Þá skilja leiðir þegar síst skyldi. Ég er nokkuð viss um að einhver spekingur hafi einhvern tímann látið þessi orð falla. Lífsförunautur minn, félagi og kær vinur hefur nú kvatt okkur. Löngum þekktur undir nafninu prins Polo hefur hann þjónað mér frá því leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir all nokkrum árum síðan. Í ljósi þess hve stórt hlutverk hann hefur spilað í lífi mínu kemur það varla á óvart að mér hefur í gegnum tíðina verið tíðrætt um hann og eytt ófáum takkaslögum í frásagnir af honum. Hér á eftir gefur að líta nokkur minningabrot af félaganum sem nú er horfinn á braut. Heilsu hans hefur hrakað að undanförnu en þessi kappi lifði það þó að skutla mér í Skálholt um síðustu helgi þar sem mér tókst ætlunarverk mitt að klára (nánast) ritgerðina mína. Þessi ferð varð honum þó sennilega um megn og sjálfsagt það sem varð honum að aldurtila -svona eftir á að hyggja. Hann skutlaði mér frá Skálholti í hestamessu en í ljósi nýrra óhljóða sem hann kom sér upp í Skálholtsferðinni mátti ég bíða á meðan um 100 hross lögðu af stað upp í Víðidal af ótta við að fæla þau með látunum.
Á mánudaginn hótaði hann hins vegar að gefa endanlega upp öndina þar sem ég keyrði hann þvert yfir Skólavörðustíginn (var að reyna að taka U-beygju) en botninn sló endanlega úr þegar han komst ekki í 4. gír -vöðvastýrið, óvirku rúðuþurrkurnar, lekinn, hljóðið í miðstöðinni, skortur á samlæsingu, óopnanlegt skott til fjölda ára og allt hitt... var löngu hætt að taka eftir því. Var bara orðin helst til áhyggjufull yfir heilsufarinu og svipurinn á Helgu sem fékk að sitja í bætti ekki úr skák (leist-ekki-á-blikuna-+-lífhrædd.is). Það er eitt að aka sjálfum sér og taka sénsa en allt annað mál þegar fleiri eru um borð. Svoleiðis gerir maður ekki.
Við getum þó huggað okkur við það að systir mín, Þórhildur, lofaði fyrir jól (þegar ljóst var að prinsinn fengi aldrei aftur skoðun) að baka kökur og halda erfidrykkju þegar að kveðjustundinni kæmi. Ég bíð eftir opnu boðskorti Þóra.
Ef ég væri tæknisinnaðri myndi lagið Seasons in the sun óma í bakgrunninum og slómó-myndasýning frá stundum okkar saman líða yfir skjáinn. En ég kann það ekki. Ég læt því nægja að taka saman nokkrar frásagnir af mínum ástkæra og treysti því að lagið ómi í hugum ykkar.
Hvíl í friði kæri vinur, þín verður sárt saknað.
Liljan
20. 5.08 Draumaprinsinn..
...kom inn í líf mitt einn sumardag í maí árið 2001. Það var nokkur aldursmunur á okkur en þegar ástin er annars vegar er aldur afstæður. Hveitibrauðsdögunum eyddum við í rólegum gangi eftir götum borgarinnar, dóluðum okkur eins og við ættum allan tímann fyrir okkur. Ástin blómstraði og sólin virtist kyssa okkur á hverjum degi.
Það leið ekki langur tími þar til við færðum samband okkar á annað stig og fórum í fyrstu ferðina okkar út fyrir borgarmörkin. Ég kynnti hann fljótlega fyrir fegurðinni norðan heiða og austan sem hann féll fyrir, alveg eins og ég. Hann var sem hugur minn og uppfyllti allar þarfir mínar og þrár. Við vorum sköpuð fyrir hvort annað. Ég trúði því af öllu hjarta að lífið yrði alltaf svona ástríðufullt..enda á ástin til að blinda fólk en ég væri að ljúga ef ég héldi því fram að aldrei hefðu komið brestir í sambandið. Þegar hversdagsleikinn tók af okkur völdin og vinna og aðrar skuldbindingar fóru að taka annars dýrmætan tíma frá tilhugalífinu fór að bæra á örlitlum pirringi. Skyndilega var prinsinn ekki eins og hugur minn. Kækir sem mér hafði áður þótt krúttlegir og sætir fóru að pikka í mínar fínustu. Ég kenndi álaginu um enn sannfærð um eilífan kraft ástarinnar og reyndi eftir fremsta megni að leiða þá hjá mér. Gekk ekki. Hann skynjaði pirringinn minn og varð sjálfur pirraður á pirringnum á mér.
