Héðan og þaðan...

Er farin að heyra ,,þetta er svo týpískt þú!” dáldið oft þessa dagana svo maður ætti kannski að reyna að halda sér á jörðinni í þessari færslu..

 

Pabbi hringdi í mig sumar og sagði mér að það ætti að halda upp á afmæli afa og tveggja systkina hans (80, 85 og 90 ára) í september. Um leið og hann sagði mér að mamma ætti að leika veiðimanninn í Rauðhettu(!) sagði hann að búið væri að negla mig í veislustjórann. Ég hélt, augljóslega, að hann væri að djóka með þetta..en nei. Um daginn tilkynnti Sossa frænka viðstöddum að ég væri stundum búin að ljúka heilli setningu þegar hún fattaði að ég væri að tala. Hún er ekki sú fyrsta sem minnist á þetta þó margir hafi nú farið penna í þetta..Wink Ég er því farin að hafa þó nokkrar áhyggjur af þessu afmæli enda verður meðalaldurinn sennilega aðeins í hærri kantinum í veislunni. Ég held, án gríns, að ég verði að hafa með mér taktmæli til að minna mig á að tala hægar. Dúddamía..!

 

Um síðustu helgi var ég frekar drusluleg með barkabólgu. Ég svaf 12 og 14 tíma og fór lítið sem ekkert út úr húsi. Einmitt, stemning! Á sunnudeginum komst þó einhver hreyfing á kvefið og það fór aðeins að losna. Ég ákvað því, bjartsýn sem ég er, að skella mér á hlaupaæfingu með ÍR á mánudaginn. Þetta var fyrsta æfingin og ég var nokkuð spennt. Það var ákveðið að upphitunin væri létt skokk niður í Fossvogsdal. Létt skokk my ass! Við hlupum kílómeterinn á 5 upp í 5:17 sem er nú í rösklegri kantinum. Ég blés eins og fýsilbelgur milli þess sem ég reyndi að halda uppi samræðum við bekkjarsystur mína, Lipurtá, sem er í hlaupinu. Þegar í Fossvogsdal var komið átti að hlaupa 3x2K en það var eins og að anda í gegnum rör með þetta kvef. Þegar við svo skokkuðum aftur heim langaði mig mest til að stoppa og labba enda gjörsamlega búin á því. Ég er náttúrulega ekki komin með hlaupatæknina á hreint sem einkennir svo marga góða hlaupara þ.e.a.s. að snýta sér út í loftið svo ég saug reglulega rækilega upp í nefið milli þess sem ég ætlaði að hósta úr mér lungunum. Ógó smekklegt, getið rétt ímyndað ykkur! Ég svitnaði allt kvöldið eftir þessa æfingu og fór með Önnu Guðnýju og Þóru Björt á Vegamót frekar léttklædd. Ég hef fengið nokkur skotin fyrir það. Ojæja.. Týpískt ég..segðu það bara!

 

Svo byrjaði ég í sálgæslunni í guðfræðideild HÍ á mánudaginn. Þann daginn vaknaði ég og var kalt. Ég klæddi mig því í ullarpeysu undir jakkann og ákvað að fara á hjóli enda strætókortið ekki komið í hús. Ég fékk pabba hjól lánað (mitt á leiðinni að norðan) sem var frekar loftlaust. Ég mátti náttúrulega ekkert vera að því að bæta í dekkið (lærði greinilega ekkert af Hvalfirðinum sællar minningar) og þurfti því að hjóla niður allar brekkur. Ég svitnaði svona líka rækilega á leiðinni að ég mætti illa lyktandi í fyrsta tímann með far á enninnu eftir hjálminn. Smart. Varð hugsað til atviks úr Aðalvík þar sem Hilda (í gönguhópnum) reyndi að útskýra muninn á “sveitta stelpan” og “sweaty girl” fyrir grunlausum þýskum læknanema í sauna. Úff....!

 

Ég fékk svo að passa Markús Óla í fyrsta skiptið í fyrradag. Hann er óttalegur gullmoli drengurinnHalo Það var frekar fyndið þegar við vorum orðin tvö ein og ég var að dást að honum þar sem ég hélt á honum í fanginu. Hann horfði á mig friðsæll á svip en setti svo svakalega í brýrnar eins og til að segja: Og þú ert?! Hvar er mamma mína? Paaabbiii! Svo grét hann smá og þar sem mér var Samba-syndrómið mjög minnisstætt passaði ég mig á að byrja ekki að dansa en karlinn sofnaði fljótlega í fanginu á mér og þannig sat ég með hann án þess að bæra á mér! En það tognar úr honum blessuðum, ég var ekkert búin að sjá hann í eina og hálfa viku út af kvefinu og hann er búinn að stækka þvílíkt.

 

Þá fórum við nokkrar að kíkja á Elvu og drenginn til Selfossar um daginn (Elva var með mér í Kenía). Hann var alveg yndislegt krútt og Elva leit ekkert smá vel út. Hlín og Þórey voru með mér í för og var ekki laust við að maður þyrfti heyrnarhlífar fyrir klinginu í þeim. Ég spái frekari barneignum áður en langt um líður... Elva er hér: 123.is/hrauntun

 

Hitti svo Hildi frænku á Garðinum í gær. Hún er þrítug í dag og er sett í dag. Hún leit ekkert smá vel út með kúluna sína. Hún er líka svo jákvæð gagnvart fæðingunni að þetta á örugglega eftir að ganga eins og í sögu hjá henni. Blessað barnalánið, segi ekki annað!! Nú leggjumst við bara á bæn og vonum að samið verði við ljósmæður fyrr en seinna.

Í gær varð Elín Birna vinkona mín 25 ára, já þetta eldist allt saman. Ég myndi henda í vísnabálk ef hún læsi þetta blogg en hún gerir það sjaldan svo hún fékk bara sms,)

Jæja..komið gott. Er að hugsa um að hætta segja kjánalegar sögur af sjálfri mér hérna. Það er eitt að hafa húmor fyrir sjálfum sér en vá..fyrir fólk sem þekkir mig ekki. Tja! Það væri gaman að vita hvað það hugsar þegar það les færslurnar mínar.

 

Sjáumst,)


Fyrir þig, Þórdís Ellen!

Ég eyddi fyrsta deginum mínum í stórborginni hjá afa. Karlinn er loksins búin að fá sérherbergi svo dagurinn fór í flutningar. Þetta var vissulega gleðidagur enda langþráður. Ég kynntist reyndar dekkri hlið á afa mínum sem felst helst í því að henda ekki rusli í ruslatunnu heldur í einhverja skúffu í kommóðunni! Tyggjóbréf, umslög..nefndu það!Grin En já, þetta var mjög góður dagur, langt síðan ég hafði séð karlinn svona ánægðan með lífið (enda varla búin að sjá hann allt sumarið..) Viku síðar var svo kominn tími til að flytja litla sófann til hans. Ég bjallaði í Markús og byrjaði á smáspjalli sem ég er frekar léleg í enda augljóst að mig vanti eitthvað, þegar mig vantar eitthvað. Hann klippti fljótlega á útúrdúrana og spurði hvað mig vantaði. Ég sagði honum þá að mig vantaði Boot-camp budz til að kippa undir sófann niður eftir til afa.

