhæðinni, Margréti, sem sýndi okkur alla deildina. Þá tók Hildur sjúkraþjálfari við okkur og sýndi okkur betur efri hæðina og við enduðum niðri hjá Auði á heilsugæslustöðinni og fengum því þarna þennan líka GRAND-túr um heilbrigðisstofnunina sem var miklu betri en einhver skitin (sorrí orðbragðið) rúsína í pylsuendanum -Og þó er ég hliðholl rúsínum..var frábært.           

Við fórum í hádegismat á Santa María, drukkum kaffi eins og okkur væri borgað fyrir það og röltum svo í búðir. Þar sem sjóferðin var farin að nálgast fannst mér örla fyrir tja..einhvers konar „fyrirfram” sjóveiki og ég reyndi að rifja upp ráðin á heimasíðu Herjólfs. Átti maður helst ekki að drekka kaffi fyrir ferðina eða átti maður að drekka kaffi? Ég taldi ljóst að mér hefðu sennilega orðið á mistök við að hella í mig þarna 3-4 bollum þó góður hafi hann verið kaffisopinn, heillin! Við keyptum okkur minjagripi og fórum í apótekið eftir koffínátíni. Ég spurði dömuna hvort þetta virkaði eitthvað og hún svaraði með svo sannfærandi já-i að ég var ekki lengi að snara fram kortinu og henda í mig tablettunni. Við fundum svo Pompeii norðursins og hittum þessa líka skemmtilegu karla sem fræddu okkur um verkefnið. Einn þeirra potaði aðeins í vikurinn og það myndaðist ágæt hola við eitt húsið þannig að við fengum gott útsýni yfir þak og útvegg húss sem er búið að vera niðurgrafið í öll þessi ár: Algjörlega magnað. Það var töluvert betra í sjóinn en daginn áður en ég er ekki frá því að taflan hafi gert sitt gagn líka. Ég steinrotaðist og svaf alla leiðina til baka. Gott ef það var ekki bara notalegt að láta rugga sér svona í svefnrofanumJ  

Þetta var geggjuð ferð og skemmtileg þó stutt hafi verið og ég segi eins og Rússarnir (með safnið sem var lokað): Maður verður að skilja eitthvað eftir svo maður hafi eitthvað til að koma aftur fyrir. Vestmannaeyjar eru náttúruperla með ótrúlega „stóra” sögu og eftir túrinn um spítalann hefði ég jafnvel verið til í að ráða mig þangað. Þær seldu mér gjörsamlega hugmyndina þessar stelpur. Allavega væri gaman að skreppa þangað einhvern tímann aftur og kynnast rótunum. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér? Hmm Þórey!? Annars heyrist mér nú á að öllu að hin árlega Kenía-útilega verði haldin í Eyjum í ágúst -Elva Dögg er komin með puttana í planiðJ Væri samt til í að vita meira um blessaðar rollurnar sem virðast hanga þarna uppi í Heimakletti, þær bara HLJÓTA að lenda einhvern tímann í sjálfheldu! Meeee..!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

HAHA, góð ferðasaga Lilja, þú ert notla snilldar penni. Ótrúlegt hvað við vorum aktívir túristar í þessari ferð, ég er bara mjög stolt af þessu framtaki okkar:)

Þórey (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 23:34

2 identicon

Já, frekar duglegar Gat ekki annað en hlegið þegar ég var að hugsa um Super-Size me..eins og mér fannst það passlega EKKI fyndið þegar myndin byrjaði og krakkarnir voru að syngja lagið um Pizza hut og Kentucky fried..ahh sæææææll!

..en nú langar mig bara að fara aftur! Gerum meira af þessu í framtíðinni, að vera svona sponteiníus!

Liljan (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 08:29

3 identicon

Alltaf sama stuðið á kellu!!

Lísa (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 16:23

4 identicon

Haha snillingur...leiðinlegt að þú hafir ekki getað fengið Göllavísur fyrir ferðina og KLÁRLEGA á báturinn að heita EYjólfur...haha!

Gangi þér vel á lokasprettinum!

B

Berglind Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 07:19

5 identicon

Já, við þurfum að setjast á Þórdísi þegar litla "geimveran" er mætt á svæðið og læra þetta í eitt skipti fyrir öll. Ég er ekkert viss um að maður sé rólfær á Þjóðhátíð nema kunna þetta!

Stuð að eilífu Lísa, stuð að eilífu..!

Liljan (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband