Litla pían, Jónu og Bjarts lét loksins sjá sig öllum til mikillar gleði enda beðið með eftirvæntingu Hún er fyrsta barnið í fjölskyldunni það sem af er ári og bíðum við hinna tveggja með sömu óþreyju. Ég spái því að sú stutta muni hafa mikla tískuvitund enda hefur hún líf sitt á að koma fashionably late
Til hamingju Jóna og Bjartur og Jóel Jens Afi fær sömu kveðjur og allar frænkurnar sem biðu spenntar (og frændur!) og svo fær langafi líka knús. Til hamingju með nýjasta fjölskyldumeðliminn!
Nú er bara að hlakka til þeirrar stundar þegar rúsínan fær nafn. Mjallhvít Sara?!
Vinir og fjölskylda | 14.6.2008 | 06:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég varð himinlifandi um daginn þegar Valdi kom heim með símaskránna. Ég settist við eldhúsborðið með skrudduna fann fljótt myndasögu Hulla og hóf lesturinn. Á meðan voru þau feðgin að vesenast í tölvunni. Eftir um 10 mínútur (þegar Dísa var búin að rölta nokkrum sinnum fram hjá mér) sagði hún full samúðar: Af hverju flettirðu ekki númerinu bara upp í tölvunni?! Hélt semsagt að stafrófið vafðist svona svakalega fyrir frænku sinni sem henni virðist á tímum helst eiga heima á Árbæjarsafninu..svo forn! Ég hló bara að þessu og sagðist vera að lesa söguna og hélt svo áfram. Stuttu síðar kom Valdi og snaraði fram Apple lappanum, setti hann á borðið hjá mér og sagði mér blessaðri að fletta númerinu upp.
-Pabbi vakti mig um daginn (kl 22:30) og bað mig vinsamlegast að taka ekki upp á neinni vitleysu eins og að labba ein upp í Fossdal. Þeir töldu víst að það væru jafnvel fleiri ísbirnir á ferli (agaleg tilhugsun að hugsa til þess að litla dýrið væri étið af ísbirni). Um nóttina dreymdi mig flótta undan ísbjörnum og rifjaði þar upp ótta minn gagnvart dýrinu sem var helsti efniviður martraða minna þegar ég var 5 ára..áður en stríðshörmungar tóku við sem terror númer 1,2 og 3. Eftir það tók við hákarlafóbía sem ég hef ekki enn losað mig við að fullu..
-Mútta og far komu svo í heimsókn hingað um daginn og átu á sig gat í 4 partíum (þar af einu brúðkaupi) á tæpum tveimur sólarhringum (svona er lífið hér á St Olafs!) Þau voru að leggja í hann og mútta komin út í bíl þegar ég rek augun í gemsann hennar inni í eldhúsi. Ég rölti því út að kveðja pabba og beið átekta hvort frúin myndi taka eftir gemsaleysinu. ..átti svosum ekki von á því! En það gerði hún nú samt, hún stökk út úr bílnum og kallaði: Eru símarnir mínir inni? Þetta er náttúrulega gullin setning frá konu sem fyrir stuttu síðan fór að leggja það á sig að bera símann sinn á sér (þrátt fyrir að vera búin að eiga slíkt apparat í nokkurn tíma) og ekki nóg með það: Með tvo í takinu!
-Helena var svo fyrsti gesturinn minn hingað í Skipholt það sem af er sumri. Hún kíkti yfir helgina með Rebekku og Ísak Darra og áttum við frábæra daga saman. Skruppum m.a. inn á Siglufjörð á safnið hans Grétars, sötruðum kaffi og nörtuðum í biscotti í Eymundsson á Akureyri.. Svo var eldað þríréttað nánast hvern dag undir ötulli stjórn litlu frænku minnar sem töfraði m.a. fram hörpudiska í forrétt. ..Og við eigum að heita skyldar! Snillingur hún Rebekka og á ekki langt að sækja þessa hæfileika,) Við fórum líka í Kvennahlaupið og hljóp ég kílómeter (af 2) með Ísaki Darra sem hljóp eins og vindurinn. Hann kom mér svo aftur á óvart þegar hann söng lagið Lollipop með Mika í bílnum, textinn á hreinu! Yndisleg helgi, segi ekki annað.
Að lokum er gaman að segja frá því að ég skrapp inn á Akureyri með Dísu og vinkonu hennar um daginn. Ég veit ekki upp úr hverju þessi umræða spratt en ég sat á móti Dísu og var að slafra í mig núðlum þegar hún sagði mér að hún verslaði sér brækur í Seglagerðinni Ægi. Ég var alveg steinhissa á því að sú verslun verslaði með brækur og fannst það frekar fyndið. Ég ráðlagði Dísu samt að nefna það ekki á netinu ef hún væri fyrir spjallrásirnar. Það kæmi einhvern veginn ekki vel út að segjast versla brækur í Ægi.. Leið svo á kvöldið og við skruppum í bíó. Við vorum að bíða eftir að myndin hæfist þegar ég leiddi hugann að Dísunni að velja sér nærbuxur í Seglagerðinni og fór að hlæja.
Dísa: Hvað?!
L í kasti: Ógeðslega fyndið að þú skulir kaupa þér nærbuxur í Seglagerðinni!
Dísa: Ég var að djóka!
L pínu skömmustuleg: Ó...!
Já það er hægt að ljúga ÖLLU að mér. Sbr Jóna og slátrið sem ég þreytist aldrei á að minnast á.
...og í kvöld vil ég dúllast með þér. Dúllubossast með þér..
Vinir og fjölskylda | 11.6.2008 | 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég var að hjóla heim úr vinnunni um daginn þegar ég mætti móðurbróður mínum á göngu. Það var fínasta veður en ég undraðist það samt að hann skyldi ferðast um á tveimur jafnfljótum. Lenskan hér er að nota bílinn til að skreppa en ég geng eða hjóla (pabba til ama: Ertu ekkert búin að hreyfa bílinn?! ..Þú verður að hreyfa hann!) Frændi var heldur þungbúinn en ég komst fljótt að því hvað hrjáði karlangann. Bíllinn, Dodge-inn, er dáinn. Það er að segja sjálfskiptingin er farin. Karlinn sá því ekkert fyrir sér annað en að henda bílnum og finna sér nýjan en þar var einmitt hundurinn grafinn. Bílasölurnar eru inni á Akureyri og þangað eru ca 50 km. Ég sagði honum að það væri nú ekkert til að hafa áhyggjur því hann gæti bara fengið prinsinn til að skreppa þetta. Það birti heldur yfir frænda sem var alveg dolfallinn yfir því að ég skyldi bjóða honum ökutækið mitt (ekki eins og prinsinn sé Bugatti!). Ég sagði honum að prinsinn yrði fyrir utan hjá mér og lykillinn í honum svo hann gæti bara sótt hann í fyrramálið áður en hann færi inn eftir.
En þá kom babb í bátinn minn.
Prinsinn var ekkert ægilega þrifalegur. Pabbi sagði mér áður en ég lagði af stað að ég yrði að ryksuga hann, það væri bara ekki sjón að sjá inn í hann og ég á leiðinni norður! Ég var hins vegar fullviss um að Ólafsfirðingar myndu ekki liggja á rúðunni hjá mér til þess að skoða inn í hann og fór því á honum óryksuguðum norður. En nú ætlaði frændi að fá bílinn svo ekki gat ég boðið honum upp á þetta. Ég fór því með bílinn niður á Hótel og ryksugaði hann hátt og lágt. Eftir að hafa ryksugað hann fannst mér þetta svo hriiikalega gaman að ég ákvað að vaða í einn kústinn og þrífa hann bara almennilega í leiðinni. Ég var að klára að ryksuga þegar maður á jeppa keyrði að einum kústinum og út stökk reyndur bílakústaþrífari svo ég ryksugaði nokkur ímynduð korn úr bílnum og dólaði í von um að hann færi svo ég gæti byrjað. Það voru tvær ástæður fyrir þessu: Í fyrsta lagi: Prinsinn má ekki fá minnimáttarkennd við hliðina á nýjum Land Cruiser (jú jú, vanur en þessi var ókunnugur) og í öðru lagi: Ég er ekkert sérstaklega lagin við svona kústa..svo ekki verði meira sagt. Ég gafst samt fljótt upp á því að ryksuga