Markús: Ætlaru að labba með sófann í gegnum íbúðahverfi um hábjartan dag?

L: Ég hafði hugsað mér það, já.

Markús: Er ekki í lagi með þig?!?

L: Ööö jú..!

Í stuttu máli sagt fannst bróður mínum þetta frekar fáránleg hugmynd. Ég tók aðeins í sófann meðan ég var ennþá með hann í símanum og komst að því að sófinn var ekkert svo þungur. Ég sagði honum því að gleyma þessu þar sem ég gæti að öllum líkindum græjað þetta sjálf. Hefði í raun verið með óþarfa vesen að biðja hann um þetta. Leið svo á daginn og ég ætlaði að leggja í hann til afa. Það var þó nokkur vandi að koma sófanum úr sjónvarpsherberginu og út á pall enda nokkrar dyr sem þurfti að komast í gegnum. Þegar ég hafði velt sófanum á undan mér (eins gott að foreldrar mínir lesi þetta ekki..) og út á pall var hjartað farið að slá örar og svitinn farinn að spretta fram á enninu á mér. Hann var aðeins þyngri en ég áætlaði. Ég hringdi því í Markús sem var þá hjá afa til að athuga hvort Þorgeir væri með honum, hann gæti kannski létt aðeins undir með mér en hann var ekki með. Ég sagði honum þá bara að ég væri að leggja í hann og við myndum sjást innan örfárra mínútna. Ég henti mér í skó, tók upp sófann og gekk lúshægt niður tröppurnar á annan pall en þá var ég farin að hlæja upphátt og nánast henti sófanum frá mér. Ég tók á mig rögg og ákvað að rubba þessu af. Ég tók því sófann upp öðru sinni og rölti niður á bílaplan en lenti þá í sömu vandræðum. Það sem var einna fyndnast var að ég sá nákvæmlega ekki neitt þegar ég hélt á sófanum nema sófann sjálfan. Hann blokkaði allt útsýni! Bjartsýnismanneskja sem ég er ákvað ég bara að taka þetta á jákvæðninni. Hvað með það þó ég sjá ekki neitt? Ég hef labbað þessa leið svo oft að ég get farið þetta blindandi ...með léttu(!) Með þessa hugsun í kollinum vippaði ég sófanum upp og rölti blindandi út af bílastæðinu. Aftur var ég farin að hlæja svo mikið að ég missti sófann nánast á bakið í blautt malbikið. Þá kikkaði eitthvað inn (skynsemi?) og ég skokkaði til Línu til að athuga hvort Arnór væri heima en svo heppin var ég ekki. Þegar ég rölti aftur til baka og horfði á sófann út á miðri götu réði ég gátuna við því hvers vegna ég lendi alltaf í svona kjánalegum aðstæðum. Það er náttúrulega ekki komið af neinu nema mér sjálfri og mínum bjartsýnu ákvörðunum! (Dísa, þú þarft bara að vera meira nörd eins og ég, þá kemur þettaTounge...og tileinka þér ,,þetta reddast" viðmótið!!) Ég leit á símann minn og sá að Markús hafði hringt svo ég hringdi til baka. Ég var varla búin að heilsa þegar hann labbaði fyrir hornið og sprakk úr hlátri yfir því að ég væri ekki komin lengra á leið. Ég vippaði því sófanum upp á aðra mjöðmina og tók hröð mörgæsaskref til hans. Með fullkomna sjálfstjórn nb!

Sófinn komst því á sinn stað og afi var ekki frá því að það bergmálaði minna svo það var bara gott málCool

 

Já maður reynir allavega að redda sér..


Lilja er að koma..!

Ég var að skríða niður af Lágheiðinni þegar prinsinn byrjaði að tuða. Ég lét sem ég heyrði ekki í honum og hækkaði aðeins í útvarpinu. Eftir því sem leið okkar inn Skagafjörðinn styttist hækkaði minn róminn og reyndi að yfirgnæfa Mamma mia diskinn sem ég var að reyna að hlusta á. Þegar við fórum í gegnum Sauðarkrók var hann beinlínis dónalegur og jós fúkyrðum yfir bæinn. Ég hækkaði bara enn meir í tækinu og fór að syngja með enda ekki vön því að rífast. Best að leiða það bara hjá sér. Ég tók svo upp puttaling (minnug ævintýra minna um daginn þar sem ég stóð við vegarkant með þumalinn upp í loft) sem fór í fyrstu hjá sér yfir látunum í prinsinum. Við kölluðumst því á í stað eðlilegs spjalls þar til hún hoppaði út í Borgarnesi. Þegar þarna var komið við sögu hækkaði ég svakalega í tækinu og var farin að syngja fáránlega hátt með...svo það var bara gott að það var enginn ferðafélagi með í för...! Þegar ég keyrði svo inn í siðmenninguna er skemmst frá því að segja að prinsinn vakti áður óþekkta athygli á sér, slík voru lætin í honum. Ég ákvað að koma við hjá Þóru sys og sækja burstann minn en aðkoma mín þangað verður best lýst svona.

 

Hjón stóðu í þögn inni í eldhúsi að undirbúa matarboð. Karlinn var að skerpa á kjöti en frúin að brytja niður í salat. Berst þá inn mikill hávaði að utan.

 

Hallgrímur: Hvað er þetta?

Frúin teygir sig í átt að glugganum en snýr sér svo aftur að fyrri iðju: Lilja er að koma.

 

Já pústið er farið og ég er í þessum töluðu að sækja um nemakort í strætó.

 

Pís át!


Hausta tekur..kvölda tekur?!

 P1020515

Markmiðin mín í sumar voru 2 talsins: Fara út í Grímsey og “læra” að elda fisk. Ferjan fer út í Grímsey á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum sem hefur einhvern veginn ekki passað við mína frídaga svo þannig fór með sjóferð þá! Hvað fiskinn varðar er svo hriiiikalega góður matur í vinnunni að ég ét mig pakksadda þar á hverjum degi (siginn fiskur, brauð með hákarlastöppu, saggógrautur, makkarónugrautur o.s.fr. o.s.frv.,) Ég hef hins vegar hjólað sveitahringinn 5x (3x sama kvöldið reyndar), farið þrjár ferðir upp í Fossdal, klifið Múlakollu, Garðshyrnu og Tindaöxl, rölt botnaleið til Siglufjarðar, skoðað mig um á Hornströndum, hlaupið Jökulsárhlaup og margt margt fleira. Ég geymi eyna og eldamennskuna til betri tíma.