Það boðar aldrei gott þegar einhver er pirraður út í annan og hann verður pirraður á pirringnum í hinum. Þið vitið hvað ég á við.
Ég gat hvorki hlegið eða fundist það sætt og fyndið þegar hann í ærslafullum leik fór að ausa yfir mig vatni. Sorrí, ég bara hafði ekki húmor fyrir því. Mér fannst það líka ekki fyndið þegar hann fiktaði í rúðuþurrkunum mínum þannig að þær virkuðu ekki í rigningu. Heldur ekki þegar þær byrjuðu að skúra þegar rigning var hvergi í sjónmáli. Þegar hann lagðist í götuna og þóttist ekki komast lengra en hrökk svo alltaf strax í gang eftir smá hvatningu. Á ég að hvetja þig áfram alltaf alls staðar? -Ég er í skóla og vinnu og hef FULLT af öðrum skuldbindingum sem ég tek alvarlega!
Þar sem ég var við það að gefast upp og ég viðurkenni að ég var farin að líta í kringum mig eftir nýjum prinsi til að uppfylla þetta tómarúm sem ástin mín var farin að skilja eftir sig, ákvað ég að gefa honum einn séns í viðbót. Ein ferð norður til að treysta sambandið, reyna að finna aftur taktinn sem hentaði okkur svo vel. Ég var stressuð fyrir ferðinni enda fannst mér hjartað mitt og heili vega salt sem er ekki góð tilfinning. Við lögðum í hann og hann lét af öllum pirrandi háttum sínum. Hann varð aftur eins og hugur minn og ég endurheimti ástina.
Ég er að segja þér það að ferðin okkar saman, alein í 4 og hálfan tíma (með smá dassi af Madonnu) styrkti sambandið svo um munar. Í dag hef ég bara augu fyrir einum prinsi og það er hann..
Prins Polo árgerð 1997 sem flaug í gegnum skoðun í síðustu viku og færði mig heila á höldnu norður.
Elska þig!
4.6 Þegar bíllinn Hannesar dó síðastliðið sumar og hann fékk prinsinn að láni
Gripið niður í miðja sögu..:
Prinsinn var ekkert ægilega þrifalegur. Pabbi sagði mér áður en ég lagði af stað að ég yrði að ryksuga hann, það væri bara ekki sjón að sjá inn í hann og ég á leiðinni norður! Ég var hins vegar fullviss um að Ólafsfirðingar myndu ekki liggja á rúðunni hjá mér til þess að skoða inn í hann og fór því á honum "óryksuguðum" norður. En nú ætlaði frændi að fá bílinn svo ekki gat ég boðið honum upp á þetta. Ég fór því með bílinn niður á Hótel og ryksugaði hann hátt og lágt. Eftir að hafa ryksugað hann fannst mér þetta svo hriiikalega gaman að ég ákvað að vaða í einn kústinn og þrífa hann bara almennilega í leiðinni. Ég var að klára að ryksuga þegar maður á jeppa keyrði að einum kústinum og út stökk reyndur bílakústaþrífari svo ég ryksugaði nokkur ímynduð korn úr bílnum og dólaði í von um að hann færi svo ég gæti byrjað. Það voru tvær ástæður fyrir þessu: Í fyrsta lagi: Prinsinn má ekki fá minnimáttarkennd við hliðina á nýjum Land Cruiser (jú jú, vanur en þessi var ókunnugur) og í öðru lagi: Ég er ekkert sérstaklega lagin við svona kústa, svo ekki verði meira sagt. Ég gafst samt fljótt upp á því að ryksuga eitthvað sem ekki var svo ég renndi upp við hliðina á jeppanum og byrjaði á að kústa motturnar. Það fór heldur brösuglega af stað enda mikill kraftur í kústinum, heldur meiri en ég