eitthvað sem ekki var svo ég renndi upp við hliðina á jeppanum og byrjaði á að kústa motturnar. Það fór heldur brösuglega af stað enda mikill kraftur í kústinum, heldur meiri en ég bjóst við. Vatnið frussaðist því um allt og ég mátti hafa mig alla við að hafa einhverja stjórn á honum. Ég ætlaði bara að taka mér góðan tíma í motturnar þangað til kauði léti sig hverfa en það var ekkert hægt að dóla þetta var bara hörku puð! Það varð því fljótt ljóst að ef ég ætlaði að ná að fara yfir allan bílinn í stað þess að gefast upp á miðri leið yrði ég bara að gjöra svo vel að kyngja stoltinu og kústa hann með áhorfanda. Ég náði að flengja kústinum niður á húddið og hamaðist þar sem vitlaus væri (það leit allavega þannig út en í raun var það bara örvæntingarfull tilraun af minni hálfu að hafa stjórn á þessu kraftmikla tryllitæki sem bílaþvottakústar geta verið). Grasið ætlaði bara ekki af en ég hélt áfram og elti kústinn á aðra hlið bílsins. Ég reyndi að nudda kústinum vel á neðri hlutann enda var mest rykið þar. Það reyndist mér þó erfitt þar sem varla er hægt að segja að kústurinn hafi snert stálið (slíkur var vatsnstraumurinn). Þegar jeppadúddinn við hliðina á mér hvarf á bak við sinn bíl skolaði ég þakið enda náði sprænan úr mínum kústi ískyggilega nálægt bílnum hans (þó var kúststæði á milli okkar). Ég fór yfir rassinn á bílnum en þá kom slinkur á slönguna svo ég togaði en það dugar víst ekki til að leysa úr slíkri flækju. Á meðan byggðist upp meiri kraftur svo ég missti næstum takið á kústinum þegar vatnsflaumurinn braust af enn meira afli fram í kústinn. Ég hélt að sjálfsögðu kúlinu allan tímann með hárið klístrað blautt framan í andlitinu á mér og sólgleraugun á nefbroddinum. Þegar kom að hinni hlið bílsins féllust mér hendur enda töluvert meiri skítur þar en hinu meginn. Ég var að niðurlotum komin en dröslaðist þó í gegnum þetta og kláraði. Ég var ansi fegin þegar ég slökkti á krananum en þá flaug að mér sú hugmynd að kannski hefði bara verið betra að skrúfa ekki alveg frá svo bunan yrði aðeins slappari. Ég nennti samt engan veginn að standa í því þarna enda búin að þrífa bílinn. Ég skellti blautum mottum í bílinn og ók heim á leið. Þá gerði ég mér ferð inn í Skipholt að sækja tusku og þurrka skyrið innan úr bílnum síðan börnin mín átu þar heila skyrdós með puttunum... Ég var harla ánægð með afraksturinn en sú gleði hrundi eins og spilaborg þegar bíllinn fór að þorna.
Það eru helgidagar út um allt.
Ég ætla að kaupa mér klippikort á bílaþvottastöð. Ég er bara engin manneskja í bílaþvott og játa mig sigraða. Ég gefst upp!
Vinir og fjölskylda | 4.6.2008 | 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ég fór út að hlaupa um daginn sem er svosum ekki merkilegt fyrir neinar sakir svona yfirleitt..þangað til núna. Þegar ég hleyp sveitahringinn beygi ég niður hjá bæ sem heitir Kálfsá og hoppa þar yfir þrjár girðingar (klofa væri réttara) og hleyp þar smá spotta meðal spakra rolla. Þá kemur brú sem mér leist í fyrstu ekkert á, enda að hruni komin. Ég hef þó lært að treysta brúnni enda er hún traustari en hún virtist í fyrstu þegar ég nánast skreið yfir hana á fjórum. Í annarri ferð fór ég á fetinu en núna trampa ég eins og mér einni er lagið og finn timbrið dúa undir loftpúðunum. En það er annað mál...!