Ég hafði miklar væntingar og var spennt að prófa að búa annars staðar á landinu en Reykjavík í smá tíma þegar ég fór norður. Reyndar spurði Álfheiður Kristín hvort ég þyrfti nokkuð að vera lengur en eina nótt þegar ég fór og velti ég því mikið fyrir mér á leiðinni hvort ég myndi einhvern tímann festast á einum stað. Reyndar fóru þessar pælingar svo út í aðrar um það hvort ég ætti að prófa suðurlandsundirlendið að ári..en það er önnur ella. Þetta var á leiðinni norður fyrir rúmum 3 mánuðum síðan. 3 mánuðir liðnir eins og hendi væri veifað. Ég var líka að hugsa um það í gær að á þessu ári hef ég eytt um 2,5 mánuði í Reykjavík. Það er kannski kominn tími til að hægja á sér og vera kyrr í smá stund. Þá er skemmst frá því að segja að ég fílaði enn betur, miklu betur en ég hélt, að búa í svona litlu plássi sem Ólafsfjörður er. Jú, víst hafði ég tenginguna hingað þar sem mamma er fædd og uppalin hér og maður hefur komið ófáar ferðirnar hingað (keyrandi, fljúgandi, hjólandi) en alltaf til styttri tíma. Það er svo allt öðruvísi að búa á minni stað, nálægðin við náttúruna og einstaklinginn er svo miklu meiri en “borgarlífið” hefur upp á að bjóða. Hér eru allir svo ótrúlega bóngóðir og vesen er orð sem hefur ekki náð að teygja sig yfir heiðarnar. Hér hef ég kynnst yndislegu fólki, bæði samstarfsfélögum og heimilisfólki á Hornbrekku. Þegar maður vinnur til lengri tíma með sama fólkinu, ólíkt spítalalífinu þar sem maður hittir nýtt fólk nánast daglega, er maður fljótur að leyfa sér að þykja vænt um fólkið og einstaklingarnir sem maður annast verða góðir vinir manns. Allar óskirnar sem ég fékk þegar ég kvaddi vini mína á Hornbrekku verða vel geymdar í hjarta mínu..og ef ég skyldi einhvern tímann endurnýja kynni mín við sjaldséða vinkonu, hana Pirripú, mun ég hugsa norður og kveðja hana í snarheitum því jákvæðar tilfinningar eru svo miklu sterkari en neikvæðar.

 

Já maður á það til að vera væminn! Þetta sumar er búið að vera í einu orði sagt tja ...hvað? Geggjað? Mergjað? Æðislegt!! Ég er svo ótrúlega glöð að hafa drifið mig norður og prófað þetta. Ég hef lært mikið í sumar og m.a. kynnst ömmu og afa í gegnum sögur af fólki sem þekkti þau persónulega. Það er ómetanlegt.

 

Tækifærin eru alls staðar, maður þarf bara að grípa þau og framkvæma. Ég hef nægan tíma til að verða ráðsett síðar (ef einhvern tímann!). Næsta sumar fer ég vonandi til Malaví að vinna, allavega hluta sumars. Annars væri ég til í að skoða það að fara aftur norður...eða kanna nýjar slóðir.

 

Áður en ég klára þessa færslu... ég er hrædd um að ég verði að henda inn allavega einni seinna (alveg ómögulegt að enda svona væmið!) langar mig að minnast á kærleiksbirni. Ég hitti einn í Bónus um daginn sem heitir Jón Óskar. Við spjölluðum í dágóða stund (ég fékk meira að segja knús í nammideildinni) og hann sagði mér frá heimasíðunni sinni 123.is/jonoskar. Ég kíkti á hana og það var engu logið um flottar myndir, strákurinn kann greinilega að munda myndavélina. Ef það væru fleiri einstaklingar svona ánægðir með lífið þá værum við ríkari. Við getum allavega reynt að læra af þeim.

 

Vinsamleg tilmæli –svona í lokin, þetta hangir uppi í vinnunni:

 

Ég veit -er ég dey- svo verði ég grátin

þar verður þú eflaust til taks.

En ætlir þú blómsveig að leggja á mig látinn

þá láttu mig fá hann strax.

 

Og mig eins og aðra sem afbragðsmenn deyja

í annála skrásetur þú

að hrós um mig ætlar þú sjálfsagt að segja

en- segðu það heldur nú.

 

Og vilji menn þökk mínum verðleikum sýna,

þá verður það vafalaust þú,

sem sjóð lætur stofna í minningu mína

en –mér kæmi hann betur nú.

 

Og mannúðarduluna þekki ég þína

Sem þenur þú dánum í hag

En ætlirðu að breiða yfir brestina mína

Þá breidd’ yfir þá í dag.

 

                        Höf óþ

            (Búin að láta afa í té textann!)

 

Takk í bili..    


Hornstrandir og Markús Óli

Ég var með öllu róleg í síðustu viku þrátt fyrir að vera á leið á Hornstrandir á fimmtudeginum og skorti verulega tíma til að undirbúa þá ferð. Ég hefði kannski lagt mig meira fram við undirbúninginn ef Elín hefði ekki virkað svona svaðalega skipulögð með allt. Það voru sko ófáar hringingar sem ég fékk frá vinkonu minni sunnan heiða um allt frá þurrfóðri til prímusa og kolla. Yfirleitt hringdi hún þegar ég var að hlaupa í vinnuna eða að sofna eftir strembna vakt. Ég hafði náttúrulega engan útbúnað hérna fyrir norðan og voru foreldrar mínir svona líka liðlegir að það var bara pakkað í bakpoka fyrir mig og sent norður með móðursys..með skilaboðum um að í pokanum væri tjald. Ég gat því fullvissað skipulagið fyrir sunnan að ég væri búin að redda "göngutjaldi" ..það var létt sbr. göngutjald. Á einhverjum hlaupunum með Elínu í símtækinu spyrjandi í þaula um tjaldið fullvissaði ég hana um að vanir sem foreldrarnir væru treysti ég þeim fullkomlega fyrir pottþéttum útbúnaði. Elín lét þar við sitja. Á fimmtudeginum upp úr 14 fór ég í það að reyna að redda mér fari inn á Akureyri en þaðan átti ég far vestur með öðrum göngugarpi. Dísa litla var með mér í vinnunni og saup heldur betur hveljurnar þegar hún fattaði að ég væri ekki búin að redda mér fari. Ég sagði henni, mjög yfirveguð, að ef ég gæti ekki reddað fari myndi ég bara hjóla inn eftir (65 km en farið ætlaði að leggja í hann vestur upp úr 17..ég var ekki að fullu búin að pakka og átti eftir að versla -og var að vinna til 15:30) Dísin sannfærði mig um hve ágæt móðir hún ætti eftir að verða þegar hún efaðist um vitsmuni mína og furðaði sig á því hvar skipulagshæfni mín lægi. Ég brosti út í annað og vissi þarna að hún myndi redda mér fari -sem hún og gerði. Hún reddaði mér líka betri bakpoka og svefnpoka. Það fór því svo að ég fékk far með foreldrum vinkonu litlu frænku minnarWink Ég var svona líka félagslynd í bílnum að ég hraut hálfa leið þar til þau hentu mér út í Bónus þar sem ég verslaði fyrir ferðina. Ég hafði tekið að mér að redda morgunverðinum þ.e.a.s. kaupa hafra fyrir mig og Línuna. Ég keypti 1,5 kg af svoleiðis sem fór vel í "forþungan" pokann. Ferðafélaginn tók mig svo upp í og við keyrðum sem leið lá vestur. Ferðin gekk að mestu áfallalaust fyrir sig. Við tókum upp puttaling og sprengdum eitt dekk úti í r-gati. Reddaðist þó. Þegar við renndum í hlað við Dalbæ var klukkan að ganga eitt að nóttu. Það var heldur farið að kólna og flestir búnir að tjalda. Það er að segja allir nema Elín sem beið mín og kannski mest tjaldsins sem ég hafði meðferðis. Hún stakk fljótlega upp á því að tjalda og ég dró upp tjaldið frá mö og pa en sá þá fyrst hversu fagurblátt tjaldið var og merkt stórum stöfum símafyrirtæki. Elín fékk hláturskast og get ég ekki neitað því að hafa hlegið þegar ég fattaði hvers kyns var. Reyndar skrapp: Týpískt þú Lilja! út úr Línunni sem ég er enn að velta fyrir mér hvaða merkingu ég eigi að leggja í. Ojæja, þegar Elín var búin að hlæja, ögn móðursýkislega, kvað við annan tón: Lilja, þetta er mjög alvarlegt mál!