bjóst við. Vatnið frussaðist því um allt og ég mátti hafa mig alla við að hafa einhverja stjórn á honum. Ég ætlaði bara að taka mér góðan tíma í motturnar þangað til kauði léti sig hverfa en það var ekkert hægt að dóla -þetta var bara hörku puð! Það varð því fljótt ljóst að ef ég ætlaði að ná að fara yfir allan bílinn í stað þess að gefast upp á miðri leið yrði ég bara að gjöra svo vel að kyngja stoltinu og kústa hann með áhorfanda. Ég náði að flengja kústinum niður á húddið og hamaðist þar sem vitlaus væri (það leit allavega þannig út en í raun var það bara örvæntingarfull tilraun af minni hálfu að hafa stjórn á þessu kraftmikla tryllitæki sem bílaþvottakústar geta verið). Grasið ætlaði bara ekki af en ég hélt áfram og elti kústinn á aðra hlið bílsins. Ég reyndi að nudda kústinum vel á neðri hlutann enda var mest rykið þar. Það reyndist mér þó erfitt þar sem varla er hægt að segja að kústurinn hafi snert stálið (slíkur var vatsnstraumurinn). Þegar jeppadúddinn við hliðina á mér hvarf á bak við sinn bíl skolaði ég þakið enda náði sprænan úr mínum kústi ískyggilega nálægt bílnum hans (þó var kúststæði á milli okkar). Ég fór yfir rassinn á bílnum en þá kom slinkur á slönguna svo ég togaði en það dugar víst ekki til að leysa úr slíkri flækju. Á meðan byggðist upp meiri kraftur svo ég missti næstum takið á kústinum þegar vatnsflaumurinn braust af enn meira afli fram í kústinn. Ég hélt að sjálfsögðu kúlinu allan tímann með hárið klístrað blautt framan í andlitinu á mér og sólgleraugun á nefbroddinum(!) Þegar kom að hinni hlið bílsins féllust mér hendur enda töluvert meiri skítur þar en hinumeginn. Ég var að niðurlotum komin en dröslaðist þó í gegnum þetta og kláraði. Ég var ansi fegin þegar ég slökkti á krananum en þá flaug að mér sú hugmynd að kannski hefði bara verið betra að skrúfa ekki alveg frá svo bunan yrði aðeins slappari. Ég nennti samt engan veginn að standa í því þarna enda búin að þrífa bílinn. Ég skellti blautum mottum í bílinn og ók heim á leið. Þá gerði ég mér ferð inn í Skipholt að sækja tusku og þurrka skyrið innan úr bílnum síðan börnin "mín" átu þar heila skyrdós með puttunum... Ég var harla ánægð með afraksturinn en sú gleði hrundi eins og spilaborg þegar bíllinn fór að þorna.
Það eru helgidagar út um allt.
Ég ætla að kaupa mér klippikort á bílaþvottastöð. Ég er bara engin manneskja í bílaþvott og játa mig sigraða. Ég gefst upp!
11.7 Brúðkaup Örnu og Tomma
Ég reif mig upp fyrir allar aldir 3. júlí sl og lagði af stað suður. Ætlunin var að hitta liðið að Hlöðum í Hvalfirði kl 10 til að græja staðinn fyrir brúðkaupsveisluna. Með í för var Dísa litla. Við vorum ekki komnar langt inn á Lágheiðina þegar ferðafélaginn hafði orð á því að við hefðum nú getað farið á hennar bíl (töluvert nýrri og flottari bíll..með bakk myndavél nb!) Ég sagðist nú ekki telja þörf á því, þetta yrði ævintýraför á prinsinum. Þá skellti pían upp úr og svo ískraði í henni: Svo ferðu Lágheiðina! -Eins og ég væri á leiðinni yfir Kjöl...!