Þegar ég hljóp hringinn um daginn í blíðskaparveðri, klofaði yfir girðingarnar og rak rollur á undan mér, tók ég eftir því að ein þeirra var sein af stað (yfirleitt taka þær sprettinn þegar þær sjá mig horfa á þær!). Hún var það lengi að koma sér af stað að ég hægði á mér og skokkaði rólega að henni og sá þá hjá henni tvö lítil lömb. Annað var aðeins rautt en mér fannst einhvern veginn fráleitt að það gæti verið blóð svo ég pældi lítið í því en þegar rollan stóð upp og hopaði undan mér sá ég hvar hildirnar hengu aftan úr henni. Rollan var því nýbúin að bera þegar ég kom og truflaði hana. Ég datt alveg úr sambandi við þessa sjón og fylltist lotningu gagnvart þessu kraftaverki. Eftir nokkrar sekúndur komst ég þó í samband þegar lagið Fuel my fire með The Prodigy blastaði af fullum krafti úr heyrnartólunum og passaði svona innilega ekki við sveitarómantíkina sem ég var að upplifa. Tónlistin kippti mér fljótt niður á jörðina og við tóku praktískar pælingar eins og hvað maður eigi eiginlega að gera þegar ær bera. Ég pírði augun á sveitabæinn en dró þá ályktun að enginn væri heima. Mér datt í hug að hringja í pabba og spyrja hann en legg ekki í vana minn að hlaupa með símann (ólíkt sumum sem svara í símann á hlaupabrettinu í Laugum..) svo ekkert varð úr því. Ég horfði á rolluna með lömbin sín og ákvað, svona til að róa mig, að rollur væru nú búnar að gera þetta í svo mörg ár að þær hlytu að vita hvernig ætti að bera sig að. Ekki vissi ég það, það var alveg klárt mál! Ég kláraði hringinn léttfætt en gleymdi alveg að minnast á rolluna við pabba þegar hann hringdi um kvöldið. Þegar ég lagði á mundi ég eftir því og þegar ég var að fara hringja aftur til að spyrja hringdi afi. Ég var náttúrulega svo yfir mig hrifinn að heyra í karlinum að ég steingleymdi að spyrja hann um rolluna og endaði á að senda Dísu litlu sms: Hvernig ber maður sig að þegar rollur bera?
Þessa fávisku mína verður bara rakin til þess sem ég fór á mis við, við það að alast upp í Reykjavík. Ég hef ekki einu sinni farið í réttir sem er náttúrulega bara Skandall með stóru S-i! Það var því ekki að ástæðulausu sem mín fékk hland fyrir hjartað þegar einn rollubóndinn í vinnunni sagði það slæmt mál að rollan hefði verið svona alein ef krummi léti sjá sig. Ég varð samt ekki vör við neina krumma, bara kríur..en ég náttúrulega heyri ekkert þegar ég er að hlusta á ipod. Ég held við getum öll verið sammála um það.
Fylgjan hjá rollunum heitir semsagt hildir..ef ég man þetta orð rétt! Ef ég er að fara með rangt mál..tja! Þá held ég að ég verði bara að krefjast þess að vera tekin í fóstur í sveit að ári og læra þessi hugtök, beint frá bóndanum.Vinir og fjölskylda | 3.6.2008 | 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í Skipholti bjó gömul kona áður en foreldrarnir keyptu húsið. Þessi kona hét Guðrún og var kölluð Gunna. Henni er lýst sem góðri konu enda er góður andi í húsinu. Það er víst nokkuð síðan þessi kona dó en mér verður stundum hugsað til hennar þegar ég er hérna. Það verður ekki sagt um hana Gunnu að hún geri vart við sig en ég heyrði um daginn að hún hefði verið sparsöm og nýtin kona sem útskýrir kannski púkann sem kom upp í henni í síðustu viku..þegar frúin gerði vart við sig!
Ég var búin að vinna 15:30 einn daginn og kom heim 10 mínútum síðar. Ég fékk skyndilegan innblástur um að skreppa inn á Akureyri og redda mér netlykli svo ég kæmist í samband við umheiminn hérna heima fyrir. Ég tók mig aðeins til henti dóti í töskuna mína en fann ekki budduna mína í fljótu bragði. Ég fór því út í bíl, sannfærð um að hún væri þar síðan mín borgaði í göngin. Ég skokkaði léttfætt út í bíl enda dásamlegt veður og margar ástæður til að vera hýr og glaður. Buddan var ekki þar. Ég fór yfir þessa helstu staði þar sem hún ætti að vera í bílnum en fann hana ekki og ákvað því að hún væri inni og skokkaði því aftur inn. Þar fann ég hana ekki eftir aðeins ítarlegri leit en áður. Ég fór því aftur út í bíl sannfærð um að mér hefði yfirsést eitthvað. Ég tók mér poka í hönd og henti smádrasli og fór nú nákvæmlega yfir bílinn enda gat hún varla annars staðar verið. Buddan fannst hvergi. Þá fór ég aftur inn og hóf afar nákvæma yfirferð yfir allt húsið (sem er nú ekki stórt) en ég tók mér góða 2 tíma í að skríða öll gólf, flokka ruslið, fara ofan í alla vasa á öllum flíkum sem ég fann (meira að segja þeim sem ég hef aldrei farið í), kíkti inn í ofn og alla þá mögulega og ómögulega staði sem ég hefði hugsanlega getað látið budduna frá mér..en allt kom fyrir ekki. Buddan var horfin! Ég hringdi og lét loka kortunum mínum, labbaði hringinn í kringum húsið með nefið í grasinu, lagðist flöt í mölina til að kíkja undir bílinn og rölti út í búð ef hún skyldi vera þar en enginn kannaðist við bleiku budduna mína.