L: Jaaá (þessu svari fylgdi ekki mjög niðurbældur hlátur og meira svona obbosí hvaða skandal er ég að gera núna?!)

Siggi skálavörður kom út þegar við höfðum fest niður tjaldið á þessum 4 tjaldhælum sem fylgdu því og veltum því fyrir okkur hvernig við ættum að koma okkur fyrir í þessu en þarna hafði Elín strax komið auga á skort á fortjaldi. Siggi tók í sama streng og Elín en ég hékk í einhverjum allt öðrum streng þar sem mér fannst aðstæður alveg sjúklega fyndnar en var á sama tíma meðvituð um það að þetta var ekki staðurinn til að hlæja. Elín tautaði í sífellu að það mætti bara ekki rigna (já hún má eiga það stelpan að hún reyndi að vera jákvæð!) Siggi sagðist sosum ekki hafa miklar áhyggjur af rigningu ef við strekktum vel á tjaldinu. Það væri öllu verra ef það kæmi einhver vindur á okkur því þá myndum við klárlega fjúka. Ég kyngdi stórt og sagði svo að við myndum náttúrulega þyngja tjaldið þegar við lægjum inni í því en sú athugasemd féll í grýttan jarðveg. Þarna fóru fram miklar pælingar um tjaldið og var Siggi helst kominn á það að hringja í Bjössa bónda og vita hvort hann gæti reddað tjaldi. Í því kom fararstýran á svæðið (björgunarsveitarmaður með meiru og vön útilegum) sem leit á tjaldið með vanþóknun áður en hún sneri sér að mér og spurði hvort ég væri í dún- eða fíberpoka. Ég varð eitt spurningamerki í framan og sagðist vera með svefnpoka. Hún bað um að sjá hann svo ég rolaðist í pokann og týndi hverja spjörina á eftir annarri upp úr bakpokanum áður en ég dró upp svefnpokann. "Fíber!" lýsti hún yfir og ég var ekki frá því að það væri gott mál. Þegar hún spurði hvort ég væri með góða dýnu laug ég því blákalt að hún væri úrvals. Sannleikurinn var hins vegar sá að ég á enga dýnu og mátti ekki vera að því að kaupa hana (bíllinn án rafgeymis svo það var ekki hlaupið að því að skreppa í búðir). Svo sá ég ekki nokkra þörf á því að vera með dýnu þegar maður er að tjalda í einhverjum grasbalanum í rómantískri náttúru! Já svona er maður einfaldur.. Þá hófust pælingar um að hola okkur Línunni í önnur tjöld. Ég gerði mér vel grein fyrir því að ég hafði beðið álitshnekki innan hópsins sem ég þekkti ekkert til (utan Elínu og Sigga Palla). Alveg frábært svona..first impression! Mér leist því ekkert brjálæðislega vel á að fara að ryðjast inn í tjald hjá einhverjum öðrum og var farin að sjá alvarleika málsins (ekki seinna vænna). Áhyggjuhrukkurnar dýpkuðu bara á enninu hjá Sigga og Elín var ekki hress að sjá. Þá var eins og kviknaði á einhverri peru hjá Sigga Palla sem hafði staðið yfir okkur þarna og upp úr honum dettur að hann sé að öllum líkindum með auka tjald í skottinu. Ég var bara hress að heyra það en það var sem Elín hefði himinn höndum tekið, svo fegin var hún greyið. Ég lagði mig náttúrulega alla fram til að hækka aftur í áliti hjá Línu minni og bauðst til að bera tjaldið í ferðinniCool Daginn eftir þegar Elín var komin á fullt að búa til hafragraut fattaði ég að engan hafði ég diskinn með. Ég spurði Elínu hvort hún væri með disk en vissi svarið um leið og ég hafði spurt. Hún hváði við spurningunni en ég sagðist bara myndu éta upp úr pottinum þegar hún væri búin að fá nóg. Þá spurði hún mig hvort ég væri ekki örugglega með hnífapör. Trú hennar á mér var sko núll komma núll eftir ævintýri næturinnar svo ég jáaði því en hljóp svo til Sigga til að athuga með plasthnífapör. Ég fékk lánaða þessa fínu skeið og át grautinn sigri hrósandi með "silfur" skeið í munni. Það fór svo þannig að ég tók með mér skyrdós í gönguna sem ég notaði sem disk. Bráðsniðugt alveg, vó ekki neitt! -sem er nokkuð sem göngufólk þarf að huga að þegar það raðar í bakpoka sína(!)

 

Gangan gekk svo bara rosaleg vel. Ferðin var alveg dúndur og komu upp mörg skondin augnablik sem verða ekki endurtekin nema á bókaformi (matseld, veiði, dýralíf..). Við gengum út á Horn og gistum í Hornvík fyrstu nóttina, fórum svo í Kjaransvík, þaðan á Hesteyri og enduðum svo í bústað í Aðalvík. Þetta var í einu orði sagt fullkomin ferð. Krakkarnir sem stóðu að þessu, Hrönn og Eysteinn, eiga mikið hrós skilið fyrir vinnuna sem þau lögðu í þetta. Það er eins gott að hafa pottþétt fólk í skipulaginuPolice Það var ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði að ganga um Verslunarmannahelgina sem ég vona heitt og innilega að muni standast. Þetta var bara einum of geggjuð ferð og skemmtilegur hópur.

Reyndar held ég...svo ég haldi áfram að tala um ágæti vinkonu minnar..að Elín væri frábær í að skipuleggja svona ferð.. Mín var búin að mæla pasta í poka fyrir kvöldmat (x2) og horfði svo að segja hljóðalaust fram hjá 1,5 kg hafrapokanum mínum. Hún tók það meira að segja gott og gilt þegar ég þóttist vera með plan B. Ef ég yrði uppiskroppa með mat ætti ég allavega hafra og rúsínur=hafragrautur! Þá voru allavega tvö skipti sem ég hefði gefið mikið fyrir að eiga myndir af svipbrigðum Elínar. Fyrra skiptið var þegar við komum inn í tjald að kvöldi dags og ég setti mig í stellingar og sagði: "Jæja Elín, nú tökum við kvið" og tók nokkrar .. ég held að Elín hefði alveg íhugað að láta loka mig inni ef það hefði staðið til boðaW00t Hitt skiptið var á síðasta göngudegi þegar ég dró upp Carobella sem er einskonar lífrænn, sykurlaus súkkulaðilíkir. Ég bauð Elínu að smakka og sagði svipur hennar meira en þúsund orð. Það er skemmst frá því að segja að henni fannst ekki mikið til "súkkulaðisins" míns komaSick Þessi ferð hefði ekki verið svona ótrúlega skemmtileg ef hún Elín hefði ekki verið með mér þarna. Takk fyrir frábæra ferð Elín,) Þú ert algjört gullHeart