27.7 Á hlaupum
Byrjum á smá rapporti um prinsinn. Eins og áður hefur komið fram er prinsinn orðinn nokkuð slæmur til heilsunnar. Við erum að tala um 11 ára gamlan dreng sem hefur (erfitt að segja það) e.t.v. ekki búið við nógu gott atlæti síðustu..hvað 7 árin? Það hefur þó lagast í seinni tíð og er hann nú umvafinn ást og hlýju á degi hverjum...! Eftir síðustu ferð okkar norður var mér bent á að eitthvað hefði komið drengstaulanum úr jafnvægi og bæri hann þess skýr merki. Ég hafði greinilega gleymt mér í eigin þönkum og ekki veitt honum næga athygli meðan brúðkaupsundirbúningur stóð sem hæst. Tiltölulega nýr fótabúnaður prinsins hafði spænst upp að hálfu og stóð myndarlegt víravirki út úr báðum framdekkjunum (nákvæmlega, hver vissi að það væru vírar inni í dekkjunum?! Ekki ég!) Nú hef ég oft gert grín að sjálfri mér fyrir það hversu hriiiikalega ósjálfbjarga ég er þegar kemur að heilsu prinsins sem skýrist bara af góðum föður: Já pabbi?! Lilja hérna! Ég var að bakka út úr stæði og gírstöngin bara datt úr sambandi! ...já nei, ég var búin að bakka úr stæðinu þegar stöngin...uuu...hætti að virka. Ha? Ýta honum aftur inn í stæðið?! Nei, ég held ég geti það ekki, ég er í kjól og á hælum! (Sönn saga frá afmælinu mínu '07)
Núna er ég á Ólafsfirði og ætlaði því að reyna að hlífa föður mínum sem er í Reykjavík. Svo ég skrapp til móðurbróður míns sem er bifvélavirki en hann var ekki í bænum. Þá fór ég til annars móðurbróa sem var að rúnta einhvers staðar á íbúðinni sinni (húsbíl). Þegar þarna var komið við sögu var nokkuð farið að síga úr dekkinu svo ég bætti í það og hlustaði svo á róandi hvisss hljóð sem sannaði gat á dekkjaræflinum. Tók ég þá upp símtækið og hringdi í pabba. Það var ekki að spyrja að honum, örfáum mínútum síðar var hann búinn að athuga status á báðum móðurbróunum og hringja á bæjarverkstæðið til að athuga með dekk en fór þó svo að þau voru keypt í bænum og send norður með Flytjanda! Ég fór svo röltandi til að sækja dekkin eftir vinnu en komst þá að því að skrifstofan var bara opin til 15 svo Dísa greyið mátti gera aðra tilraun daginn eftir en þá höfðu þau þegar verið sótt af móðurbró. Svona eru allir hjálplegir fyrir norðan! Móðurbróarnir unnu svo saman að því að skipta um dekk og "balancera" bílinn. Líða svo ÖRfáir dagar og ég ætla að renna inn á Akureyri að hitta Helgu. Ég var að skutla Sossu frænku inn á Dalvík (á hennar bíl) og hjólaði svo á fullu heim að ná í prinsinn til að skutlast þetta. Fór þá ekki betur en svo að prinsinn startaði ekki. Nú á hann það "stundum" til að drepa á sér en alltaf rennur hann aftur í gang. Það er skemmst frá því að segja að ég gerði ca 10 tilraunir til að starta honum áður en ég hringdi í Sossu og fékk að fara á Teriosinum hennar. Viffi tók prinsinn og hlóð geyminn enda þurfti ég að komast á honum í Ásbyrgi í gær. Í gærmorgun kom Dísa til mín af næturvaktinni með blöð til mín sem ég hafði prentað út daginn áður og spurði áður en hún ók á brott hvort ég kæmi honum örugglega í gang. Ég hélt það nú! Við kvöddumst og hún hélt sína leið rétt eins og ég ætlaði að gera en aftur vildi kauði ekki í gang. Ég hringdi því í Dísu og bað hana að ýta mér út úr stæðinu svo ég gæti látið hann renna í gang. Dísu skorti kraftana svo ég ýtti henni úr stæðinu í brekkuna en þá stökk hún úr bílnum og ég inn. Dísa hljóp svo hlæjandi með mér niðureftir á meðan ég reyndi eftir öllum ráðum að koma bílnum í gang. Tókst ekki! Eftir stóð Dísa í brekkunni í mesta hláturskasti sem ég hef hingað til orðið vitni af hjá henni.
Ég ók því í Ásbyrgi á töluvert flottari bíl (Nissan Primera með bakkmyndavél nb!). Mér leið eins og algerri skutlu en á sama tíma dauðhrædd um að klessa bílinn eða velta honum á leiðinni. ((Þessi fóbía mín verður rakin til þess þegar móðir Dísu ætlaði að lána mér jeppann sinn til að skreppa upp í Skipholt þegar ég var nýkomin með bílpróf. Pabba leist nú ekki á blikuna og skutlaði mér. Þá hafði hann orð á því að ég gæti velt bílnum á leiðinni (frá Dísu upp í Skipholt eru á að giska 600 metrar) og að maður ætti aldrei að fá neitt lánað sem maður er ekki borgunarmaður fyrir. Þetta mottó hefur fylgt mér og er gott..þó fóbían mætti vera minni!)) Ég fór semsagt niður í Ásbyrgi til að taka þátt í Jökulsárhlaupinu.
Komment frá Dísu litlu á þessa færslu: Var að spá í hvort að ég ætti að tjá mig e-ð um Prinsinn en ég held ég sleppi því þar sem það eru ekki fögur orð, fyrir utan það að þú myndir ekkert hlusta á mig!