Ég dró í kjölfarið þá ályktun að Gunna gamla hefði fengið budduna lánaða og hætti leitinni.
Ég var svosum ekki að stressa mig á þessu því ég vissi vel að Gunna gamla væri með hana, það var engin önnur rökrétt skýring á hvarfinu. Móðir mín tók hvarfinu öllu verr og tók upp á þeim óskunda að hringja í mig í vinnuna til að koma með þá frábæru uppástungu að setja upp auglýsingu í kaupfélaginu. Mér var ekki skemmt enda hélt ég að einhver væri dáinn: Bannað að hringja í mig í vinnuna! Ég vann frameftir þennan dag svo búðin var lokuð þegar ég sneri heim og fór svo á næturvakt svo ekki náði ég að setja upp auglýsinguna góðu daginn eftir. Ástandið í ísskápnum var hverfandi og sat þar ein einmana ab mjólk innan um smörlíki, sultur, þykkni, útrunnin feta ost og bjórdós (það væri þá tilefni til að hefja drykkju!). Ég var þó búin að finna pakkasúpur sem mér fannst ekki spennandi en allt er hey í harðindum eins og þeir segja. Mér hafði líka tekist að nurla saman rúmum 300 krónum í 5 og 10 köllum úr bílnum en langaði vægast sagt lítið til að fara út í búð og hella úr lófunum klinkinu yfir kassadömuna! Þetta voru pælingarnar eftir seinni næturvaktina þegar ég var búin hella í mig ab mjólkinni og var að velta því fyrir mér hvað ég ætti að éta um kvöldið. Ég sagði því stundarhátt: Gunna mín! Nú verðuru að fara skila buddunni, mig er farið að vanta hana sárlega Veðrið var gott úti svo ég ákvað að skreppa á göngu og taka myndir. Ég rölti inn í stofu að sækja vélina og verður þá litið á tölvutöskuna mína í einu horninu. Það er vert að taka það fram að ég var búin að tæma töskuna þrisvar sinnum í leitinni en taldi það ekki vitlaust að kíkja í hana í 4. skiptið og.. Obb, bobb bobb hvað haldið þið? Gunna gamla sá að sér og skilaði buddunni.
...Nú þarf ég bara að fara inn á Akureyri í Landsbankann til að opna kortin mín...
Vinir og fjölskylda | 29.5.2008 | 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
...kom inn í líf mitt einn sumardag í maí árið 2001. Það var nokkur aldursmunur á okkur en þegar ástin er annars vegar er aldur afstæður. Hveitibrauðsdögunum eyddum við í rólegum gangi eftir götum borgarinnar, dóluðum okkur eins og við ættum allan tímann fyrir okkur. Ástin blómstraði og sólin virtist kyssa okkur dag eftir dag.
Það leið ekki langur tími þar til við færðum samband okkar á annað stig og fórum í fyrstu ferðina okkar út fyrir borgarmörkin. Ég kynnti hann fljótlega fyrir fegurðinni norðan heiða og austan sem hann féll fyrir, alveg eins og ég. Hann var sem hugur minn og uppfyllti allar þarfir mínar og þrár. Við vorum sköpuð fyrir hvort annað. Ég trúði því af öllu hjarta að lífið yrði alltaf svona ástríðufullt..enda á ástin til að blinda fólk. Ég væri að ljúga ef ég héldi því fram að aldrei hefðu komið brestir í sambandið. Þegar hversdagsleikinn tók af okkur völdin og vinna og aðrar skuldbindingar fóru að taka annars dýrmætan tíma frá tilhugalífinu fór að bæra á örlitlum pirringi. Skyndilega var prinsinn ekki eins og hugur minn. Kækir sem mér hafði áður þótt krúttlegir og sætir fóru að pikka í mínar fínustu. Ég kenndi álaginu um enn sannfærð um eilífan kraft ástarinnar og reyndi eftir fremsta megni að leiða þá hjá mér. Gekk ekki. Hann skynjaði pirringinn minn og varð sjálfur pirraður á pirringnum á mér.