 

Þegar við lögðum svo í hann heim hafði ég ekki reddað mér fari frá Akureyri til St Olafs og uppástóð að ég myndi bara húkka mér far. Ég kvaddi stelpurnar við afleggjarann klædd bláum regnjakka með risastóran bakpoka,  gönguskórnir hengu á annarri öxlinni og myndavélin um hálsinn: TÚRISTI! Það er skemmst frá því að segja að fólk leit flóttalega undan þegar það keyrði fram hjá mér á misstórum hálf tómum bílum. Ég var orðin frekar örvæntingarfull þegar ég heyrði í Dísu sem ætlaði að krampa úr hlátri þegar hún heyrði hvissið í bílum aka fram hjá mér. Það fór þó svo að hjá mér stoppaði svakalegur sportbíll (Galant held ég..). Þetta var blár bíll á gylltum koppum. Aftan á honum var alltof stór spoiler og framan á bílnum var svona unit til að kæla vélina. Þetta voru þá guttar frá Dalvík sem ætluðu að tala ensku við migLoL Kauðinn fór ekki mikið undir 130km hraðann og við reyndum að halda uppi samræðum á leiðinni. Gekk ekki vel. Vélarhljóðið var svo svakalegt að ég sagði lítið annað en: Ha? Hvað sagðirðu? Hmmm..? -Amma! Við gáfumst fljótlega upp á tali en þegar Sarah McLachlan fór að hljóma á fullum styrk í bílnum; sem kollvarpaði bara öllum hugmyndum mínum um gutta á svona bílum þurfti ég að bíta fast í tunguna á mér til að garga ekki úr hlátri. Eins gelgjulegt og það hljómar: Ó MÆ GOD! ...en skemmtilegur endir á frábæru fríi.

 

Á heimleiðinni hringdi Jóna Björk frænka í mig á háa C-inu til að óska mér til hamingju. Ég var ekki lengi að kveikja enda búin að hringja heim á öllum símasvæðablettum til að athuga með nýjasta fjölskyldumeðliminn. Það kom í hlut Jónu að tilkynna mér um drenginn og mikið skelfing var það gaman. Fékk alveg sjúklegt náttúrulegt high! Markús Óli fæddist 5.ágúst og gekk fæðingin vel. Helsta spurning sem brann á flestum var hvort þau náðu niður á spítala fyrir þessa fæðingu og svarið við þeirri spurningu er: Já! Mútta var ekki nálæg til að taka á móti í þetta sinn, hún var í sundi með bróana. Sem sjálfskipaðri uppáhaldsfrænku skaust ég í hoppi suður 6. og aftur norður daginn eftir. Þetta var semsagt ÖR-stopp en alveg STÓR-skemmtilegt. Hann er alveg yndislegur hann Markús Óli. Hlakka bara til að fá að passa guttana.

 

gleði gleði gleði gleði gleði gleði gleði gleði gleði gleði ást gleði gleði gleði


Á hlaupum

Titill þessa bloggs er kominn af tvennu.
Byrjum á smá rapporti um prinsinn. Eins og áður hefur komið fram er prinsinn orðinn nokkuð slæmur til heilsunnar. Við erum að tala um 11 ára gamlan dreng sem hefur (erfitt að segja það) e.t.v. ekki búið við nógu gott atlæti síðustu..hvað 7 árin? Það hefur þó lagast í seinni tíð og er hann nú umvafinn ást og hlýju á degi hverjum...! Eftir síðustu ferð okkar norður var mér bent á að eitthvað hefði komið drengstaulanum úr jafnvægi og bæri hann þess skýr merki. Ég hafði greinilega gleymt mér í eigin þönkum og ekki veitt honum næga athygli meðan brúðkaupsundirbúningur stóð sem hæst. Tiltölulega nýr fótabúnaður prinsins hafði spænst upp að hálfu og stóð myndarlegt víravirki út úr báðum framdekkjunum (nákvæmlega, hver vissi að það væru vírar inni í dekkjunum?! Ekki ég!) Nú hef ég oft gert grín að sjálfri mér fyrir það hversu hriiiikalega ósjálfbjarga ég er þegar kemur að heilsu prinsins sem skýrist bara af góðum föður: Já pabbi?! Lilja hérna! Ég var að bakka út úr stæði og gírstöngin bara datt úr sambandi! ...já nei, ég var búin að bakka úr stæðinu þegar stöngin..ööö...hætti að virka. Ýta honum aftur inn í stæðið? Nei, ég held ég geti það ekki, ég er í kjól og á hælum! (Sönn saga frá afmælinu mínu '07) Núna er ég á Ólafsfirði og ætlaði því að reyna að hlífa föður mínum sem er í Reykjavík. Svo ég skrapp til móðurbróður míns sem er bifvélavirki en hann var ekki í bænum. Þá fór ég til annars móðurbróa sem var að rúnta einhvers staðar á íbúðinni sinni (húsbíl). Þegar þarna var komið við sögu var nokkuð farið að síga úr dekkinu svo ég bætti í það og hlustaði svo á róandi hvisss hljóð sem sannaði gat á dekkjaræflinum. Tók ég þá upp símtækið og hringdi í pabba. Það var ekki að spyrja að honum, örfáum mínútum síðar var hann búinn að athuga status á báðum móðurbróunum og hringja á bæjarverkstæðið til að athuga með dekk en fór þó svo að þau voru keypt í bænum og send norður með Flytjanda! Ég fór svo röltandi til að sækja dekkin eftir vinnu en komst þá að því að skrifstofan var bara opin til 15 svo Dísa greyið mátti gera aðra tilraun daginn eftir en þá höfðu þau þegar verið sótt af móðurbró. Svona eru allir hjálplegir fyrir norðan! Móðurbróarnir unnu svo saman að því að skipta um dekk og "balancera" bílinn. Líða svo ÖRfáir dagar og ég ætla að renna inn á Akureyri að hitta Helgu. Ég var að skutla Sossu frænku inn á Dalvík (á hennar bíl) og hjólaði svo á fullu heim að ná í prinsinn til að skutlast þetta. Fór þá ekki betur en svo að prinsinn startaði ekki. Nú á hann það "stundum" til að drepa á sér en alltaf rennur hann aftur í gang. Það er skemmst frá því að segja að ég gerði ca 10 tilraunir til að starta honum áður en ég hringdi í Sossu og fékk að fara á Teriosinum hennar! Viffi tók prinsinn og hlóð geyminn enda þurfti ég að komast á honum í Ásbyrgi í gær. Í gærmorgun kom Dísa til mín af næturvaktinni með blöð til mín sem ég hafði prentað út daginn áður og spurði áður en hún ók á brott hvort ég kæmi honum örugglega í gang. Ég hélt það nú! Við kvöddumst og hún hélt sína leið rétt eins og ég ætlaði að gera en aftur vildi kauði ekki í gang! Ég hringdi því í Dísu og bað hana að ýta mér út úr stæðinu svo ég gæti látið hann renna í gang. Dísu skorti kraftana svo ég ýtti henni úr stæðinu í brekkuna en þá stökk hún úr bílnum og ég inn. Dísa hljóp svo hlæjandi með mér niðureftir á meðan ég reyndi eftir öllum ráðum að koma bílnum í gang. Gekk ekki! Eftir stóð Dísa í brekkunni í mesta hláturskasti sem ég hef, hingað til, orðið vitni af hjá henni!