21. 8. 2008
Ég var að skríða niður af Lágheiðinni þegar prinsinn byrjaði að tuða. Ég lét sem ég heyrði ekki í honum og hækkaði aðeins í útvarpinu. Eftir því sem leið okkar inn Skagafjörðinn styttist hækkaði minn róminn og reyndi að yfirgnæfa Mamma mia diskinn sem ég var að reyna að hlusta á. Þegar við fórum í gegnum Sauðarkrók var hann beinlínis dónalegur og jós fúkyrðum yfir bæinn. Ég hækkaði bara enn meir í tækinu og fór að syngja með enda ekki vön því að rífast. Best að leiða það bara hjá sér. Ég tók svo upp puttaling sem fór í fyrstu hjá sér yfir látunum í prinsinum. Við kölluðumst því á í stað eðlilegs spjalls þar til hún hoppaði út í Borgarnesi. Þegar þarna var komið við sögu hækkaði ég svakalega í tækinu og var farin að syngja fáránlega hátt með -svo það var bara gott að það var enginn ferðafélagi með í för...! Þegar ég keyrði svo inn í siðmenninguna er skemmst frá því að segja að prinsinn vakti áður óþekkta athygli á sér, slík voru lætin í honum. Ég ákvað að koma við hjá Þóru sys og sækja burstann minn en aðkoma mín þangað verður best lýst svona.
Hjón stóðu í þögn inni í eldhúsi að undirbúa matarboð. Karlinn var að skerpa á kjöti en frúin að brytja niður í salat. Berst þá inn mikill hávaði að utan.
Hallgrímur: Hvað er þetta?
Frúin teygir sig í átt að glugganum en snýr sér svo aftur að fyrri iðju: Lilja er að koma.
Já pústið er farið og ég er í þessum töluðu að sækja um nemakort í strætó.
Fann ekki frásögn mína af annars eftirminnilegu augnabliki með prinsinum þegar ég sótti múttu og far á völlinn fyrir jól en það var einhvern veginn svona..:
Ég lagði af stað rétt um 5 leytið um morguninn, hækkaði í græjunum og sönglaði..svona til að halda mér vakandi. Þegar vegurinn var orðinn tvíbreiður ók upp að hliðinni á mér rúta og gefur stefnuljós út í kant. Bara smá problem: Ég var á akreininni á milli kantsins og rútunnar. Rútubílstjórinn sem ég hélt að hlyti að vera snar eða staurblindur þröngvaði mér út í kantinn, ók í veg fyrir mig og nam staðar. Ég horfði hissa fram fyrir mig, skrúfaði niður rúðuna og velti því fyrir mér hvað væri að gerast þegar rútúbílstjórinn kom æðandi út kallandi: Er allt í lagi með þig?!" Ég náði ekki að svara því guttinn hljóp hring í kringum prinsinn og fór svo annan á fjórum fótum. Ég get bara ímyndað mér svipinn á smettinu á mér. Það skíðlogar aftan úr þér!" (-ok þetta má misskilja!) fannstu ekkert fyrir því?!" Það stóðu víst slíkar eldstungur aftan úr prinsinum að farþegunum var hætt að standa á sama. Þá sagði hann mér að "kassinn" (veit ekki hvaða) væri rauðglóandi og bauð mér svo far. Ég vissi ekki alveg í hvorn fótinn ég átti að stíga en fannst óttalegt vesen að fá far með flugrútunni til að sækja foreldrana -hvernig átti ég að redda mér/okkur til baka?! Því fór það þannig að ég ók á undan rútunni (ekki alveg sama um ástandið á meðan og þreifaði reglulega á sætinu hvort það væri nokkuð að hitna!!) og prinsinn hafði það af. Ekki að spyrja að því! Ég fékk svo öllu frjálslegri lýsingar á uppþotinu sem prinsinn olli í rútunni á meðal farþega meðan ég beið uppi á velli með bílstjóranum. Gat lítið sagt nema: Úbbs..sorrí!
Stafræn samtöl mín við Dísu um prinsinn. Dísa litla hefur löngum búið yfir óþrjótandi trú á ágæti prinsins:
12.12.08
Ég: Nú er bara að leggja í hann austur á prinsinum eineygðum með rúðuþurrkum í verkfalli -Er ekkert að birta?!
Síðar sama dag:
Dísa: Ertu að djóka ætlaru á bílnum í þessu ástandi !!! Ég kalla þig heldur bratta, þú nærð samt alltaf að redda þér sama í hvaða sjálfheldu þú kemur þér í !!!