Það boðar aldrei gott þegar einhver er pirraður út í annan og hann verður pirraður á pirringnum í hinum. Þið vitið hvað ég á við.
Ég gat hvorki hlegið eða fundist það sætt eða fyndið þegar hann í ærslafullum leik fór að ausa yfir mig vatni. Sorrí, ég bara hafði ekki húmor fyrir því. Mér fannst það líka ekki fyndið þegar hann fiktaði í rúðuþurrkunum mínum þannig að þær virkuðu ekki í rigningu. Heldur ekki þegar þær byrjuðu að skúra þegar rigning var hvergi í sjónmáli. Þegar hann lagðist í götuna og þóttist ekki komast lengra en hrökk svo alltaf strax í gang eftir smá hvatningu. Á ég að hvetja þig áfram alltaf alls staðar? Ég er í skóla og vinnu og hef FULLT af öðrum skuldbindingum sem ég tek alvarlega!
Þar sem ég var við það að gefast upp, og ég viðurkenni að ég var farin að líta í kringum mig eftir nýjum prinsi til að uppfylla þetta tómarúm sem ástin mín var farin að skilja eftir sig, ákvað ég að gefa honum einn séns í viðbót. Ein ferð norður til að treysta sambandið, reyna að finna aftur taktinn sem hentaði okkur svo vel. Ég var stressuð fyrir ferðinni enda fannst mér hjartað mitt og heili vega salt sem er ekki góð tilfinning. Við lögðum í hann og hann lét af öllum pirrandi háttum sínum. Hann varð aftur eins og hugur minn og ég endurheimti ástina.
Ég er að segja þér það að ferðin okkar saman, alein í 4 og hálfan tíma (með smá dassi af Madonnu) styrkti sambandið svo um munar. Í dag hef ég bara augu fyrir einum prinsi og það er hann..
Prins Polo árgerð 1997 sem flaug í gegnum skoðun í síðustu viku og færði mig heila á höldnu norður.
Elska þig!
Vinir og fjölskylda | 20.5.2008 | 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Kæru vinir og fjölskylda sem droppið hérna inn! Þið eigið sannarlega allt það besta skilið og þar sem það læðist að mér lúmskur grunur um að einhverjir hefðu sennilega viljað fá einn frídag í viðbót og sitja þess vegna þungir á brún fyrir framan maskínuna... Tja! Þessi færsla er sérstaklega ætluð þér!
Í ljósi umræðna síðustu daga hef ég ákveðið að láta allt flakka. Sumir geta ekki hætt að lofsama tæknina en aðrir hallast að því að á tímum sé fljótlegra að senda flöskuskeyti en tölvupóst. Ég er reyndar farin að hallast að því líka en það er annað mál. En tæknin, og þá sérstaklega netið, eru orðin allsvakaleg uppspretta upplýsinga -mis viðkvæmra. Þannig hafa sumir laumupúkast í mörg ár vitandi af einhverju dökku leyndarmáli sem leynist á víðavangi og óskað þess af öllu hjarta að enginn hnjóti um það. Sú ósk kastar ekki frá sér miklu ljósi heldur lítilli týru. Ég tel sjálfa mig t.d. liggja sérstaklega vel undir höggi þar sem ég er eina manneskjan í þjóðskrá sem heiti Lilja Þórunn í þessari röð. Og já, það skiptir máli..hvers vegna?
Jú vegna þess.. Segjum sem svo að ég skreppi í Krónuna, sem ég geri alltaf annað slagið, til að kaupa epli fyrir afa. Þar sem ég teygi mig eftir epli rekst ég í alveg fáránlega heitan gaur sem er á höttunum eftir sama ávexti. Þetta skapar örlítið vandræðalegt augnablik sem er slúttað í hlátri. Kannski gengur bara allt svakalega vel og ef hann er heppinn fer hann heim með nafnið mitt og símanúmer (fyrir utan matvörurnar). Ef þessi gaur er tölvuvæddur að einhverju leyti er ekki ólíklegt að hann ræsi tölvuna þegar hann kemur heim og "gúggli" mig. Þar með væri þessu ævintýri, sem hófst svo eftirminnilega í ávaxtaborði Krónunnar, lokið því hvað myndi kauðinn rekast á annað en þetta:
http://www.olduselsskoli.is/tolvur/namsefniogvefir/Nemendur98_9/liljathorunn.html
Já hlæðu bara! Ég hef ákveðið að koma út úr skápnum með þetta. Nú getum við öll hlegið og gleymt þessu svo Eins og þið sjáið glögglega var síðan langt frá því að vera tilbúin.. Ég var rétt búin að minnast á Þórusys og Markús en ekki komin að Örnu. Eins er Sibba hans Grétars ranglega nefnd Sigurlaug (hvað var það!?) og hvergi er minnst á móðurfjölskylduna. Móðurfjölskyldan er reyndar ívið stærri svo sennilega ætlaði ég að klára léttari hlutann fyrst og demba mér svo út í frekari ættfræði sem hefði sennilega gert síðuna öllu áhugaverðari (..eða ekki!)