Ég ók því í Ásbyrgi á töluvert flottari bíl (Nissan Almera með bakkmyndavél nb!). Mér leið eins og algerri skutlu en á sama tíma dauðhrædd um að klessa bílinn eða velta honum á leiðinni. ((Þessi fóbía mín verður rakin til þess þegar móðir Dísu ætlaði að lána mér jeppann sinn til að skreppa upp í Skipholt þegar ég var nýkomin með bílpróf. Pabba leist nú ekki á blikuna og skutlaði mér. Þá hafði hann orð á því að ég gæti velt bílnum á leiðinni (frá Dísu upp í Skipholt eru á að giska 700 metrar) og að maður ætti aldrei að fá neitt lánað sem maður er ekki borgunarmaður fyrir. Þetta mottó hefur fylgt mér og er gott..þó fóbían mætti vera minni!)) Ég fór semsagt niður í Ásbyrgi til að taka þátt í Jökulsárhlaupinu. Ég hljóp frá Hólmatungum niður í Ásbyrgi sem eru 21,2 km. Ég fór þetta nú mest til að athuga hvort ég gæti þetta og af forvitni enda var þetta í fyrsta skipti sem ég hef komið þangað. Það voru rútur sem óku okkur frá gestastofunni á upphafsreit og er gaman að segja frá því að það var svona líka FJALLmyndarlegur kauði sem ylaði sætið við hliðina á mér. Það var heitt í rútunni og það sveif svona líka á mig..vissi ekki fyrr en ég rankaði við mér hálf liggjandi yfir hans sæti. Hann hafði lagt hönd undir kinn en olnbogarnir hvíldu á hnjánum á honum...þannig að ég lægi ekki ofan á honum. Bara heppni að ég var ekki farin að slefa í svefndrunganum!
Það voru myndir inni á hlaup.is frá hlaupinu síðan í fyrra en þær eru farnar út, kannski koma nýjar inn -þið verðið að sjá myndir af leiðinni! Landslagið er svo stórbrotið og flott að ég hef sjaldan séð annað eins. Það voru líka 24 gráður og hægur andvari í hlaupinu sem spillti nú ekki fyrir. Leiðin var fjölbreytt og gat ég ekki annað en hlegið þegar mér voru réttir tveir laxapokar sem ég klæddi mig í áður en ég óð yfir á! Það eina sem hefði mátt vera betra var að vatnið á vatnsstöðvunum hefði mátt vera kalt. Ég get einhverra hluta vegna ekki drukkið volgt vatn, sama hversu mikið liggur við en í gær var ekki vanþörf á að vökva sig í hitanum. Þegar ég kom á síðustu vatnsstöðina (rúmur km eftir af hlaupinu) spurði stelpa mig hvort ég vildi vatn eða kók! Ég hefði getað kysst hana! Kók get ég frekar drukkið hlandvolgt og það gerði alveg helling fyrir mig, )
Eftir hlaupið skrapp ég í sund en svo var grillað ofan í mannskapinn á eftir. Í sundinu var vatnsskorturinn farinn að segja til sín og ætlaði heldur betur að líða yfir mína í frímerkjasturtuklefanum þar sem alltof margar konur stóðu og biðu eftir vatninu..ég húkti því bara með hausinn niður í gólfi og rassinn út í loft við að reyna koma blóðinu upp! Frekar fyndið en ég var leeengi að losna við þessa tilfinningu. Það bjargaði mér svo að Kata og Óskar voru í hlaupinu líka svo ég gat borðað grillmatinn með þeim. Reyndar var ég svo heppin að fá óvart tvo grillmiða svo ég gaf einhverjum túrista annan miðann sem blessaði mig í bak og fyrir: ) Þegar ég loksins hafði mig af stað (heim aftur) renndi ég við hjá ömmusystur minni, Fríðu á Fjalli, sem ég græddi með Íslendingabók. Já maður getur verið þakklátur fyrir þá skruddu,)

Vá hvað ég er búin að tala frá mér allt vit! Ég á 5 daga frí yfir Verslunarmannahelgina sem ég ætla að eyða töltandi á Hornsströndum og svo vinn ég 15 vaktir streit og þá er ég komin í 4 daga frí en þá hefst skólinn. Get ekki beðið! Nú svo er aldrei að vita nema maður reyni að skjótast aðeins heim, þó ekki væri nema í nokkra klukkutíma þegar nýjasti fjölskyldumeðlimurinn lætur sjá sig: )

Gleði gleði!


Óður til afmælisbarns

Í dag við fögnum degi þeim

sem okkur veitir gleði.

Þá fæddist stúlka í þennan heim

Þóra, með glöðu geðiW00t

 

Af slitnum barnsskóm Þóru

ég ekkert veit og lítið.

Tjái mig bara um kisulóru

en það er...ekkert skrítiðTounge

 

Ég hitt' hana er 'ún var sextán ára,

pæja, skvís og handboltafrík.

Fallinn er fjöldi gleðitára,

hún Þóra er engri lík!

 

Í Kvennó tók hún út mikinn þroska,

kyssti einn, kannske tvo froska

en fann þá dreng er Andri er nefndur

sem af himni ofan sendurInLove

 

Svo er úr klaufum átti að sletta

var engum blöðum um það að fletta

að Þóran var bomm,

romm..tomm..tomm..Tomm!

 

Og þegar fram yfir settan dag fór

ætlaði Þóran að brjálast.

Í hörðum hríðum sárt við sór

að nú væri hún alveg að sálastFrown

 

En eftir pústra og heilmikið puð

heilsaði "lítill" drengur.

Honum fylgir heilmikið stuð

og hláturinn varir lengurGrin

 

Drengurinn heitir Jóhannes Berg

einkabarn foreldra sinna.

Nú bíðum við spennt í gríð og erg(!)

eftir fréttum af öðru og minnaHalo

 

Gæfu og gleði ég óska þér

hamingju lífsleið á enda.

Sæta strauma úr Heart mér

ætla ég þér að senda!

 

Ha ha ha ha ha....vona að þú eigir frábæran dag í dag sem og alla aðra daga Þóra.

Til lukku með daginn!


4th of July

Ég skulda víst brullaupsblogg.

 

Ég reif mig upp fyrir allar aldir 3. júlí sl og lagði af stað suður. Ætlunin var að hitta liðið að Hlöðum í Hvalfirði kl 10 til að græja staðinn. Með í för var Dísa litla. Við vorum ekki komnar langt inn á Lágheiðina þegar ferðafélaginn hafði orð á því að við hefðum nú getað farið á hennar bíl (töluvert nýrri og flottari bíll..með bakk myndavél nb!) Ég sagðist nú ekki telja þörf á því, þetta yrði ævintýraför á prinsinum. Þá skellti pían upp úr og svo ískraði í henni: Svo ferðu Lágheiðina! Eins og ég væri á leiðinni yfir Kjöl...!