14.1208
Ég:...og komin heim, heil á höldnu! Var vinsamlegast beðin um að koma heim í dag (af föður mínum) þar sem búið er að spá snjókomu á morgun og rúðuþurrkurnar eru enn í verkfalli. Ég settist því upp í prinsinn um 17 og ætlaði að aka sem leið lægi í bæinn en sat þá pikkföst. Ég labbaði í átt að ljósinu og fann mig í fjósi. Þar horfðist ég í augu við á að giska 20 beljur sem snarhættu allar að éta og góndu á mig í forundran. Ég óð grasið til að komast innar í fjósið en þar tók á móti mér FM 957 tónlist. Ég reyndi pent að vekja athygli á mér og rann svona svakalega í flórnum -bara heppni að ég datt ekki! Guttinn á bænum bjargaði mér úr sjálfheldunni en þegar ég lagði af stað mundi ég hversu hrikalega náttblind ég er og prinsinn eineygður. Úbbs. Ég fór ekki yfir 60km/klst og missti af tónleikum með pa. Náði samt öðrum í staðinn -stemmari!
Síðar:
Dísa: Gott að þú sért komin heim, ótrúlegt þetta traust sem leggur endalaust á þennan skrjóð!!!
Ég: Hann heitir Polo, prins Polo. Ekki skrjóður!
8. febrúar 2009 Ég til Dísu..
Annars hugsa ég oft til þín þegar ég keyri yfir snjóskafla á prinsinum. Þér myndi vökna um augun ef þú sæir hvað hann er duglegur.
Hann saknar þín líka og hlakkar mikið til að taka einn rúnt með þér, )
En fleiri verða þeir víst ekki bíltúrarnir, félagi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þín,
Lilja
P.S. Ykkur er frjálst að deila hugrenningum ykkar um prinsinn í kommentakerfi hér að neðan!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | 6.5.2009 | 00:08 (breytt kl. 08:50) | Facebook
Athugasemdir
Elskulegi Prins, hvíl í friði.. Vissulega vil ég ekki vera dónaleg en.. KALT MAT .. OG RAUNVERULEIKATÉKK..: Ég skil reyndar ekki hvernig í ósköpunum þú gast ekið um á honum svona lengi Lilja, að mínu mati er það meiriháttar afrek .. Ég hef oft furðað mig á þessu.. Mér stóð ekki á sama þegar Lilja tók U-beyju í gær á Skólavörðustígnum og þegar hún var komin þvert yfir götuna komst hann ekki gír.. ég hélt að ég yrði ekki eldri.. Prinsinn ákvað þó að aukma sig yfir okkur að lokum og smellti sér í gírinn..Dúddamía..
Elsku Lilja, samhryggist þér innilega .. Þú bara lætur vita ef þú þarf öxl að gráta á.. ;)
Kveðja,
Helgafelga
Helga (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 09:36
Jih.......þetta er nú meiri lestningin...Er alveg viss um að seint verður hægt að toppa þessi minningarorð ef einhver annar í fjölskyldunni fellur frá..Moggin er alla vega komin með takmörkun á lengd minningargreina.
Æji...er hann bara dáinn! Blessuð sé minning hans..
Ég er hins vegar alveg viss um að þú átt eftir að finna annan draumprins sem uppfyllir allar þínar þrár. Kæmist með þér hringinn í kring um landið ef þú fengir allt í einu þá flugu í höfuðið.
En jú..hvað segiru erfidrykkja...Ég er til og stend við það sem ég sagði. Höldum upp á þetta eftir próf!
kv. úr bókhlöðunni
Þórhildur systir (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 09:54
Elsku prinsinn bara búinn að kveðja okkur... ég fann á mér á sunnudaginn að það væri ekki mikið eftir. Ég samhryggist þér Lilja mín... ég á eftir að sakna þess að sitja í og upplifa misskemmtilega kæki folans;) Ekki laust við að Drottinn sjálfur fengi nokkrar línur frá mér við og við þegar hæst lét.
Þóra Björt (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 11:09
Trúi ekki ad tú skulir ekki vera fegin ad hann sé finally hruninn ! All tetta vesen sem tessi bildrusla (fyrirgefdu ordbragdid) er búinn ad koma tér í, í gegnum tídina !
Aetla rétt ad vona ad tú gefist ekki upp á ástinni, tad er einhver enn tarna úti fyrir tig =) tinn Jugo Húlíó...
disa litla (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 05:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.