Já svona gerist þegar maður fær tölvupóst undir heitinu Google you! frá vinum sem nenna ekki að vinna og leika sér á google í staðinn. Takk Þóra mín, þetta var fallega gert ..og þó ég hafi fengið nett sjokk í fyrstu (enda "vel falið" leyndarmál) þá fannst mér þetta líka alveg óborganlegt.
Síðasta prófið að skella á..ég verð í heita pottinum í Laugardalnum kl 18:00 13.maí. Sé ég þig þar?!
Launungar Liljan
Vinir og fjölskylda | 12.5.2008 | 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
...klipparinn minn. Ég kíkti til hans á föstudaginn og gleymdi mér alveg í kjaftatörn. Þar hitti ég líka nema sem skellti skoli í hárið á mér og vá hvað hún var fær í smáspjalli. Ég er alveg glötuð í því að halda uppi samræðum við fólk sem ég þekki ekki og enda alltaf á því að kommenta á veðrið. Ekki þessi! Hún bara spurði og spurði og á tímabili var mér farið að líða eins og keppendum Gettu betur í hraðaspurningum. Þetta byrjaði rólega..
Á að gera eitthvað um helgina?
Ég: Það er próf eftir helgi, svo ég hugsa ég reyni að lesa eitthvað.
..svo kom bara runan!
Eitt eftir..
HÍ!
Hjúkrun!
3. ár!
Fjögur!
Pass..
Svo var hún svo svakalega iðin í hrósinu. Og ég er nú öll fyrir það að maður eigi að hrósa fólki og láta það vita ef það er að gera vel. Bæði líður manni vel og maður veit sjálfur að það er stundum gott að fá hrós þó maður viti ekki alltaf hvernig maður eigi að taka því. Þessi unga stúlka var bara..skulum segja að það var fátt sem hún var ekki ánægð með..nema kannski rótina sem var orðin vel sýnileg.. Gaman að þessu!
Í morgun ákvað ég svo að kíkja í messu í Seljakirkju. Mér finnst það eitthvað svo lögleg afsökun til að taka sér hlé frá bókum, fyrir utan hvað það er nú gott fyrir sálartetrið. Mér fannst eitthvað hráslagalegt úti og fór því í gammósíur undir gallabuxurnar sem ég geri t.d. aldrei á veturna enda löngu sannað að ég kann ekki að klæða mig eftir veðri.. Þegar ég hljóp inn á síðustu stundu mætti ég Valgeiri í fullum skrúða. Ég heilsaði Valgeiri og tók í hönd hans sem leiddi af sér komment um kulda handa minna (mér er reyndar alltaf kalt á höndunum..er bara þannig). Nú hef ég OFT fengið komment um það að ég sé handköld og vara t.d. alltaf sjúklingana mína við áður en ég æði upp um það með frosna fingur, fyrir utan ótalmörg komment frá afa. -En afi hlýjar mér alltaf svo það er bara gott. ALLAVEGA!
Ég var óvenju snögg í svari við Valgeir blessaðan og sagði: Já en ég er nú samt í gammósíum!
Hvers vegna ég ákvað að deila því með honum að ég væri í gammósíum er mér hulin ráðgáta. Reyndar alveg týpískt svona "orðheppin ég" -móment. Ég má kannski þakka fyrir það að hafa ekki talað um önnur klæði sem standa mér nær við sérann!
If only there was something in your head to control the things you say...!
Vinir og fjölskylda | 11.5.2008 | 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég smellti mér í gönguna: Göngum gegn slysum í gær. Það var gengið frá Hringbraut upp í Fossvog ..og það var rölt hægt! Gangan er frábært framtak hjúkrunarfræðinga á spítalanum til að vekja fólk til umhugsunar um ábyrgðina sem fylgir því að setjast undir stýri en í ár var fókusinn settur á unga ökumenn. Gangan minnti mig helst á það þegar maður gengur úr kirkju á eftir kistu og hvað þau skref eru manni oft erfið. Maður getur bara ímyndað sér hversu þung þessi skref hljóta að vera þegar menn kveðja ástvini sem hafa kvatt snögglega (sem eftir bílslys) og hvað sú sorg er nístandi. Þetta varð svo enn áhrifameira þegar maður rölti á eftir fólki merkt rannsóknarnefnd bílslysa, uppdressuðum útfarastjórum, lögreglumönnum og heilbrigðisstarfsfólki.
Þetta snertir nefnilega svo marga.
*Hugs*
Próf númer 2 var í dag og ég tók netta dansveiflu heima í eldhúsi og söng hástöfum með Heimilistónum í tilraun til að losna við stressið í morgun. Það var hvorki falleg sjón né notaleg fyrir önnur skynfæri...!
En nú ætla ég að henda mér í sturtu áður en ég fer niður í bæ -í strætó! Í þessu veðri hefur SVR ýmsa augljósa kosti fram yfir Prinsinn sem míglekur!
Já og frábærar fréttir, mér sýnist allt benda til þess að ég geti tekið sálgæsluna hjá honum Sigfinni næsta haust Er ótrúlega spennt yfir því, )
..Þóra ég bíð eftir hringhendu!
Vinir og fjölskylda | 9.5.2008 | 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eftir prófið í gær hitti ég Þóru og Helgu á Garðinum og hló einhver ósköp þegar ég misheyrði orðið mailfélagi sem meyfélagi. ...Löööng saga! En það er frekar stuttur þráðurinn í manni í prófunum, segi ekki annað. Ég verð samt að viðurkenna að ég var nokkuð fúl yfir því að spurning um undiröldu vonar skyldi ekki skila sér á prófblaðið. Ekki að ég botnaði eitthvað í þessu hugtaki nema að þrír meginþættir þessarar ágætu vonar væru áhætta, tálsýn og hreyfing. Hvað segir það okkur?! ...einmitt!
En að öðru..
Hjúskaparstaða er eitthvað sem fólk pælir mismikið í. Það er svona svipuð spurning og pör fá eftir ákveðinn tíma um barneignir sem einhleypir fá um stöðuna. Saklaus komment einhleypra í vinahópi getur velt af stað stóru flóði og leyst áður óþekktar vísnagáfur úr læðingi. Þó fullorðnir eigi það til að vera forvitnir eru þeir samt aldrei jafn hreinskilnir og yngri kynslóðin. Sem leiðir mig að gullkornunum en í gær áttu pabbi og Hjalli afmæli...
Ég sótti afa í súpu, Þóra, Markús, Helena og fylgdarlið kíktu líka við. Ég rölti inn í sólstofu að hitta grísina og fékk þetta fína knús frá Kára og Álfheiði Kristínu. Álfheiður leit upp til mín, setti hendurnar á magann á mér og spurði: Hvenær verður maginn á þér stærri Lilja? Þetta kom svo flatt upp á mig (enda einmitt að prísa mig sæla með að danska brauðbumban sé á undanhaldi ) að ég var ekki farin að svara þegar kellan bætti um betur og sagði: Kannski verða þau TVÖ! Ég horfði á kerlinguna mína sem er orðin 4 ára og velti því fyrir mér hvort ég ætti eitthvað að ræða þetta nánar við hana með tilheyrandi fræðslu en ákvað að láta foreldra hennar alfarið um það. Flíkin sem ég var í fór hins vegar aftast í fataskápinn undir flokkinn TÍSKUSLYS Ef orðið 'megrun' væri til í minni orðabók hefði ég sennilega velt því fyrir mér á þessari stundu.
Eftir súpuna skruppum við svo til Hjalla og ég deildi þessari sögu með frænkum mínum. Þá sagði Þóra systir mér frá skemmtilegu samtali sem átti sér stað í bílnum á leiðinni til Hjalla:
Þorri: Lilja er hætt að horfa á sjónvarpið.
Þóra: Nú?
Þorri: Það vill hana örugglega ENGINN. Hún horfir ekki á sjónvarp og borðar ekki nammi.
Sem eru mjög eftirsóttir kostir í fari einhleypra stúlkna...! Nammi og sjónvarpsgláp
Bara 2 próf eftir..gleði, gleði, ást og friður
Vinir og fjölskylda | 7.5.2008 | 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)