Annars stytti ferðafélaginn ekki stundirnar á leiðinni þar sem hroturnar heyrðust langar leiðir og þegar ég hækkaði í viðtækinu rumskaði hún og gerði athugasemd við það að sama lagið væri farið að óma oftar en einu sinni: Sorry! Þeir sem sofa hafa ekki atkvæðisrétt! Nei, hún er indæl þessi elskaTounge

Ojæja.. eitthvað var liðið fyrir sunnan svifaseinna en við svo ég og ferðafélaginn fengum að dúsa á Borgarnesi til að drepa tímann (eins gott að við lögðum í hann kl 6!) og komumst að því að þar er ekki margt að sjá. Allavega fór það framhjá okkur.

Loksins hittumst við svo að Hlöðum og var mér þá orðið ljóst að ég þyrfti að redda nýjum í uppvartið þar sem Helgan var komin með S-kokka. Ég hringdi út um allt en eins og áður hefur komið fram voru allir á leið í útilegu eða á sýklalyfjum með óspennandi sjúkdóma. Mér datt ekki í hug að segja verðandi brúður frá vandræðum mínum og því enduðu þær þrjár í vartinu. Pabbi renndi svo í hlað að Hlöðum og brosti til mín óþekktu brosi: Var kominn með frekjuskarð. Tönnin brotnaði upp í honum og var límd í skyndiviðgerð enda allt upppantað hjá tannsa. Fljótlega fékk ég svo veður af því að Gurrý kæmi ekki uppeftir þar sem henni hefði verið tilkynnt í mæðraskoðun að leghálsinn væri orðinn heldur stuttur. Með hennar sögu kom svosum ekki á óvart að kollegi móður minnar hafi hringt í hana og sagt henni að kippa með sér fæðingarbakka til öryggis. Dagurinn leið svo í almennri símsvörun þar sem hringt var í 'veislustjórann' vegna alls frá spileríi til skemmtiatriða. Sem betur fer stóð ferðafélaginn sig sérlega vel og braut saman borðskraut eins og henni væri borgað fyrir það. Salurinn tók fljótlega á sig mynd (þegar degi var tekið að halla) og við brunuðum í bæinn. Ég hentist í önnur föt og skaust í Kringluna til að skanna inn mynd sem átti að vera í gestabókinni sem ég var að útbúa. Kom þá í ljós að Hans Petersen í Kringlunni býr ekki yfir neinum skannara! Hver hefði trúað því?! Sem betur fer hitti ég Ernu og Halldór sem redduðu málunum. Hálsbólgan sem byrjaði deginum áður var farin að segja til sín og eftir að hafa skutlað alþjóðlegum hópi brúðkaupsgesta um bæinn skreið ég í ból heima hjá Elínu Birnu. Planið var svo að fara út að hlaupa um morguninn en þar sem mér fannst hálsbólgan ætla út úr eyrunum á mér lét ég mér nægja að fara í sund með múttu.

Ég fór svo til Davíðs og ætlaði aldeilis að láta líða úr mér í klippingunni. Það fór nú ekki svo. Síminn hélt áfram að hringja og ég vakti Jónu Björk frænku til að biðja hana að kippa með sér ungbarnagalla ef Gurrý færi að fæða á kirkjugólfinu. Eftir klippinguna fór ég svo upp á fæðingardeild og fékk steril fæðingaáhöld. Frekar spaugilegt fannst mér... Þegar heim var komið mátaði ég svo kjólinn til að sjá hvort allt væri ekki alveg örugglega með felldu -OG boy Ó BOJ! Hvað mín var flott í honum. Ég spásseraði aðeins um heima í kjólnum á silfurskóm svona til að fá "fílið" fyrir honum. Ég var samt ekki á því að keyra í honum upp í fjörð og fór því úr honum og skellti honum út í bíl. Þegar upp á Hlaðir var komið og klukkan rétt að detta í 17 tróð ég mér inn í geymslu og smellti mér í kjólinn. Mútta kom til að renna upp og rennilásinn svona pikkfestist í fóðrinu. Ekkert lítið sko! Lásinn komst hvorki upp né niður. Það fór því svo að ég bað föður minn vinsamlegast að rífa lásinn úr, kjóllinn yrði ekki brúkaður svona renndur til hálfs. Ég galaði því á Dísu að rétta mér annan kjól sem hún, ca 2 mínútum áður, hafði hlegið að mér að hafa meðferðis. Já sá hlær best sem síðast hlær..! Hinn kjóllinn var þessi íðilfagri PELLÍETTU kjóll sá allra stysti sem finnst í mínum fataskáp. Ég hafði aldrei farið í hann og mundi því ekki eftir síddinni. Hún rifjaðist fljótt upp fyrir mér þar sem ég horfði niður á leggina og bölvaði í hljóði að hafa "bara" rakað fótleggi upp að hnjám..upp í nára hefði verið nær í lagi. En þegar svona gerist og maður á að heita veislustjóri=reddari og er í þann mund að fara klæða brúður í brúðarkjól er ekki rúm fyrir annars réttlætanlegt móðursýkiskast. Ég reyndi því að hlæja þegar Odda sagði mér að taka Donnu Summer. Ég var semsagt eins og diskóqueen! Ég hringdi í uppvartarana og bað þá vinsamlegast að kaupa fyrir mig hosur á leiðinni uppeftir. Ég aðstoðaði Örnu í kjólinn og keyrði brúðarbílinn niður að kirkju. Þegar þangað var komið læsti ég bílnum samviskusamlega og rétti múttu töskuna mína. Ég leiddi svo Álfheiði og hélt á Viktoríu inn kirkjugólfið á eftir brúðhjónunum..óþægilega vör við smæð kjólsins míns. Þegar ég settist þakkaði ég Guði fyrir það að Viktoría var í miklum blúndukjól því ekki síkkaði kjóllinn minn við það að setjast.. OG svo ég tali meira um kjólinn: Hafi ég verið vör um kjólinn þegar þarna er komið við sögu var ég eitthvað allt annað þegar ég trillaði upp altarið og las um kærleikann fyrir viðstadda: Ó AÐ ÉG VÆRI Í EINHVERJU ALLT ALLT ÖÐRU! En ég held samt að enginn hafi pælt eins mikið í kjólnum og égWoundering

Að athöfn lokinni mynduðu gestir heiðursvörð um brúðhjónin og náði halarófan frá kirkju niður að bíl. Þar sem ég henti áhyggjulaus grasfræjunum yfir þau mundi ég allt í einu eftir því að bíllinn var læstur og ég var með lykilinn í töskunni minni ...og taskan mín var einhvers staðar inni í kirkju. Ég tók því sprettinn (hælum og öllu) aftur inn í kirkju (það er til myndasería af þessu) og reif allt í offorsi upp úr skjóðunni en fann ekki lykilinn. Hann hafði ég sett í sér hólf svo ég yrði fljót að finna hann eftir athöfnina. Þegar ég var farin að slefa svita fann ég lykilinn og hentist niður slóðann aftur (sikk sakkaði milli gesta í hælum og kjól) með lykilinn á lofti ýtandi í móðursýki á 'open' -SHIT MAR!

Þá voru nú allar krísur liðnar undir lok held ég..svona frá mínum bæjardyrum séð. Maturinn var að sögn alveg frábær og skemmtiatriðin flott. Fæðingasettið kom sér vel þegar tæknin var að stríða okkur þar sem ég gat fullvissað gesti um að allt væri dekkað frá saumsprettum (var með saumasett með mér) til fæðingaCool  Ég hafði svo keypt mér gítargleraugu til að setja upp þegar ég kynnti gæsavideoið enda vildi ég ekki að gestir sæju mig grenja en það fór sem fór. Ég stundi því upp þegar tilfinningarnar báru mig ofurliði: Ég ætla bara að sýna vídjóið!

 

Uppvartarar og kokkur stóðu sig með stakri prýði og dagurinn var frábær í alla staði.

 

...er samt ekki spennt að gera þetta sjálf á næstunni. Meira stressið maður!


Já fínt...

Mér sýnist að hér á eftir muni koma blogg sem mér leiðist sjálfri að lesa en ætlar sér engu að síður á blað.
Arna er að fara gifta sig á föstudaginn. Nú erum við nánar systurnar og góðar vinkonur, reyndar svo nánar að mig grunar að ég sé farin að taka af henni þau álagseinkenni sem verðandi brúður gæti átt við að stríða. Ég var með nettan fiðring í morgun sem ég tengdi bara tilhlökkun og spenningi. Þegar ég settist niður á bókakaffi með tölvuna og latte við höndina tók ég eftir því að ég hafði ekki skrifað nema tvær línur þegar bollinn var tómur. Ég drakk ekki úr bollanum, ég þambaði. Ég hélt áfram að vinna að skipulaginu en fannst eitthvað vanta svo ég keypti mér annan. Sama sagan.. Ég var rétt búin að rita örfá orð þegar búið var úr bollanum. Mér leið samt ágætlega ennþá en þurfti fljótlega á klóið enda hleypur kaffið í gegn. Ég sá fram á lengri tíma á kaffihúsinu og var því ekki á því að pakka saman dótinu fyrir ferð á klóið. Ég leit í kringum mig og á næsta borði sátu góðlátleg eldri hjón. Ég hugsaði með mér að meðan þau sætu þarna myndi enginn ræna dótinu mínu. Ég hljóp því í hinn endann á búðinni og rétt glataði klóinu til gellu sem var aðeins fljótari en ég inn á náðina. Ég gat ekki leynt vonbrigðum mínum en reyndi að láta ekki á neinu bera enda hugsaði ég með mér að hún færi varla að gera meira en að kasta af sér vatni sem tæki ekki langan tíma og gamla fólkið myndi vakta dótið mitt á meðan. Ég stóð því eins og gamall varðhundur fyrir framan klósettdyrnar og beið.. og beið! Mér fannst mínútur silast og hljóp því á kaffið til að ganga úr skugga um að tölvan væri á sínum stað og tók svo strikið aftur á klóið og beið. Tíminn hélt áfram að líða og á mig fóru að rennna tvær grímur. Varla var gellan að kúka? Ég hljóp annan hring til að athuga með vinkonu mína en gamla fólkið sat sem kyrrast svo ég tók strikið aftur á klóið. Hjartað var farið að slá örar og ég varð hrædd um að eitthvað hefði komið fyrir píuna. Ég reyndi því að hlusta pent hvort ég heyrði eitthvað og eftir skamma stund heyrði ég pappír rifinn og mikið af honum. Ég velti því fyrir mér hvort ég þyrfti virkilega svona mikið að fara á klóið (ég hafði farið á Glerártorgi skömmu áður) en sá fram á að ég gæti ekki sleppt því svo ég hélt áfram að bíða. Eftir drykklanga stund kom gellan út og lét á engu bera. Ég var alveg hissa á því hvað henni tókst að vera lengi á klóinu og skilaði sjálf kaffinu á met tíma. Ég hljóp svo á kaffihúsið í þriðja sinn, fegin að tölvan var á sínum stað. Þarna var hjartað samt farið að slá örar. Kaffið? Wedding jitters? Veitiggi.
Ég svaraði símanum sem þagnaði varla milli þess sem ég reyndi að ná í snyrtifræðing því ég ætlaði aldeilis að splæsa á mig fótsnyrtingu (enda með eindæma ljóta hlaupatær) en hún svaraði ekki. Ég sendi tölvupósta, skrifaði texta, fletti tölvupósti, nartaði í epli, hringdi, skoðaði úr á netinu, las aftur yfir texta og þýddi á ensku. Hjartað hélt áfram að berjast. Skrapp svo í bankann og þar var allt fullt. Fann tölvu og borgaði reikninga, fór í Bónus og keypti nammi fyrir Dísu litlu og lagði svo af stað aftur til Ólafsfjarðar. Mér var hætt að lítast á blikuna því púlsinn var upp úr öllu valdi. Ég var eiginlega orðin hrædd á leiðinni, ég keyrði heldur greitt og reyndi að syngja með útvarpinu til að róa mig -árangurinn var enginn. Ég hugsaði um það sem ég ætlaði að segja í brúðkaupinu en væmin og tilfinningasöm sem ég kann að vera fór ég að grenja við tilhugsunina! Ég vældi alla leiðina þegar ég hugsaði um það hversu þakklát ég er að eiga fjölskylduna mína og bjó til skálaræðu í huganum! Ég ákvað því að best væri bara að æfa þetta vel svo ég myndi gera þetta óvælandi í veislunni en allt kom fyrir ekki! Ég grenjaði bara og hjartað hélt áfram að hlaupa. Ég sá samt fyndnina í þessu og þakkaði bara fyrir það að vera ekki sjálf að fara gifta mig, hvernig yrði það? Grískur harmleikur!
Þegar ég kom í bæinn sá ég þetta gengi ekki svona og fór í ræktina að hlaupa til að ná hjartslættinum niður. Ég hljóp 8 km nokkuð rösklega og var kominn í hörkustuð þegar lagið Hot stuff (remix) var farið að óma í eyrunum á mér. Ég var orðin soldið þreytt en fékk þvílíka orkuskotið með laginu. Hausinn fór á fullt og ég tók hressilega undir með Donnu Summer (með tilþrifum og á mute að sjálfsögðu). Dísa og Svanborg, vinkonur úr vinnunni, skemmtu sér konunglega yfir aðförunum og ég var sem endurfædd á eftir, ) Ég skrapp svo til Dísu og við kíktum á videoið úr gæsapartíinu. Dísa er snillingur að klippa og þolinmóð til næsta bæjar. Það bara drýpur ekki af henni..!

Í augnablikinu er ég heima að ganga til brúðarskóna og krossa fingur yfir því að ég passi í blessaðan kjólræfilinn sem ég keypti fyrir stóra daginn... Væri laglegt ef ég næði svo ekki upp rennilásnum..Ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha ahhhhhh....F-U-C-K!

Að lokum er gaman að segja frá því að ég á enn eftir að horfa á Næturvaktina og hef því verið meira út úr en ég á að mér að vera (ok er nokkuð utanvelta yfir höfuð..en meira en venjulega þegar kemur að djóki úr Næturvaktinni). Í gær uppgötvaði ég Fínt-remixið. Mjög flott...miklu fyndnara að heyra það í alvörunni en að heyra aðra taka það án undirspils. Fyrirgefið! Ég er semsagt búin að ná "Já fínt, já sæll..." djókinu -Betra er seint en aldrei.

Halló..? Já, BLESSaður! Ólafur heiti ég hérna, umboðsmaður sólarinnar...
Gamall fyrir ykkur, nýr fyrir mér. Góður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband